03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4538 í B-deild Alþingistíðinda. (4312)

164. mál, innlendur lífefnaiðnaður

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Umr. fara nú nokkuð á víð og dreif í þessu máli og hér er fremur rætt um þingsköp og þáttill. almennt en efni málsins og er það kannske eðlilegt. Ég á sæti í hv. atvmn. og ber ábyrgð á afgreiðslu þessa máls eins og aðrir nm. sem skrifuðu undir nál. án fyrirvara, en eins og komið hefur fram hafði einn hv. nm. fyrirvara.

Það vill til að í þessu máli höfum við nokkuð góða þekkingu á efninu, þar sem um þetta hefur verið skrifað í blöð og greinargerð er nokkuð ítarleg. Hins vegar er það alveg rétt, að hv. atvmn. hafði ekki mikinn tíma og beindi þessu til hæstv. ríkisstj. vegna þess að hún hefur miklu meiri tíma að áliti nefndarinnar. Það fer áreiðanlega betur að hæstv. ríkisstj. verji tíma sínum til að skoða þetta mál í sumar en að smíða sér einhver axarsköft, eins og hún hefur verið að gera í allan vetur. Þannig getur verið fullkomin ástæða til þess að gefa hæstv. ríkisstj. tækifæri til að gera eitthvað af viti. Þó hugsa ég að þetta hefi ekki verið tilgangur þeirra í nefndinni sem lögðu mesta áherslu á að málið færi út úr nefnd, sama í hvaða búningi slíkt gerðist.

Það er alveg rétt, sem hefur komið fram í þessum umr., að þáltill.-formið erum við farin að nota með talsvert öðrum hætti en var gert áður fyrr, sem best sést á þessari fjöldaafgreiðslu nefnda á þáltill. Í raun hygg ég að á sínum tíma hafi þáltill.-formið verið fyrst og fremst notað af stjórnarandstöðu, sem var að móta hugmyndir sínar á þingi, til þess að almenningur í landinu gæti séð á hverju hann ætti von þegar til kosninga drægi og þá mætti búast við að þeir, sem stæðu að slíkum tillöguflutningi, mundu snúa þessum málum í frumvörp ellegar standa beinlínis að framkvæmd málsins. Það hefur hins vegar færst í vöxt að stjórnarþm. hafi flutt hverja þáltill. á eftir annarri og sú sem hér er til umr. er enn eitt dæmið um það. Þetta er athyglisvert vegna þess að stjórnarþm. hafa eðli málsins samkv. beinan aðgang að framkvæmdavaldinu og eru þess vegna yfirleitt að fara fram á í þáltill. sínum að hæstv. ríkisstj., sem þeir styðja og hafa beinan aðgang að, láti athuga, kanna eða framkvæma eitthvað sem er auðvitað óeðlilegt að renni þannig í gegnum þingið því að vissulega getur meiri hl. komið hvaða þáltill. fram sem honum sýnist. Á þetta legg ég áherslu því að þannig vill til um þetta mál sem hér er til umr., að 1. flm., sem reyndar er fjarstaddur og getur ekki tekið þátt í þessum umr., er úr hópi stjórnarþm. og gat þess vegna með hægu móti komið því til skila til viðeigandi stjórnvalda að láta þessa könnun fara fram, þ.e. að gera það sem tillgr. gerir ráð fyrir að gerist nú eftir að hv. atvmn. hefur farið höndum um till. Ég geri þó ekki ráð fyrir að efnislega séu menn í andstöðu við till., sem hér er til umr., og þrátt fyrir að ugglaust megi finna að vinnubrögðum hv. atvmn., og ég efa ekki að það eiga ýmsir eftir að finna enn meir að þeim vinnubrögðum og þeirri niðurstöðu sem þaðan kemur þrátt fyrir margra klukkutíma starf á degi hverjum undanfarnar vikur, þá virði hv. alþm. nefndinni þetta til vorkunnar að sinni og greiði fyrir því, að gott málefni komist til ríkisstj. sem ekkert hefur þarfara við tímann að gera en kanna þetta mikilvæga mál.

Að lokum vil ég, herra forseti, rifja það upp, að fyrir nokkrum árum var kjörin nefnd samkv. þáltill. til að endurskoða þingsköp Alþingis. Eitt af verkefnum þessarar nefndar var að sjálfsögðu að gera tillögur um í hvaða formi ættu að birtast viljayfirlýsingar þingsins. Sú nefnd hefur ekki starfað um skeið og líklega er óhætt að slá því föstu að hún hafi jafnvel misst umboð sitt. Þó skal ég ekki fullyrða það. (ÓRG: Jú, jú, jú.) Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokks Alþb., upplýsir hér með frammíkalli að sú nefnd, sem sat undir stjórn þáv. hæstv. forseta þingsins, Gils Guðmundssonar, hafi ekki tengur umboð til að vinna sitt starf. Það er að sjálfsögðu eðlilegt þar sem formaður nefndarinnar situr ekki lengur á þingi og kosningar hafa farið fram í millitíðinni. Sé þetta rétt má segja að þessi mál séu m.a. í höndum hv. stjórnarskrárnefndar undir forustu dr. Gunnars Thoroddsens, hæstv. forsrh., sem um nokkurra ára skeið hefur verið formaður stjórnarskrárnefndar og átti að fjalla þar um stjórnarskrána og — ég undirstrika: og málefni Alþingis. Verða þingsköp þar varla undanskilin þótt sú nefnd eigi auðvitað fyrst og fremst að endurskoða stjórnarskrána. Í þeirri nefnd situr hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. En því hefur líka verið haldið fram, að sú nefnd hafi þegar misst umboð sitt. Henni var ætlað í upphafi að skila áliti haustið 1980, ef ég man rétt. Það er nú orðið langt síðan. Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj., en það er sáttmáli sem hún samdi í upphafi stjórnarferils síns, en lítið hefur borið á að menn vitni til að undanförnu að vonum, stendur skýrum stöfum að þessi nefnd ætli sér að skila áliti fyrir árslok 1980, en snemma árs var núv. hæstv. ríkisstj. mynduð. Það er þess vegna algerlega á ábyrgð stjórnarliðsins hvernig endurskoðun á þingsköpum líður. Það er auðvitað ekki nóg að koma hér, þegar rætt er um gagnlegt málefni, og kveina og kvarta, heldur ber stjórnarliðinu og þá að sjálfsögðu ekki síst formönnum þingflokka að hafa forustu fyrir því að koma því lagi á málin sem þeir telja að best sé. — Á þetta vildi ég minnast, herra forseti, þar sem tilefni gafst til í þessum umr.