09.11.1981
Neðri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

Umræður utan dagskrár

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef fylgst af athygli með þessum umr. sem mér finnst vissulega mjög gagnlegar og tímabærar. Það var þó aðeins eitt atriði, sem fram kom í ræðu hv. 8. landsk. þm., sem varð þess valdandi að ég bað hér um orðið. Hv. þm. komst svo óheppilega að orði, að hinn rússneski kafbátur, sem strandaði í sænskri landhelgi búinn kjarnorkuvopnum, hefði orðið til þess að menn hér á Íslandi hefðu hælst um og sagt: Þarna sjáið þið, þetta er gagnið sem friðarhreyfingin gerir. — Ég hnaut um það, að án frekari skýringa var minnst á friðarhreyfinguna hér í þessu sambandi. Mér finnst rétt, úr því að það atriði bar sérstaklega á góma, að minna á að rétt um sama leyti kom það upp, að KGB kostaði friðarhreyfingarstarfsemi í Danmörku. Það er það atriði sem ásamt þessu varpaði ljósi á þá yfirgengilegu skinhelgi sem viðgengst í starfsemi þessarar svokölluðu friðarhreyfingar.

Ég vildi í þessu sambandi sérstaklega minna hv. þm. og aðra hv. þm. á leiðara í blaði, sem stundum lætur sér tíðrætt um þessi mál, en það var Þjóðviljinn sjálfan 7. nóv., þann dag sem þeim er mjög kær allajafna. Þar var sérstaklega tekið fram að friðarhreyfing, sem byggði á hinum sovéska friði, væri verri en engin friðarhreyfing. Ég vildi óska að þessi ummæli væru þess eðlis, að allir þm., sem styddu þann flokk sem stendur á bak við þetta dagblað, gætu undir þetta tekið og hættu þar með ýmsum skinhelgiráðstöfunum í sambandi við svokallaðar friðarhreyfingar.