19.04.1982
Efri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3922 í B-deild Alþingistíðinda. (3392)

287. mál, verðtryggður skyldusparnaður

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég get ekki orða bundist út af orðum hæstv. ráðh. Ég get ekki séð að það sé nein goðgá að ræða um húsnæðismál þegar frv. er borið fram um fjáröflun til húsnæðismálakerfisins. Getur hæstv. ráðh. fullyrt að það sé óþinglegt eða á einhvern hátt óeðlilegt að ræða um húsnæðismál þegar frv. er lagt fram af hæstv. ríkisstj. um fjáröflun til þeirra? Þessi fjáröflun kemur í kjölfar þess, að hæstv. ríkisstj. hefur vissulega svipt Byggingarsjóð ríkisins tekjustofnum sínum. Hvaða tekjustofna hefur Byggingarsjóð ríkisins sem hann hafði fyrir 2–3 árum? Hvað rennur mikið af launaskatti í Byggingarsjóð ríkisins, hæstv. ráðh.? Hvað rennur mikið byggingarsjóðsgjald í Byggingarsjóð ríkisins, hæstv. ráðh.? Ég get svarað hæstv. ráðh. Ekkert. Báðir þessir tekjustofnar hafa verið teknir af. Þessir tekjustofnar hefðu gefið Byggingarsjóði ríkisins hvorki meira né minna en á milli 220–240 millj. kr. í ár. Þessir skattar hafa ekki verið lækkaðir, en þeir renna til annarra þarfa. — Það er skylt að geta þess, að 1% af launaskatti rennur í Byggingarsjóð verkamanna. Það er líka eini tekjustofninn sem rennur til húsnæðismála af þeim þremur sem ég nefndi.

Ég verð að segja að það er derringur, liggur mér við að segja, í hæstv. ráðh. að setja ofan í við hv. þm. í þessari hv. deild, sem ég tel nú fyrir margra hluta sakir sómadeild í vinnubrögðum öllum. Hæstv. ráðh. kemur hér og setur ofan í við okkur fyrir að tala um húsnæðismál þegar verið er að fjalla um frv. til fjáröflunar til húsnæðismála.

Ég vil líka benda hæstv. ráðh. á að þau gögn, sem ég hef í höndum sem nm. hv. fjvn. og fjh.- og viðskn., sýna að það skortir í Byggingarsjóð ríkisins á yfirstandandi ári 90 millj. kr., eins og ég rakti áðan, ef hæstv. ráðh. hefði viljað á það hlusta, og það skortir 40 millj. kr., sem Byggingarsjóður ríkisins tók að láni í Seðlabankanum í fyrra. Það skortir 130 millj. kr. til að standa undir því að veita 1100 aðilum frumlán. Fyrir nokkrum árum fengu ekki 1100 aðilar frumlán úr Byggingarsjóði ríkisins, heldur tæplega 1900, árið 1978.

Ég benti á að þetta fjáröflunarfrv., sem hér er ætlað að hlaupa undir bagga og hækka lán til þeirra sem byggja í fyrsta sinn, fái ekki staðist vegna þess að Byggingarsjóð skorti stórfé áður en hann getur farið að sinna einhverjum hækkunum á lánum til þeirra sem byggja í fyrsta sinn.

Allt eru þetta mál sem beinlínis varða þetta fjáröflunarfrv., og ég frábið mér að hæstv. ráðh. komi hér upp og segi að þetta sé eitthvað út í loftið, þetta eigi ekki heima við þessa umr.