20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3959 í B-deild Alþingistíðinda. (3478)

247. mál, mat á eignum Iscargo hf.

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Í beinu framhaldi af fsp. hv. 5. þm. Vesturl.. Eiðs Guðnasonar, má e.t.v. rifja upp að í umr. um þetta mál, þ.e. um kaup Arnarflugs hf. á eignum Iscargo hf., hefur mjög verið blandað saman annars vegar þessum viðskiptum og hins vegar veitingu samgrn. á flugleyfum til Amsterdam, sem fram fór sama dag og þessi viðskipti áttu sér stað eða örfáum dögum síðar. Það er að vonum að menn spyrjist fyrir um hvort verið geti að þessum viðskiptum hafi verið komið á fyrir tilstuðlan opinberra aðila með veitingu flugleyfa, hvort veiting flugleyfa, sem er á opinberri hendi, hafi verið notað til að koma þessum viðskiptum á. Það er auðvitað kjarni málsins í sambandi við opinbert mat á þeim eignum, eins og hér er spurt um.

En það sem meira er: Mér er nær að ætla að margir aðilar að þessu máli hafi staðið í þeirri trú, að flugleyfaveitingar opinberra aðila væru háðar takmörkunum, m.ö.o. að ekki væri um það að ræða að samgrn, gæti veitt Arnarflugi slíkt leyfi nema að því tilskildu að Iscargo hf. skilaði sínum leyfum inn. Ég vil leggja á það áherslu, að þetta hefur aldrei verið sagt berum orðum, en þetta hefur engu að síður legið í loftinu í þeim málflutningi sem hafður hefur verið um þessi efni. Nú er þetta ekki svo. Milli Íslands og Hollands gildir samningur við erlend ríki nr. 228, þar sem slíkar leyfaveitingar eru galopnar. Þó svo Iscargo hefði enn þessi leyfi að forminu til, sem það var þó hætt að nota og guð og menn vissu að það mundi ekki nota um ófyrirsjáanlega framtíð, hefði samgrn. getað veitt Arnarflugi þessi leyfi viku eða mánuði eða hálfu ári eða ári áður en það gerði það. Þess vegna vil ég bera í framhaldi af spurningu hv. þm. Eiðs Guðnasonar ofureinfalda spurningu fyrir hæstv. samgrh. og hún er þessi: Hvers vegna var Arnarflugi hf. veitt þetta flugrekstrarleyfi rétt eftir að viðskiptasamningar milli Arnarflugs og Iscargo höfðu átt sér stað?