05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4687 í B-deild Alþingistíðinda. (4520)

30. mál, lyfjadreifing

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Það kemur mér á óvart að heyra snarpar deilur milli þessara tveggja hv. þm. Það er sagt að glöggt sé gests augað, þó að sá, er kemur inn á Alþingi sem varaþm. um stund, eigi e. t. v. ekki að telja sig gest. Þegar ég kom á fund í þessari hv. nefnd fannst mér ríkja þar afskaplega heimilislegt andrúmsloft, eins og á ljúfasta kærleiksheimili.

Ég vil gera mitt til að bera sáttarorð á milli þessara ágætu þingvina úr hv. nefnd. Formanni heilbr.- og trn. er þvert um geð að drífa út úr nefndinni mál sem kom frá Ed. rétt nú fyrir nokkrum dögum. Nál. í hv. Ed. er dags. 27. apríl og í nefnd Nd. höfðu menn það á orði, eins og gengur þegar menn eru í tímahraki í þingnefndum, hvort ekki væri rétt að treysta niðurstöðu nefndarinnar í Ed. og afgreiða málið. En þegar þess er gætt, að allir nm. Ed. nema formaðurinn og hæstv. forsrh., sem ég veit ekki hvort tók þátt í nefndarstarfinu, undirrita nái. með fyrirvara og að fjöldinn allur af hv. þm. Ed. sat hjá við afgreiðslu málsins, þá er mjög vafasamt að hægt sé að hafa eindregna leiðsögn af því sem þar var unnið nema þá að láta málið daga uppi.

Annars er aðalatriðið í þessu efnislega það, sem mér þykir vera tilvalin leið til að sameina nú meiningar og hugi hv. 1. þm. Vestf. og hv. 8. landsk. þm. Hún er sú að láta afgreiðslu bíða þar til nær dregur gildistöku. Í sjálfu frv. stendur að það eigi ekki að taka gildi fyrr en um n. k. áramót, svo að tími gefst til að athuga það nægilega. Þá má afgreiða það strax á öndverðu næsta þingi, e. t. v. strax í fyrsta mánuði þess þings eða þó nokkru síðar væri.

Aðalatriðið er að hér er um mál að ræða sem er ágreiningsmál. Það á ekki að taka gildi samkv. ákvæðum frv. fyrr en um áramót og þess vegna tel ég að hv. þm. gætu sameinast um að vísa því aftur til ríkisstj. á þessu stigi.