28.04.1982
Neðri deild: 73. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4326 í B-deild Alþingistíðinda. (4048)

255. mál, almenn hegningarlög

Frsm. (Jósef H. Þorgeirsson):

Herra forseti. Allshn.

Nd. hefur haft til athugunar frv. til I. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19 frá 1940, sbr. lög nr. 34 frá 1980, og um breyting á sektarmörkum nokkurra laga. Frv. þetta gerir ráð fyrir því aðallega, að sektarmörk í 50. gr. almennra hegningarlaga verði hækkuð, og síðan gerir frv. ráð fyrir breytingum á hvorki meira né minna en 52 öðrum lögum þar sem breytingar ganga aðallega í þá átt að refsirammar eru felldir niður í svonefndum sérrefsilögum, sem þýðir að refsiramminn fer þá eftir ákvæðum í almennum hegningarlögum og styðst vitanlega, eins og verið hefur, við dómvenjur og annað slíkt. Hér er sem sagt á ferðinni einhver myndarlegasti og lengsti bandormur sem lagður hefur verið fyrir Alþingi Íslendinga. Það er gert ráð fyrir að með þessu eina frv. verði breytt hvorki meira né minna en 53 lögum.

Nefndin hefur athugað þetta frv. og mælir eindregið með því, að frv. verði samþykkt.