29.04.1982
Sameinað þing: 83. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4366 í B-deild Alþingistíðinda. (4098)

124. mál, sjálfsforræði sveitarfélaga

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Um langt árabil hafa samtök sveitarfélaga hér á landi knúið dýra hjá hinu háa Alþingi með óskum um aukið sjálfsforræði. Það hefur komið fram í ræðum formanna þessara samtaka ár eftir ár, að óskir þeirra um aukið sjálfsforræði hafi verið virtar að vettugi. Það var þess vegna m.a. sem ég sagði áðan að þrátt fyrir nefndarstörf ár eftir ár hefði nánast ekkert áunnist. Ég held að hv. þm. Alexander Stefánsson sé fyrsti sveitarstjórnarmaðurinn, sem ég heyri í langan tíma, sem tregðast við að auka sjálfsforræði sveitarfélaganna. Þetta er auðvitað furðulegt, svo að ég noti sama lýsingarorð og hv. 1. þm. Vesturl. gerir oft og tíðum, þegar um er að ræða jafnduglegan sveitarstjórnarmann og hv. þm. er. En það skyldi þó ekki vera að ástæðan fyrir því, að hann leggst alfarið gegn þessari till., sé sú, að hún komi ekki frá hans flokki, heldur öðrum flokki. Ef svo er, þá er það í eðli sínu alvarlegt mál, ef þm. taka alfarið afstöðu til tillagna af þessu tagi eingöngu eftir pólitískum línum.

Í þessari till. er komið á framfæri máli sem samtök sveitarfélaga hafa barist fyrir um langt árabil. Hv. þm. Alexander Stefánsson sagði áðan, að með orðum mínum hefði ég lýst yfir furðulegu vantrausti á störfum samtaka sveitarfélaga, og bætti því við, að margt hefði áunnist. Að þessu gefna tilefni vil ég spyrja þennan hv. þm.: Hvað hefur áunnist? Ég skal minna hann á stofnun fjórðungssamtakanna sem vissulega var spor í rétta átt. En hver eru völd þeirra samtaka gagnvart hinu miðstýrða alræðisvaldi Alþingis og ríkisstjórnar? Völd þeirra eru engin, ekki nokkur. Þessi samtök fjórðunganna í landinu hafa völd til að efna til ráðstefna og funda. Þau hafa völd til þess að fara að nokkru leyti með fræðslumálin, en þar með punktur og búið spil. Völdin ná ekki lengra. Og völdin í þessum efnum eru auðvitað bundin af fjármagninu sem ríkið og Alþingi ákveða að veita inn í þessi sveitarfélög. Önnur eru þessi völd ekki. Þess vegna hefði ég talið mjög mikils virði ef hið háa Alþingi hefði treyst sér til að samþykkja eða a.m.k. afgreiða till. á einhvern annan hátt en þann sem hv. minni hl. allshn. gerir í þessu tilviki — einfaldlega til að knýja á um að þetta sjálfsforræði geti orðið meira og það taki skemmri tíma að koma því í gagnið.