21.04.1982
Neðri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4057 í B-deild Alþingistíðinda. (3610)

58. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er rétt og ég er sammála hv. þm., að sérskattar á einstakar atvinnugreinar orka alltaf tvímælis og geta valdið mismunun. Það þarf að fara varlega í slíkt. Hins vegar tel ég að slíkir skattar eigi rétt á sér þegar um er að ræða að ná ákveðnum markmiðum, t.d. að draga úr mikilli fjárfestingu. Svo var að mínu mati þegar þessi skattur var upphaflega lagður á 1979. Mér virtist á árinu 1980 að betur liti út að þessu leyti, að það drægi nokkuð úr fjárfestingu, en síðan hefur það ekki orðið. Staðreyndin er sú, að í efnahagslífinu er mikil aukning bæði einkaneyslu og fjárfestingar í tækjum og m.a. í skrifstofuhúsnæði og þess háttar. Aukin neysla er eitt af því alvarlegra í efnahagslífi okkar. Á meðan svo er ástatt hef ég fyrir mitt leyti fallist á að þessari skattheimtu sé áfram haldið, en þó aðeins til eins árs í senn, eins og fram kemur í því frv. sem hér er til umr.