30.04.1982
Neðri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4446 í B-deild Alþingistíðinda. (4184)

253. mál, ríkisreikningurinn 1978

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ekki skal ég hafa á móti því að gangast við því, að ég hafi verið í Kröflunefnd. Ég hélt að það væri alveg óþarfi að lýsa því sérstaklega yfir hér, hverjir þar hafi verið. Ég held að það viti allir.

Ég hef ekkert á móti því, að hv. þm. ræði ríkisreikninginn og geri aths. eins og þeim sýnist og þóknast við það efni. Það finnst mér ósköp eðlilegt. Það voru dálítið undarleg orð hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. í lokin um að menn þegðu hér þunnu hljóði. Látum svo vera. Ég hafði enga sérstaka ástæðu til að fara að taka þátt í þessum umr. á þessu stigi vegna þess að komnar voru fram þær skýringar við aths. hv. þm. Vilmundar Gylfasonar sem ég held að hafi dugað eins og umr. lá þá fyrir. Og fleira kom fram hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni, fyrst og fremst það sem hann sagði í lokin, að það ætti að renna þessu máli í gegn þegjandi og hljóðalaust. Þetta er alger misskilningur. Þetta mál er búið að liggja býsna lengi fyrir þinginu. Það er nú tekið til umr. og getur hver og einn af 40 dm. tekið þátt í umr. um það, ef þeir vilja, og það er alveg sjálfsagt að við gerum það. Ég skal taka þátt í þeirri umr. Ef menn vilja fara að rekja Kröflumálið frá upphafi til enda skal ég fúslega taka þátt í þeirri umr. — mjög fúslega. Ég kann dálítið fyrir mér í þeirri sögu, þó nokkuð, og ég skal taka fyllilega þátt í því. Það eru engin vandræði með það.

Hv. þm. Árni Gunnarsson var að reyna að gefa skýringu á því, hvers vegna svo illa hefði tekist til með Kröflu sem reyndin varð, og að sumu leyti voru skýringar hans réttar. Sannleikurinn er sá, að það voru ýmsir annmarkar á ráðgjöfinni sem Kröflunefnd og iðnrn. fengu í sambandi við þessa virkjun. Því miður er hægt að rekja mestu skyssurnar um ráðgjöfina beint til Orkustofnunar og þeirra manna sem þar hafa unnið frá upphafi. Það er óskaplega auðvelt að rekja það beint til þeirra. Þaðan komu fyrst og fremst ráðleggingarnar um hvernig unnið skyldi að þessu máli og að því skyldi staðið. Þetta er sannleikurinn. Ég held þess vegna að það sé vissulega ástæða til þess einhvern tíma að ræða þetta mál og reyna að gera sér grein fyrir því, hvernig stóð á þeim mistökum sem þarna urðu, sem vissuleg er hægt að gera, og má m.a. rekja til Orkustofnunar og þeirra sem þar réðu og lögðu á grundvallarráðin í því efni. Það er sannleikurinn. Hitt kom svo líka til, að þegar farið var að vinna að framkvæmd Kröfluvirkjunar komu í ljós margs konar tæknierfiðleikar sem þeir menn, sem tóku að sér að vinna verkið, fyrst og fremst starfsmenn Orkustofnunar, voru ekki menn til að leysa. Þeir kunnu ekki fyrir sér í verkunum þegar til kom. Og ekki skal ég neita því, að auðvitað hafði það sín áhrif og vafalaust mjög mikil áhrif þegar eldsumbrotin urðu á svæðinu fljótlega eftir að hafist var þarna handa og allt fram undir þennan dag. Auðvitað hafði það sín áhrif á hvernig fór um þessa framkvæmd. En því miður verður að segjast eins og er, að kannske var meginástæðan sú, að við margir tókum tæknimenn og svokallaða vísindamenn allt of trúanlega um það, hvað hægt væri að gera og hvernig framkvæma mætti á þessu háhitasvæði.

Þetta er þáttur sem menn hafa ekki fengist almennilega til að ræða, heldur reynt að koma höggi á ýmsa stjórnmálamenn sem stóðu að þessu og í nefndinni voru o.s.frv. Hefur sjálfsagt verið auðvelt að gera það í mörgum tilfellum. Ég held að það væri nær, ef menn vilja fá almennilega yfirsýn yfir þetta mál, að rekja það frá grunni og tengja saman alla þætti Kröflumálsins allt frá upphafi til enda.

En hvað varðar svo aths. við ríkisreikninginn, um það hef ég ekkert að segja og ekkert að athuga við það. Mér finnst að þær aths. séu fullkomlega eðlilegar, og það er líka fullkomlega eðlilegt að þm. ræði á þessu stigi ríkisreikninginn og m.a. þær aths. sem koma frá hendi yfirskoðunarmanna. Það er ekkert eðlilegra en svo sé. Þetta mál getur auðvitað fengið sína eðlilegu og þinglegu meðferð. En ég held að það væri mjög óheppilegt að ætla að fara að blanda endilega inn í þennan reikning og umr. um þennan reikning sögu alls málsins og vera þar með ásakanir eða óþarfar ásakanir fram yfir það sem réttmætt er í sambandi við þessar umr.

En það er alveg sjálfsagt að rifja þessi mál upp og ræða Kröflumálið. Það getur vel verið að það geti orðið framhaldssaga árlega hér á þingi og í blöðum næstu ár, svo tengi sem við yfirleitt drögum lífsandann. Það má vel vera og þá er sjálfsagt að taka þátt í því. En þá mun ég a.m.k., að svo miklu leyti sem ég tek þátt í því, reyna að gefa þær skýringar sem ég hef og mér finnst stundum að menn fáist ekki til að leiða hugann að og því miður oft vegna þess að þeir eru þá með einhverja pólitíska glýju í augum.