05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

325. mál, símaþjónusta opinberra stjórnsýslustofnana

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hér talar bæði varaformaður Sjálfstfl. og þm. Reykv., en ég veit ekki hvort ég get skýrt það út fyrir hv. síðasta ræðumanni að hægt sé að hafa þann mann í einni og sömu persónunni.

Ég skal segja þessum ágæta þm., að ég lýsti því í minni ræðu áðan, að það væri sjálfsagt að jafna símtölin, Alþingi hefði samþykkt það nú þegar. En það virðist ekki komast inn í harða skelina á þessum þm. né heldur flokksbróður hans sem situr hér í ráðherrastól, að það eru til fleiri en ein leið til að ná þessu sama marki. Þessir menn eru gjörsamlega blindir. Það er það sem reynt hefur verið að benda á hér. Ég held að ýmsir Vestfirðingar muni verða hissa þegar hv. þm. kemur heim í hérað og lýsir því yfir, að hann skilji ekki mælt mál sem hér er talað á Alþingi.