05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

41. mál, tölvustýrð sneiðmyndatæki

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Varðandi spurninguna um hvort ríkisstj. ætli að fella niður gjöld af búnaði eins og þessum er því til að svara, að ríkisstj. hefur enga ákvörðun tekið um slíkt, eins og ég gat um áðan. Eins og kom fram hjá hv. 3. þm. Austurl. er auðvitað í þessu tilviki um það að ræða að ríkið kaupir tækið með eða án gjalda, og í raun og veru kemur það út á eitt frá sjónarmiði ríkisins að því er þetta einstaka tæki varðar. Hins vegar er spurningin, sem hv. 1. landsk. þm. nefndi áðan, hvaða áhrif þetta hefði í sambandi við öll tækjakaup til heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Það er miklu stærri ákvörðun og af því að þetta gæti haft áhrif á tækjakaup heilbrigðisþjónustunnar almennt hafa menn hikað við að fella niður gjöld af þessu eina og sérstaka tæki.

Ég vil hins vegar láta það koma hér fram, að iðulega gerist það að öll opinber gjöld eru felld niður af tækjum sem keypt eru fyrir söfnunarfé á vegum ýmiss konar samtaka. Síðan talaði hv. 1. landsk. þm. um að ráðh. hefði tekið þarna ákvörðun, höggvið á hnútinn og ekkert tillit tekið til sjónarmiða sérfræðinga í þessum efnum. Hvað höfðu sérfræðingar til málanna að leggja í þessum efnum og hvað voru þeir búnir að þvæla þessu máli lengi á milli handanna? Hv. þm. veit það jafnvel og ég, að það var í mörg ár ekki unnt að ná neinni samstöðu um það milli spítalanna í Reykjavík, hvar þetta tæki ætti að vera niður komið. Og það er ekkert nýtt. Það er nefnilega einn meginvandi heilbrigðisþjónustunnar, að það gengur illa að laða menn til samstarfs um hvernig fjármunirnir séu nýttir og hvernig þeir geti komið sjúklingum sem best að notum. Þess vegna voru það ákaflega mikil tíðindi á s. l. ári þegar yfirlæknar spítalanna þriggja í Reykjavík lýstu yfir að þeir væru tilbúnir að stuðla að faglegu samstarfi þessara þriggja stofnana, Landakotsspítalans, Borgarspítalans og Landspítalans, en það hefur satt að segja gengið ákaflega hægt að þoka því máli áleiðis.

Ég ræddi að sjálfsögðu við sérfræðinga áður en ákvörðun var tekin um þetta tölvustýrða sneiðmyndatæki, og ég gerði forustumönnum Borgarspítalans og Landspítalans grein fyrir því, að ég teldi að mér væri skylt að taka ákvörðun um hvar þessi tæki ættu að vera. Ég gerði þeim grein fyrir því, áður en þessi ákvörðun var tilkynnt, og jafnframt að þetta væri gert vegna þess að þeir hefðu ekki í mörg ár getað komið sér saman. Þessi ákvörðun var tekin af heilbr.- og trmrn. og mér á sínum tíma. Ég held að það hafi verið óhjákvæmileg skylda mín að taka þá ákvörðun.

Hv. 3. þm. Austurl. vék hér að miklu stærra máli, sem er yfirleitt notkun fjármuna í heilbrigðisþjónustunni og þá alveg sérstaklega á svokölluðum daggjaldaspítölum. Reykjavíkurborg eða eigendur Borgarspítalans halda því fram, að því er þetta tölvusneiðmyndatæki varðar, að þeir hafi þarna verið að taka ákvörðun um að verja þeim peningum sem þeir hvort eð er láta ganga til Borgarspítalans. Það er það sjónarmið sem þeir hafa uppi í þessu máli og nota sem rök fyrir afstöðu sinni. En ég endurtek það sem ég sagði áðan, að mér fannst ekki eðlilegt að Reykjavíkurborg tæki ákvörðun eins og þessa án þess að bera það upp við heilbrmrn., vegna þess að samkv. lögum um heilbrigðisþjónustu á heilbrmrh. ekki einasta að bera ábyrgð á því, hvaða ný starfsemi fer í gang á spítölum, heldur á hann jafnvel líka að taka ákvarðanir um hvaða breytingar eigi sér stað á spítölum og í starfsemi þeirra.

Ég vænti þess, að ég hafi svarað þeim fsp. sem hér hafa verið bornar fram. En ég verð að segja að mér finnst að í þessu máli verði menn einfaldlega að átta sig á því, að kostnaður við heilbrigðisþjónustuna í landinu er orðinn mjög verulegur. Ég er ekki viss um að Alþingi sé tilbúið að hækka mjög verulega skatta á landsmönnum til að standa undir enn auknum kostnaði við heilbrigðisþjónustu okkar. Alþingi verður að gera það upp við sig og auðvitað dugir ekki að segja sem svo: Allir spítalar eða fleiri spítalar þurfa tölvustýrð sneiðmyndatæki. — Ég segi: Við höfum ekki efni á því eins og er. Það er óskynsamlegt að láta fleiri spítala hafa tölvustýrð sneiðmyndatæki. Ég treysti mér til að standa við það hvar sem er. Ég tel að áherslurnar í heilbrigðismálum okkar hljóti að vera annars staðar, því að þetta tæki, sem við höfum nú keypt til Landspítalans, gæti sennilega þjónað þjóð sem er með í kringum 1 millj. íbúa. Ég held að við verðum að horfa á þetta. Það eiga auðvitað ekki bara þeir þm. að gera sem eru í stjórnarliðinu, heldur líka í stjórnarandstöðunni.