20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3989 í B-deild Alþingistíðinda. (3539)

88. mál, kalrannsóknir

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég þakka atvmn. fyrir þessa afgreiðslu á málinu, sem mér að vísu finnst fremur klaufaleg, en engu að síður er ég ánægður með að málið skyldi fá afgreiðslu.

Ég vil benda á að í tillgr. er þess sérstaklega getið, að miðstöð þessara rannsókna verði að Möðruvöllum í Hörgárdal, og það hefur auðvitað komið við kaunin á einhverjum mönnum sem hugsa um landshluta, en ekki landið í heild. En síðan er tekið fram að þessar rannsóknir skuli vera í fullu samráði og samvinnu við Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Ég sé því engan mun á því, þó að þetta orðalag hefði fengið að halda sér.

Síðan gerist það, að nefndin breytir fyrirsögn till. úr því að vera um áætlanagerð og sérstakt átak í kalrannsóknum í aðeins till, til þál. um eflingu kalrannsókna. Menn hafa greinilega ekki áttað sig á að það er býsna nauðsynlegt að gera áætlanir þegar á að eyða fjármunum eins og til kalrannsókna. Þess vegna var þetta haft þannig í till. að það þyrfti að gera áætlanir áður en ráðist yrði í framkvæmdir. Engu að síður stendur grg. till. eftir og í henni er auðvitað að finna það sem er kjarni þessa máls, þ.e. að kalskemmdir á Íslandi eru dýrustu gróðurskemmdir sem hér verða vegna þess að kalskemmdir verða á ræktuðum túnum sem kostar óhemjufé að bæta eftir að tún hafa skemmst. Þess vegna er það mikilvægara en margt annað, sem nú er gert í rannsóknum varðandi landbúnað m.a., að gera úttekt á þeim rannsóknum, sem þegar hafa verið gerðar á kali, og reyna að efla þær rannsóknir þannig að það megi koma í veg fyrir einhvern hluta af þeim kalskemmdum sem nú verða í túnum. Ég vil taka það sérstaklega fram, að enda þótt RALA taki fram í bréfi sínu að hún hafi tækjabúnað og annað til þessara kalrannsókna fremur en t.d. Möðruvellir í Hörgárdal, þá leyfi ég mér að draga það nokkuð í efa vegna þess að sá maður, sem mesta reynslu hefur af þessum rannsóknum og er nefndur í grg., Bjarni E. Guðleifsson, hefur með aðstoð hæstv. landbrh. getað nú að undanförnu fest kaup á ýmsum tækjum, sem skipta mjög miklu máli við þessar rannsóknir, og er því á margan hátt mjög vel búinn undir að gera það átak sem till. gerir ráð fyrir.

Mér finnst þess vegna lakara að nefndin skyldi telja ástæðu til þessara orðalagsbreytinga, sem auðvitað gera að vissu marki minna úr till., hún verður ekki eins ákveðin, ekki eins afgerandi. En það vill oft henda okkur á hinu háa Alþingi að við viljum veikja og draga úr þeim málum sem hér eru lögð fram, ef ekki eru allir landshlutar og landshlutaþingmenn sammála um þau af einhverjum ástæðum, sem ég hef í þessu tilviki greint frá hverjar kunni að vera.

Engu að síður vil ég ekki láta hjá liða að þakka nefndinni fyrir að afgreiða þetta mál og hv. þm. Eggert Haukdal sérstaklega. Ég vænti þess, að þetta mál geti fengið góðan og rösklegan framgang, því að hér þarf að gera atórátak og hefði raunar þurft að gera það fyrir mörgum árum, þegar kalskemmdir fóru að verða mjög áberandi hér á landi.