24.04.1982
Efri deild: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4148 í B-deild Alþingistíðinda. (3744)

215. mál, skattskylda innlánsstofnana

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. frsm. meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. var ágreiningur um þetta mál í nefndinni. Í nál. á þskj. 697, sem verið var að útbýta hér í Ed. rétt í þessu, kemur fram afstaða minni hl. n. sem ég mæli hér fyrir. Í því nál. segir svo, með leyfi forseta:

„Frv. til l. um skattskyldu innlánsstofnana er augljóslega snöggsoðið og þarfnast ítarlegrar endurskoðunar ef setja á reglur um svo flókið viðfangsefni. Í umsögn Sambands ísl. viðskiptabanka og Sambands ísl. sparisjóða segir svo orðrétt:

„Umrætt frv. er stuttort og við undirbúning þess hefur augljóslega ekki gefist tími til að athuga og taka afstöðu til ýmissa veigamikilla atriða varðandi skilgreiningu á stofni til útreiknings á fyrirhuguðum tekjuskatti innlánsstofnana.“

Í þessari umsögn, sem birt er hér með áliti minni hl. n., er síðan bent á sjö mjög veigamikil atriði þessari fullyrðingu til stuðnings að frv. sé nánast ófullburða, enda vita hv. dm. að þetta mál bar mjög skjótt að og þeim embættismönnum, sem falið hefur verið að vinna þetta frv., hefur áreiðanlega verið mjög mikill vandi á höndum, svo að ekki sé meira sagt, að vinna frv. um svo flókið efni á jafnskömmum tíma. Ég skal aðeins stikla á stóru um þessi sjö atriði síðar.

Þessu til viðbótar hafa einstakir bankar mótmælt mismunun, sem felst í frv., í bréfum, dags. 29. mars, frá Sambandi viðskiptabankanna og sparisjóðanna og frá Iðnaðarbanka Íslands. Iðnaðarbanki Íslands bendir m.a. á og mótmælir því, að skattlagning á veðdeild bankans sé með öðrum hætti. Veðdeild Iðnaðarbankans er gerð skattskyld, en hins vegar er fram tekið í frv. að Stofnlánadeild samvinnufélaganna sé ekki skattskyld. Raunar kom fram frá forráðamönnum Landsbanka Íslands að sama gegndi um veðdeild Landsbankans, en hún má heita nánast þjónustustofnun fyrir Byggingarsjóð ríkisins og skattaálögur á hana mundu einungis verða til þess að auka kostnað við að veita lán úr Byggingarsjóði ríkisins. En í þessu frv. er gert ráð fyrir að veðdeild Landsbankans verði skattlögð.

Mestar umr. í hv. nefnd fóru fram um það, með hvaða hætti menn hygðust mæta þessari skattlagningu. Fram kom í máli allra þeirra sem heimsóttu nefndina, að það væri einungis hægt að gera ráð fyrir að þessum skatti væri mætt með þrennum hætti: Í fyrsta lagi með hækkun útlánsvaxta banka og sparisjóða, í öðru lagi lækkun vaxta á sparifé, sem bankarnir greiddu sparifjáreigendum, eða í þriðja lagi með því að ganga á eigið fé innlánsstofnana. Engin svör fengust í nefndinni frá hv. þm., sem styðja framgang þessa máls, um það, hvernig ætlunin sé að mæta þessari skattálagningu, hvor leiðin eða allar þessar þrjár verði farnar til að mæta skattálagningunni. Það fékkst ekki svar við því, hvort ætti að lækka vexti til sparifjáreigenda til að mæta þessum skatti, hækka útlánsvexti til atvinnuveganna eða hvort ganga ætti á eigin fjárstöðu bankanna og innlánsstofnana. Þetta styður það náttúrlega að frv. er vanhugsað. Það hefur ekki enn verið tekin afstaða til þess, með hvaða hætti innlánsstofnanir, sem margar hverjar eru raunar ríkisfyrirtæki, eigi að mæta þessari nýju skattlagningu. Vegna þessa leggjum við einfaldlega til í minni hl. hv. fjh.- og viðskn. að frv. verði vísað til ríkisstj. til frekari athugunar.

Ég skal svo víkja í örstuttu máli, herra forseti, að þessum aðfinnslum frá samböndum ísl. viðskiptabanka og ísl. sparisjóða. Þau segja hér í greinargerð, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér á eftir skal því gerð grein fyrir atriðum sem þarfnast ítarlegrar skoðunar ef samþykkja á álagningu tekjuskatts á innlánsstofnanir þrátt fyrir þau þungvægu rök sem gegn því mæla, og einnig verður vikið að þeim hugmyndum að leggja eignarskatt á þessar stofnanir.“

Í fyrsta lagi segir hér, að það skorti heimildir til frádráttar frá tekjum vegna niðurfærslu útlána og veittra ábyrgða. Hér er um nokkuð flókið mál að ræða og ég skal ekki fara nánar út í það, en að mati þessara manna hlýtur löggjöf, sem ekki tekur af tvímæli um þetta atriði, að leiða til árekstra og vandræða.

Í öðru lagi skortir að setja ákvæði um frádráttarbærni gjalda vegna lífeyrisskuldbindinga. Margar innlánsstofnanir hér á landi hafa tekið á sig verulegar lífeyrisskuldbindingar vegna starfsmanna sinna umfram þær skuldbindingar að greiða iðgjöld til lífeyrissjóða á móti framlögum starfsmanna. Í frv. er ekkert ákvæði um hvernig fara skuli með þessar greiðslur.

Í þriðja lagi skortir á að það sé afmörkun milli vaxta og verðbóta í skattuppgjöri. Það eru ekki ákvæði um það í þessu frv., að vextir og verðbætur séu afmörkuð með nægilega skýrum hætti.

Í fjórða lagi er óskýrt hvernig fara skuli með útreikning verðbreytingafærslu.

Í fimmta lagi er ekki talað um skattfrelsi stofnana með veika eiginfjárstöðu í frv. sjálfu. Á hinn bóginn er komið til móts við þetta atriði í brtt. meiri hl. hv. nefndar og er það að sjálfsögðu til bóta, en mér sýnist það eina atriðið sem í rauninni er tekið tillit til af þessum aðfinnslum.

Síðan eru minni háttar atriði tæknilegs eðlis sem bent er á að betrumbæta þyrfti í frv., en ekki hafa verið leiðrétt í meðförum hv. nefndar.

Í umsögn Seðlabanka Íslands segir svo um áhrif skattlagningar á afkomu innlánsstofnana, með leyfi hæstv. forseta:

„Veltuskattur sá, sem fyrirhugað er að leggja á innlánsstofnanir á þessu ári, skal nema 0.06% af heildarinnlánum þeirra í lok hvers mánaðar. Án tekjuaukningar á móti mun því afkoma og ráðstöfunarfé innlánsstofnana dragast saman um samsvarandi fjárhæð, sem áætluð hefur verið 55 millj. kr. Eigi að jafna þessi áhrif á afkomu- og ráðstöfunarfé þarf til að koma 0.7% aukning vaxtabils, þ.e. mismunar á útláns- og innlánsvöxtum, sem væntanlega yrði að gerast með hækkun útlánsvaxta þar sem við ákvörðun innlánsvaxta yrði að taka tillit til verðlagsþróunar. Verði slík vaxtahækkun ekki látin taka til endurkaupanlegra afurðalána yrði hækkun annarra útlánsvaxta að nema 0.9%.“

Í umsögn Seðlabankans segir enn fremur um eiginfjárstöðu innlánsstofnana, með leyfi hæstv. forseta, en þar er vikið að töflum sem fylgja nál. minni hl.:

„Tekið hefur verið saman yfirlit yfir eigið fé innlánsstofnana sem hlutfall af niðurstöðu efnahagsreiknings viðskiptabankanna frá 1960 og sparisjóðanna frá 1962 (tafla 1). Innifalið í því er bókfært verðmæti fasteigna og áhalda samkv. mjög mismunandi mati, og ýmis annar munur er á uppgjörsmáta, nýtt eigið fé hefur áhrif o.s.frv. Hafa innlánsstofnanir í vaxandi mæli tekið upp endurmat fasteigna, meðfram vegna þess að eigið fé nemur að öðrum kosti ákaflega lágu hlutfalli. Hins vegar er eigið fé í formi fasteigna og áhalda að sjálfsögðu með engu móti handbært sem varafé rekstrarins. Til þess að sneiða hjá þessum ágöllum eru jafnframt birtar talnaraðir um eigið fé án fasteigna, áhalda og búnaðar, en um sparisjóðina ná þær aðeins aftur til 1977.“

Svo kemur hér meginatriði þessa máls, sem ég les orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Í upphafi hvers tímabils, sem hér er sýnt, höfðu bæði bankar og sparisjóðir þokkalega eiginfjárstöðu, en hún fór þegar lækkandi, mjög ört frá miðjum sjöunda tugnum, og náði lágmarki 1974. Rýrnun hlutfallsins var gerð minna áberandi með því að tjalda endurmati fasteigna, en að þeim og tækjum og búnaði slepptum hrapaði fjáreignaleg eiginfjárstaða viðskiptabanka niður í 1.5% árin 1976–1978, en þó ekki nema í 3.5% hjá sparisjóðunum 1973. Er staða viðskiptabankanna aðeins lítillega tekin að rétta við eftir þetta, en verður þó að teljast mjög slök.“

Hér er sem sagt komist að þeirri niðurstöðu, að eiginfjárstaða banka og innlánsstofnana sé mjög slök. Ef gengið er út frá því, að það eigi ekki að ganga á þá eiginfjárstöðu frekar, mun þessi skattur koma fram í hækkun útlánsvaxta að mati Seðlabankans, eins og hér kemur fram.

Menn hafa ekki tekið afstöðu til þess og það hafa ekki fengist svör um það í hv. nefnd, hvort ætlunin sé að hækka útlánsvexti. Það hafa ekki heldur komið fram svör um hvort ganga eigi á eiginfjárstöðuna. Kunnugt er að það er ekki löggjöf um það hér á landi, eins og í öðrum vestrænum löndum, hver lágmarkskrafa skuli gerð til eiginfjárstöðu innlánsstofnana. Það er því nokkur freisting að ætla, miðað við vaxtastefnu núv. hæstv. ríkisstj., að menn hugsi sér að knýja það fram, að eiginfjárstaðan verði skert með þessum skatti. Þó hafa ekki fengist nein hrein svör um þetta, auk þess sem þessu frv. er svo áfátt sem hér hefur verið á bent.

Það er því niðurstaða okkar í minni hl., að við leggjum til að þessu máli verði vísað til ríkisstj. til frekari athugunar.