01.04.1982
Neðri deild: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3487 í B-deild Alþingistíðinda. (3044)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það þokast áfram hægt og hægt umr. og afgreiðsla í lánsfjárlögum og lánsfjáráætlun. Við 2. umr. ræddum við mjög ítarlega bæði lánsfjáráætlunina og störf í fjh.- og viðskn., spurðum hæstv. fjmrh. og aðra ráðh. allmargra spurninga, en svör við þeim spurningum fengust yfirleitt ekki. Fjmrh. sat hér inni, en svaraði ekki við þessa umr. nema örlitlu af öllu því sem fram kom. Síðan liðu, mig minnir, tveir dagar eða svo uns málið kemur hér til 3. umr., og þá hefur hæstv. ráðh. upp raust sína og ræðst með miklum bægslagangi á stjórnarandstæðinga og talaði þar mjög fjálglega um sína miklu snilli sem fjmrh. og alveg sérstaklega gaf hann góða glansmynd af glæstum fjárhag ríkissjóðs, en tók þó jafnan fram í ræðu sinni að hér væri aðeins átt við A-hluta fjárlaga. M.ö.o.: B-hluti fjárlaga er einhver annar kapítuli í ríkisrekstrinum sem hæstv. ráðh. virðist ekkert varða um.

Hann sagði og þandi mjög út brjóstkassann: Hvar eru brtt. stjórnarandstöðunnar? Vill stjórnarandstaðan taka enn meira af erlendum lánum? Er þetta það sem hún leggur til mála? Það er rétt að stjórnarandstaðan flytur ekki brtt. og situr mjög á sér að lækka framlög til ýmissa framkvæmda sem ríkisstj. er búin að ákveða. Ástæðunnar fyrir því, að það er erfitt um vik að flytja brtt., er fyrst og fremst að leita til aðgerða hæstv. ríkisstj. á s.l. ári og í upphafi þessa árs. Ef stjórnarandstaðan hefði ráðið á s.l. ári væri fjárfestingaráætlunin tugum ef ekki hundruðum millj. kr. lægri upphæð en sú sem við er að glíma núna. En hvað gerðist? Það var tekin upp sú óheillavænlega stefna í efnahagsmálum að reka atvinnulífið, reka stórfyrirtækja ríkisins með stórhalla, og afleiðingin er að koma núna í ljós. Það er verið að taka erlend lán fyrir ríkisfyrirtæki til að borga hallann frá s.l. ári, til að borga fölsunina sem ríkisstj. viðhafði í sambandi við verðbólguna.

Við erum þegar að byrja að súpa seyðið af vitlausri stefnu ríkisstj. sem ekki veit sitt rjúkandi ráð. En hún er ekkert að vitkast, þessi ríkisstj. Hún veður áfram í villu og svima. Hún heldur vitleysunni áfram og veður upp fyrir axlir forina. Hvað hefði mátt spara í fjárfestingum í skipakaupum á s.l. ári? Við hefðum alfarið stöðvað allan innflutning skipa á árinu 1981 og árið 1982 hefðum við ráðið, vegna þess að flotinn er nógu stór. Og það hefur annað komið upp á sem skiptir líka miklu máli. Það eru 52 skip, sem hafa stundað loðnuveiðar, núna komin á bolfiskveiðarnar og eru núna að veiða þann kvóta sem skammtaður er samkvæmt tillögum sérfræðinga okkar, en í staðinn fyrir að halda að sér höndum er farið út í geðþóttaákvarðanir við innflutning fiskiskipa. Það kæmi mér ekki á óvart að þar réði mestu ef menn gætu sýnt flokksskírteini í Framsfl., en ekki hvar þörfin sé mest. Þar er ýmislegt að koma á daginn sem mun ekki gera lýsinguna á þessari stjórn og stjórnarsamstarfi fegurri en þegar þessir menn eru sjálfir að lýsa hver öðrum á undanförnum dögum og vikum.

Það eru fleiri hneyksli til en hér hefur verið lýst á þingi og þau eru að koma upp á yfirborðið. Það er kominn tími til að hræra upp í því spillta stjórnkerfi sem hér ræður ríkjum. Það var ekki til þessarar stjórnar stofnað af heilindum, heldur með svikum og prettum. Ferill hennar er ekki langur, rúm tvö ár, en hann er varðaður af svikum og prettum. Andrúmsloftið innan stjórnarinnar er orðið þannig að þar treystir enginn öðrum. Það eru allir tilbúnir að svíkja hver annan — ekki á milli flokka, heldur líka á milli manna — í þessari stjórn. Var ekki formaður þingflokks Framsfl. að lýsa vinnubrögðum ákveðinna manna hér í gær síðast? Hvernig hefur utanrrh. lýst vinnubrögðum iðnrh. og félmrh.? Menn taka sig til og gefa stórar gjafir á kostnað þjóðarinnar ef þeir þurfa að hafa einhverja góða í kjördæmum sínum. Þetta eru vinnubrögð þessarar svikastjórnar og það er ekki von að vel fari. Það fer allt illa sem er illa stofnað til. Það getur ekki farið á annan veg.

Ég hefði haldið að eftir þá gusu, sem kom frá fjmrh. í upphafi 3. umr., skýringuna á niðurskurði, væri full þörf á að vísa þessu máli aftur til umfjöllunar í fjh.- og viðskn. Formaður nefndarinnar hefur verið veikur þangað til í gær og þá sneri ég mér til hans og spurði hvort ekki væri hægt að fá fund í nefndinni í morgun, sem hann kvað ekki vera hægt því hann væri upptekinn annars staðar. Það er auðvitað ekkert við því að segja. En ég var að fá núna frá form. nefndarinnar þó nokkurn doðrant um lækkun ríkisútgjalda, nú rétt áður en fundur hófst. Ég endurtek þá kröfu okkar sjálfstæðismanna og Alþfl. að um þessi atriði úr ræðu fjmrh. verði fjallað um í fjh.- og viðskn.

Við höfum ekki á móti því, síður en svo, að lækka útgjöld ríkisins samkvæmt fjárlögum þar sem hægt er að lækka þau, en við höfum á móti því að lækka útgjöld með þeim hætti að það sé aðeins á pappírnum, en fái engan veginn staðist að öðru leyti.

Hæstv. fjmrh. sagði að að undanförnu hefði verið unnið að sparnaðaraðgerðum í ríkisfjármálum í samræmi við samþykktir ríkisstj. og aðgerðir til lækkunar ríkisútgjalda séu í fyrsta lagi að lækka öll framlög til framkvæmda um 6%. en það lækkar útgjöld um 32 millj. kr. Þá ber að hafa í huga, þegar sá niðurskurður er nefndur á nafn, að að sjálfsögðu skiptir mestu máli fyrir framkvæmdaaðila hvert verður verðbólgustigið á árinu. Alveg er ljóst að þessar aðgerðir verða til þess að verðbólga verður 12–13% minni en ella hefði verið, miðað við þær spár sem fyrir lágu um áramótin, en þá var gert ráð fyrir, sagði fjmrh., að verðbólga væri á nýjan leik á uppleið. — En af hverju miðar ráðh. ekki við fjárlög? var þá spurt hér úr sal. Vegna þess að reiknitala fjárlaga var sett inn í fjárlagafrv. á s.l. sumri, sagði hann, og kemur í raun og veru ekki þessu máli við að öðru leyti en því, að hún er sú viðmiðunartala sem fjárlögin miðast við. Hann sagði jafnframt að því hefði ekki verið haldið fram, hvorki á s.l. sumri, þegar fjárlög voru sett fram, né síðar, að reiknitala fjárlaga fæli í sér spár eða endanleg fyrirheit um verðbólgu á þessu ári. Það var einmitt sérstaklega tekið fram í frv. til fjárlaga og margétið upp, sagði ráðh., af stjórnarandstöðunni í umr. um fjárlög að þetta skyldi vera reiknitala og ekki spá um verðbólgu þannig að þegar af þeirri ástæðu væri ljóst að reiknitala fjárlaga kemur ekki þessu máli beinlíms við. Þannig smeygði hann sér út úr þessu, en heldur óhöndulega. Ég tel að vitaskuld verði að fara eftir réttum forsendum, bæði við gerð fjárlaga og þá ekki síður við gerð lánsfjárlaga, þegar þriðjungur er liðinn af því ári sem lánsfjárlögin eiga að gilda.

Við héldum því hér fram og það með réttu, að í þessum lánsfjárlögum væri ofmetin innlend fjáröflun til að standa undir lánsfjáráætluninni — og þá eigum við ekki síst við sölu spariskírteina. Á yfirstandandi ári reiknum við með 150 millj. kr. fjáröflun í spariskírteinum, en hún reyndist ekki vera nema 43 millj. kr. á árinu 1981. Á þessu ári er ætlað afla frá lífeyrissjóðum um 460 millj. kr. til Framkvæmdasjóðs, húsnæðismálasjóða, Stofnlánadeildar landbúnaðarins og ríkissjóðs, en í fyrra var þessi fjáröflun um 270 millj. kr. Er óeðlilegt að við í stjórnarandstöðu höldum fram að hér sé teflt á mjög tæpt vað og raunar meira, að hér er gengið lengra en nokkrir möguleikar eru til að afla fjármagns með þessum hætti? Þá höfum við líka í huga efndir ríkisstj. á öflun fjár til lánsfjárlaga á s.l. ári. Þá vantaði 53 millj. kr. til Framkvæmdasjóðs, eins og allir vita, og ég rakti við 2. umr. vöntunina til húsnæðismálasjóðanna. Erlend fjármögnun hefur verið aukin svo stórkostlega að stefnumið ríkisstj. hafa gersamlega hrunið. Í stjórnarsáttmálanum segir um þessi efni, að erlendar lántökur verði takmarkaðar eins og kostur er og að því stefnt að greiðslubyrði af erlendum skuldum fari ekki fram úr um það bil 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar á næstu árum, en með þessari afgreiðslu er hún komin í 19% eða að næstum því fimmta hver króna, sem fæst fyrir þær afurðir sem seldar eru úr landinu, fari í afborganir og vexti af skuldum. Og áfram er þessari skuldaaukningu við útlönd haldið. Ekki líkt því allt er innan ramma lánsfjárlaga, því hvað vitum við óbreyttir þm. um langlánanefndina og hvað er verið að sulla þar? Það eru nefnilega alveg einstakir sullukollar sem núna ráða ríkjum í þessu landi. Það verður heldur betur verk að taka til og þurrka upp eftir að þjóðin verður svo hamingjusöm að losna við þessa óheillafugla úr ráðherrastólunum.

Ég sagði áðan: Ætli það væri ekki einhver munur í þessu landi ef það hefði verið staðið við þau fyrirheit að fjölga ekki skipum eins og gert hefur verið? En farið er út í sullumbull eins og hæstv. sjútvrh. og hæstv. viðskrh. eru að gera. Það er ekki að ófyrirsynju að hæstv. forseti Sþ. flytji þáltill. um að kanna til hlítar hvernig skip eigi að byggja til að eyða sem minnstri olíu, því sennilega hefur honum orðið töluvert um þegar Sjólaskipið kom til Hafnarfjarðar, eins og búið var að breyta stefninu á því. Ég held að þeir séu ekki margir, a.m.k. ekki í sjómannastétt, sem vilja fá slíkt framsóknarlag á flota landsmanna.

Nei, hæstv. fjmrh., ég ætla að biðja þig að muna eftir því, að lánsfjárlögin hefðu orðið hundruð millj. lægri og annar innflutningur ef hefði verið farið að okkar ráðum. Ef þið hefðuð reynt að halda svolítið í skankana á þessum tveimur framsóknarráðherrum hefðuð þið staðið betur að vígi núna og þá hefði hæstv. fjmrh. kannske getað talað með virkilegri breidd hér, en ekki bara með belgingi eins og hann gerði í upphafi 3. umr. Það mætti líka fara að halda svolítið aftur af iðnrh. sem hefur nú sofið í tvö ár, en fengið svo ofsalegt kast eftir að hann vaknaði að hér rignir niður frv. á borðin og það kvað vera unnið allan sólarhringinn í Gutenberg til að prenta frv. iðnrh. Það er betra að sofa minna á milli og hafa þetta eitthvað jafnára.

Í sparnaðaráformum ríkisstj. til niðurgreiðslu segir að það skuli skera niður útgjöld til Tryggingastofnunar ríkisins um 20 millj. kr. Það er aftarlega á merinni í þessari upptalningu. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Með hvaða hætti ætlar hann á níu mánuðum á þessu ári að skera niður til Tryggingastofnunar ríkisins um 20 millj. kr.? Hvað á að skera þar niður? Nú eru rekstrarútgjöld Tryggingastofnunar ríkisins ekki nema örlítið brot af því fjármagni sem fer í gegnum þá stofnun sem að niðurskurður upp á 20 millj., upp 2000 gamlar milljónir, á níu mánuðum getur ekki verið framkvæmanlegur nema skera um leið niður annaðhvort sjúkratryggingar eða líftryggingar þá, ellilaunin eða hvort tveggja. Annað fær ekki staðist. Það fylgir engin skýring frá hæstv. ráðh., ekki nokkur. Á að fara inn á þessa braut? Þá verður líka að lækka útgjöldin til sjúkrahúsanna þó vitað sé að það á langt í land að hægt sé að greiða rekstrarhalla sjúkrahúsanna frá s.l. ári eða halann frá s.l. ári. Það form, sem er á greiðslum til sjúkrahúsa, var að sumu leyti gott þegar það var tekið upp. Miðað við að verðbólgan væri ekki mjög mikil, eins og var þegar það var tekið upp, gat það gengið. En í þeirri miklu verðbólgu, sem við höfum lifað í á undanförnum árum, hefur þessi hali verið að lengjast svo gífurlega að það hefur verið gripið til þess ráðs að loka stundum einstökum deildum eða þá að þau sjúkrahús, sem eru í eigu sveitarfélaga, hafa þá gripið til bæjarsjóðs á hverjum tíma. Allt þetta er í óvissu, en samt er talað um að skera enn meira niður. Það liggur ekkert fyrir í þessum efnum, — ekkert nema sundurlausar vangaveltur um niðurskurð, sem fá engan veginn staðist. Svo má líka bæta því hér við, sem skiptir ekki minna máli, að við afgreiðslu fjárlaga voru þessi útgjöld allt of lágt áætluð. Ég man vel að framlög til Tryggingastofnunar ríkisins voru a.m.k. áætluð 20 millj. kr. of lág. Auk þess hafði stofnunin gengið á sjóði, sem eru í hennar vörslu, til að borga út það sem á að gera lögum samkvæmt svo þessi upphæð er hærri. Svo kemur ríkisstj. og segist ætla að skera enn þá niður um 20 millj. Það er ekki heil brú í þessu. Það er alveg sjáanlegt að það veit enginn í þessari stjórn hvert er verið að fara eða hvert stefnir. Þetta flak rekur fyrir sjó og vindi stjórnlaust með öllu. Skipstjórinn þekkir ekki einu sinni á kompásinn, ef það er þá nokkur kompás um borð.

Í sambandi við niðurskurð til hinna ýmsu sjóða komum við aftur að töluvert stóru atriði. Það á að draga úr fjárfestingu. Það er sjálfsagt að leita samstarfs ríkisstj. og stjórnarandstöðu um það þar sem það er hægt. En þegar á að fara að draga úr fjárfestingu verður það að gerast með þeim fyrirvara að sjóðsstjórnir viti það fyrirfram. Við skulum hafa það í huga, að það, sem brást við fjárútvegun samkvæmt lánsfjárlögum á árinu 1981, hefur hlaðist upp hjá atvinnuvegasjóðnum. 53 millj. kr. fjárvöntun á s.l. ári til Framkvæmdasjóðs til að endurlána atvinnuvegasjóðunum gerir það að verkum, að þetta var ekki vitað fyrr en í árslok. Þá voru þessir sjóðir búnir að ráðstafa þessu fjármagni til útlána. Svo kemur árið 1982. Þegar þrír mánuðir eru liðnir af árinu segir ríkisstj.: Við ætlum að skera enn þá niður um 6%. Þetta vita allir menn að fær ekki staðist. Ég ætla ekki ráðh. svo grunnhyggna að þeir viti þetta ekki líka. En af hverju eru menn að rembast við að sitja við verk sem þeir geta ekki unnið? Því fá þeir sér ekki heldur hvíld? Aldrei getur komið verra en þetta fyrirbrigði. Það, sem kæmi í staðinn, væri alltaf eitthvað skárra og jafnvel miklu skárra.

Hæstv. fjmrh. segist ætla að spara og spara og nú ætlar hann að spara, segir hann á yfirvinnu ríkisstarfsmanna, draga úr henni. Það verður fróðlegt, áður en a.m.k. stjórnarliðið réttir upp hendur með þessum lögum, að þá að vita hvað hafi þegar verið skorið niður af yfirvinnu í sjálfum ráðuneytunum. Og hæstv. fjmrh. ætlar að skera niður utanlandsferðirnar, segir hann. Þar er ég honum alveg sammála. En ég er honum ekki sammála í því, að um leið og hann skrifar sparnaðarbréfið fóru sex ráðh. á Norðurlandaráðsþingið og fóru með á milli 20 og 30 manns með sér. Þetta er ekki góður sparnaður. En eitthvað virðist þeim vera að fara að ofbjóða eyðslan í þessum efnum. Eitthvað hafa þeir séð. Ég lagði fram fsp. 11. nóv. í vetur, þar sem ég óskaði skriflegs svars við spurningu um utanlandsferðir á vegum hins opinbera. Ég hef einu sinni spurt um þetta utan dagskrár í þingi. 11. þ. m. — ég held að það sé páskadagur — eru liðnir fimm mánuðir frá því að þessi fyrirspurn var lögð fram, en það fæst ekkert svar. Hvað er það sem verið er að fela? Af hverju má ekki sýna mönnum þetta? Þetta var gert á þeim árum sem ég átti sæti í ríkisstjórn Geir Hallgrímssonar. Þá spurði einn ágætur þm. um nákvæmlega sama. Það var auðvitað farið í að svara því, enda þingleg skylda að svara þeim fyrirspurnum sem leyfðar eru hér á hv. Alþingi. En eitthvað hefur nú farið fyrir brjóstið á sumum ráðh. Eitthvað hafa þeir skoðað þessi plögg fyrst fjmrh. tekur við sér og segir að það þurfi nú að fara að draga úr þessu. En af hverju mega þm. ekki sjá þetta og þjóðin?

Mig langar líka til að minna hæstv. fjmrh. á það, sem ég gerði einnig við 2. umr., að ágætt er að reyna að taka afmarkaðan hluta fjárlaga og sýna viðunandi útkomu, en það er ekki eins gott að láta það viðgangast hjá ríkissjóði að fresta því að greiða reikninga á sjálfan ríkissjóð. Á sumum stöðum í ríkiskerfinu er reikningunum safnað í kassa og verða nokkurra mánaða gamlir. Ég veit ekki hvort þeir eru saltaðir. En það er geymt. Það er gott að segjast vera góður fjmrh„ en vera svo skuldseigur að borga ekki reikninga fyrr en eftir langan tíma og segja: Sjáið þið bara hvað ég stend mig vel hjá honum Jóhannesi Nordal í Seðlabankanum. — Ef allt væri tekið upp úr kössunum, sem bíður að borga, þendi hann ekki brjóstkassann út eins og hann gerði við upphaf 3. umr. Þegar aðrir skulda, þegar þegnarnir í landinu skulda ríkissjóði, fá þeir á sig refsivexti ef þeir koma ekki og greiða á réttum tíma, að jafnaði 4.75% á mánuði og í sumum tilfellum meira hvað varðar t.d. vanskil á söluskatti. Nú deilum við ekki um það, stjórn og stjórnarandstaða, að menn eiga að greiða gjöld sín á réttum tíma og menn eiga að greiða sína reikninga á réttum tíma. Það á ríkissjóður líka að gera og ríkisstofnanir. Það á að vera samræmi í þessu. Þetta á að vera gagnkvæmt, en það er það ekki og þar er líka hægt að blekkja fólk.

Í sjálfu sér finnst mér ekki óeðlilegt að þá séu tekin lán erlendis, sérstaklega ef þau lán skila sér í miklum gjaldeyrissparnaði og í fyrirtækjum sem skila góðum arði og standa undir sínum fjárfestingum. En ef við lítum á lánsfjárlögin á milli ára 1981 og 1982 er það eftirtektarvert, að til orkuframkvæmda er samdráttur á milli 40 og 50%. Sá framkvæmdamáttur erum við flestir eða allir sammála um að hefði gjarnan mátt halda sér í skynsamlegum framkvæmdum bæði hitaveitna og orkumála. Þessi ríkisstj. setti sér það í upphafi að vera mjög djörf og fljótráð og fljót að taka ákvarðanir í orkumálum, en það hefur gengið með þeim hætti, að nú er hér um að ræða samdrátt á milli 40 og 50% á milli þessara tveggja ára.

Ég veit að hæstv. fjmrh. segir: Þetta mál og þetta frv. er búið að vera allt of lengi í meðferð fjh.- og viðskn. Nd.Vitaskuld má alltaf deilda um það og reyna að kenna einhverjum um, því alltaf verður einhver að vera til að hengja. En þetta frv. er ekki fullkomnara frá hæstv. ráðh. en það, að hann flytur sjálfur brtt. við það við 3. umr. Það undarlega er að þetta er brtt. við frv., en það liggur fyrir brtt. frá stjórnarþingmönnum í fjh.- og viðskn., þm. Framsfl. og þm. Alþb., um sama efni. Hún er um að við frv. bætist ný grein, sem verði 34. gr. og er þess efnis, að fjmrh. sé fyrir hönd ríkissjóðs heimilt á árunum 1982–1985 að ábyrgjast gegn þeim tryggingum, sem hann metur gildar, með sjálfskuldarábyrgð lán til smíði á fiskiskipum innanlands sem nemi allt að 80% smíðaverðs. Þetta mál kom í febrúarmánuði fyrir fjh.- og viðskn. í tillögu frá ríkisstj. Þá var um að ræða einfalda ábyrgð ríkissjóðs er næmi allt að 80% smíðaverðs samkvæmt mati ríkisábyrgðasjóðs. Sú till. var að veltast fyrir ríkisstj. og þm. stjórnarliðsins í þessari nefnd alllangan tíma. Á síðustu dögum áður en nefndin gekk frá nál. sínu skýrði formaður nefndarinnar frá því, að þessari einföldu ábyrgð yrði breytt í sjálfskuldarábyrgð. Þegar till. frá þessum þm. í nefndinni var lögð fram hér í þinginu við 2. umr. var búið að breyta þessu aftur í einfalda ábyrgð. Við atkvgr. við 2. umr. tók formaður nefndarinnar þessar till. aftur til 3. umr. Og nú við 3. umr. flytur fjmrh. nýja till. þvert ofan í hinar, eins og þeir tali ekki saman, fulltrúar stjórnarliðsins í fjh.- og viðskn., og það er brtt. við frv. til lánsfjárlaga, en þetta er brtt. við brtt. sem fyrir liggur frá þremur þm. stjórnarliðsins í fjh.- og viðskn. Nú er aftur komið inn á sjálfskuldarábyrgð. Þeir eru búnir að fara a.m.k. þrjá hringi opinberlega og vafalaust mjög marga innan ríkisstj. í þessu máli. Þetta sýnir auðvitað stefnufestuna, eins og allt annað. Það er ekki einu sinni hægt að trúa stjórnarþingmönnum í fjh.- og viðskn. fyrir að flytja brtt. við eigin till., að breyta úr einfaldri ábyrgð í sjálfskuldarábyrgð, heldur verður fjmrh. að gera það sjálfur. Hann sagði í upphafi 3. umr. að hann gerði þetta vegna þess að formaður nefndarinnar væri sjúkur. Þar voru tveir aðrir alveg við fulla heilsu, en hann treysti þeim ekki til að flytja þessa till. Sjálfs er höndin hollust, má kannske segja, en ekki er þetta traustvekjandi.

Ég held að hæstv. fjmrh. og þá ekki síður hæstv. iðnrh. hefðu átt að skýra þingheimi betur frá hvernig þeir hugsa sér að raðsmíði skipa gangi fyrir sig. Ég er alveg sammála hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðh. um að skipasmíðaiðnaður einn stendur ákaflega höllum fæti og hann á við afar erfiða samkeppni að stríða, því að skipasmíðaiðnaður nágrannaþjóða okkar er borgaður niður af ríkisvaldi þeirra þjóða og því hlýtur samkeppnisaðstaða þessa iðnaðar okkar að vera mjög erfið. Þar við bætist að við erum sennilega með fimm-, sex-, sjöfalda verðbólgu á við þessar þjóðir. En á sama tíma er þetta sagt: Við smíðum bara áfram fiskiskip fyrir sjávarútveginn þó að það sé sjáanlegt að það er ekki nokkur grundvöllur fyrir rekstri þessara nýju skipa. Áður sögðu menn: Það er í lagi að koma með nýtt skip. Verðbólgan hjálpar okkur. Við fáum góða aflamenn á ný skip. Við fiskum meira en á gömlu skipin og vextir eru meira eða minna bundnir. — En nú er þessu ekki lengur til að dreifa. Nú eru takmarkanir á öll skip við veiðar, hvort sem þau eru ný eða gömul, og því geta þessi nýju skip ekki skarað fram úr hvað snertir aflamagn. Og vöxtunum af öllum stofnlánum fylgir verðtrygging. Þeir fylgja verðbólgunni. Skipin halda áfram að hækka í verði þó þau séu byrjuð að veiða. Þess vegna er þessi stefna, að byggja með þessum hætti án þess að líta á þetta frá hendi ríkisstj. sem iðnaðarmál, fjarstæðukennd stefna. Sjávarútvegurinn getur ekki staðið undir þessu. Þetta vita þessir hæstv. ráðh. mætavel.

Samkv. áætlun, sem gerð var á vegum Framkvæmdastofnunar ríkisins í ágústmánuði á s.l. ári, lauslegri áætlun yfir stofnkostnað og rekstur slíks nýs 500 tonna skuttogara eða innan við 500 tonn, hefði slíkur skuttogari þurft að fiska 16 400 tonn til að standa undir sér, til að standa við skuldbindingar sínar. Þetta hefur breyst síðan til hins verra. Aflahæstu skipin eru með um eða innan við 6000 tonn. S já því allir hvað er verið að fara með þessum hætti. Það er engin samvinna höfð á milli ríkisstj. og aðalstofnlánasjóðs sjávarútvegsins, Fiskveiðasjóðs. Þar sækja menn unvörpum um skip, bæði um smíði innanlands og eins innflutt. Þeim umsóknum er synjað. M.a. kemur fram niðurskurður til Fiskveiðasjóðs og mikil ásókn í þessi lán á s.l. árum. Samt ætlast ríkisstj. til að hægt sé að hefja raðsmíði með þessum hætti. Vitaskuld er traustara að bjóða fram sjálfskuldarábyrgð en einfalda ábyrgð, það skal fúslega viðurkennt. En hvaða stofnun á að lána 80% út á þessa ríkisábyrgð? Ekki eru það viðskiptabankarnir því að verið er að auka bindiskyldu þeirra og krafa ríkisstj. er að þeir dragi úr útlánum sínum. Þeir hafa fengið bágt fyrir hvað þeir hafa lánað almenningi. Samt er komið hér og sagt: Við ætlum að setja þessa smíði af stað. Það er engin skýring á hvar þessir peningar eiga að fást. Dettur nokkrum í hug að skipasmíðastöðvarnar í landinu geti svo útvegað sér 20% til viðbótar þessu láni? Það verður ekkert hægt að fara annað en til útlanda. Það er ekki um neinn annan peningamarkað að ræða en erlenda fjármögnun. Hún er ekki inni í þessu dæmi svo að ef þessi stjórn heldur áfram með svona stefnu eða stefnuleysi er ekki lengi verið að fara upp í fjórðung af útflutningstekjunum í afborganir og vexti af erlendum skuldum. Hvað verðum við lengi að ná Pólverjum ef þessi hryggðarmynd heldur áfram að stjórna landinu?

Fyrir tæpum tveimur árum var lagður skattur á alla skattborgara í landinu til Framkvæmdasjóðs aldraðra. Fjmrn. situr á þessari innheimtu. Það sem innheimt er, er ekki greitt til þessa sjóðs og var þetta þó nefskattur sem við, bæði ég og fleiri, samþykktum að leggja á þrátt fyrir að við erum andvígir svokölluðum nefsköttum. Við gerðum það vegna málefnisins, vegna þess að við treystum því, að þetta væri aðeins til bráðabirgða og til að hraða framkvæmdum við dvalarheimili aldraðra eða elliheimili í landinu. Þess vegna stóðum við með hæstv. heilbr.- og trmrh. í því, að þetta gjald yrði lagt á. En hvað skeður? Fjmrh. liggur á þessu eins og ormur á gulli og borgar ekkert til aldraðra. Ég heyri ekki stunu eða hósta frá flokksformanni hans, heilbr.- og trmrh., út af þessu hátterni. Ég sé ekki að Þjóðviljinn minnist á þetta einu orði og hefur hann þó verið skeleggt baráttutæki fyrir þá sem minnst mega sín og þurfa á betri aðhlynningu að halda. Nú er allt í lagi. Það er ekki sama hver liggur á krónunum, hvort það er Arnalds eða einhver annar. Þetta lækkar auðvitað skuldina við Seðlabankann, það er alveg rétt. Það er kannske það sem skiptir höfuðmáll.

Hæstv. ráðh. talar mikið um hvað þjóðin hafi orðið fyrir þungum búsifjum núna. Loðnan hefur horfið af miðunum og svo getur farið, að engin loðnuveiði verði á þessu ári. Vitaskuld er þetta mikill skaði fyrir þjóðarbúið og fyrir alla þá sem þennan atvinnuveg stunda, bæði á sjó og landi. En ég vil benda á það, að fyrir skynsamlega stefnu, sem tekin var upp á árunum 1874–1978 um fiskvernd, um aukna möskvastærð í botnvörpu og samningana um að koma útlendingum út úr 200 mílna landhelgi, skapaðist grundvöllur undir vaxandi þorskveiði. Þá mátti ekki fara yfir 230 þús. tonn. Það voru landráð að fara yfir 230 þús. tonn. Sennilega hefði sá, sem var sjútvrh. þá, verið skotinn ef hann hefði verið ráðh. í einhverju öðru landi, eftir því sem fjölmiðlar þá höfðu upp raust sína. En hvað hefur komið á daginn? Sérstaklega þorskstofninn hefur styrkst. Vísindamenn hafa gerbreytt tillögum sínum. Það hefur öll árin verið veitt miklu meira og þrátt fyrir það hækka tillögur vísindamanna um veiði. Bolfiskveiðin hefur aukist sem nemur og rúmlega þó því verðmæti sem við fengum fyrir loðnuna þegar mest var veitt af henni og verðið var best.

Hvernig stæðum við að vígi núna ef við ættum að búa við sama aflamagn og var á þessum árum? Þá væru fyrst erfiðleikar í þessu landi. Þá væri erfiður fjárhagur og erfitt um atvinnu víða. En hér hefur ekki orðið neinn samdráttur af þessari ástæðu. Eina breytingin er heldur í jákvæða átt, örlítil aukning á síldveiðum. Þessi ríkisstj. lifir því algerlega á þeim aðgerðum sem gerðar voru 1974–1978.

Ég ætla enn á ný að endurtaka þá kröfu okkar, að þetta mál og þessi niðurskurður fái meðferð í þingnefnd. Stjórnarliðið ræður því með atkv. sínum hvort það telur betur henta að hafa stjórnarandstöðu algerlega utan við niðurskurð. Á dögum hinnar svokölluðu viðreisnarstjórnar var, að mig minnir, tvisvar gripið til álíka niðurskurðar. Þá var það gert með þeim hætti að fela fjvn. að gera tillögur í samráði við rn., þannig að þingið var allt með í þeirri ábyrgð. Það er auðvitað miklu hyggilegri leið fyrir eina ríkisstjórn að hafa þingið allt með, láta þingið taka ábyrgð. Stjórnarandstaða tekur ábyrgð með því að skrifa upp á niðurskurð eða leggja fram aðra tillögu, en við getum ekki sem stjórnarandstaða lagt fram tillögur um niðurskurð þegar öllu er haldið leyndu fyrir okkur.

Óhamingjan er sú, að það var stefnulaust allt s.l. ár í fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar og því er komið sem komið er. Þess vegna er nú verið, vegna hins mikla og gífurlega taprekstrar bæði í atvinnulífinu og hjá stærstu fyrirtækjum ríkisins, að taka erlend lán til að fjármagna taprekstur. Þetta er ekki hygginna manna háttur. Ég vil hins vegar segja þessari ríkisstj. það þó til lofs, að hún hafði annan hátt á á árinu 1980. Þá lét hún miklu frekar staðreyndir ráða gerðum sínum og þá var útkoma atvinnurekstrarins ekki eins hörmuleg og síðar kom á daginn. En þá gerbreytti hún um stefnu. Við erum núna, bæði við afgreiðslu fjárlaga, við afgreiðslu lánsfjárlaga, við afgreiðslu hinna ýmsu stofnlánasjóða, bæði í atvinnulífinu og sömuleiðis í húsnæðismálakerfinu, að súpa seyðið af því. Það er verulegur samdráttur fram undan alls staðar. Í kjölfar samdráttar fylgir minnkandi atvinna. Minnkun atvinnu hefur átt sér stað, en hjá atvinnuleysi hefur verið komist með stórauknum erlendum lántökum á s.l. ári. Það er ekki hægt að gera til lengdar. Það er að verða minnkun á þjóðarframleiðslunni og samdráttur fram undan með þeirri stefnu eða stefnuleysi sem hér hefur ríkt að undanförnu og þá alveg sérstaklega á s.l. ári og það sem af er þessu ári.