05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4690 í B-deild Alþingistíðinda. (4523)

30. mál, lyfjadreifing

Frsm, minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð.

Ég vil benda hæstv. heilbr.- og trmrh. á að þegar unnið er að undirbúningi löggjafar sem þessarar hefur annaðhvort sá háttur verið hafður á, að það hefur verið unnið faglega og skipað þannig í nefndir eða það hefur verið farið inn á það að skipa nefnd frá stjórnmálaflokkum og þá hefur yfirleitt sá háttur verið hafður á, að allir flokkar eigi aðild að slíkri nefndarskipun. Það hefur verið talið hyggilegra allra hluta vegna í sambandi við undirbúning mála, eins og t. d. endurskoðun almannatryggingalaga, að þeir stjórnmálaflokkar eða þingflokkar, sem ekki eiga aðild að ríkisstjórn, hafi einnig átt aðild að slíkum nefndum. En það er að verða mjög táknrænt fyrir vinnubrögð þeirrar ríkisstj., sem nú situr, að reynt er að koma í veg fyrir að flokkar, sem eru í stjórnarandstöðu, fái aðild að slíkum undirbúningi. Það getur vel verið að Alþb. menn og framsóknarmenn éti meiri lyf en allir aðrir, ég get ekki dæmt um það, en eitthvað hljóta sjálfstæðismenn að láta niður í sig af lyfjum líka, fyrir utan landbrh., svo að það væri ekkert óeðlilegt að þeir hefðu átt aðild að þessari nefnd. Hvort ráðið hefur neysluhlutfallið í sambandi við undirbúning þessa máls skal ég ekkert segja um. Ég veit ekki hversu vel hæstv. landbrh. hefur kynnt sér þetta mál, en ef hann hefur mætt jafnvel í þessari undirbúningsnefnd og hann hefur mætt í heilbr.- og trn. veit hann nánast ekki neitt um það.

Mér þætti líka gaman að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. að því, hvort þeir séu þá fyllilega sammála, hann og landbrh., um 58. gr. þessa frv. Ég veit ekki annað en það séu deilur uppi í sambandi við þá skyldu lyfjabúða að hafa dýralyf á boðstólum, en héraðsdýralæknar hafa einnig samkv. 58. gr. heimild til að annast sölu dýralyfja og þeim er tryggt að fá lyfin keypt hjá lyfjaheildsölum. Þarna hefur verið ágreiningur á milli frá hendi lyfjabúða og lyfsala, að sú skylda sé lögð á þá að hafa slík lyf til sölu, þá alveg sérstaklega á þeim stöðum þar sem héraðsdýralæknar selja þessi lyf, sem ég tel ekkert óeðlilegt að þeir geri. En það á þá ekki að vera að leggja skyldur á aðila í leiðinni. Þannig voru nokkur atriði.

Ég hygg að við, sem höfum starfað í vetur í heilbr.- og trn. þessarar deildar, höfum ekki borið saman umsagnir og aths. við þetta frv., og ég hygg að landbrh. hafi ekki séð þessar aths. Þær voru þó nokkuð margar og voru sumar mjög nýjar samkv. dagsetningum, þessara erinda.

Hæstv. ráðh. segir að stjórnin og stjórnarmeirihl. beri ábyrgð á lagasetningu. Ég skil nú ekki að það sé mikil ábyrgð í þessari stjórn, en látum það vera. En væri ekki að mörgu leyti viðfelldnara fyrir ríkisstjórn á hverjum tíma, bæði fyrir þessa ríkisstjórn sem og aðrar ríkisstjórnir, að reyna að hafa ábyrgðina í sem flestum málum sem víðtækasta og hafa þá stjórnarandstöðu með? Ef vel tekst til mega þó báðir deila ábyrgðinni með sér og þakklætinu fyrir það sem vel tekst. Ef illa tekst til væri að mörgu leyti sterkt fyrir stjórnina að hafa þá stjórnarandstöðu bundna í hlutdeildinni í ábyrgðinni. En sumir menn eru auðvitað haldnir því að vilja alltaf sýna vald sitt, jafnvel þó að það hangi á mjög veikum þræði. Er út af fyrir sig ekkert við því að segja að þeir fái þá að þjóna þeirri áráttu sinni, eins og mér skilst á svari hæstv. ráðh. út af hóflegri beiðni hv. 1. þm. Reykv.

Sagt var fyrir fjöldamörgum árum um bíleiganda einn þegar kvartað var undan því að það væru engar Þingvallaferðir á sunnudögum, að í staðinn fyrir að reyna að bæta úr þeim umkvörtunum auglýsti bíleigandinn í blöðunum daginn eftir: „Engar Þingvallaferðir á sunnudögum. Hér talar sá sem valdið hefur og bílana.“