06.05.1982
Sameinað þing: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4834 í B-deild Alþingistíðinda. (4626)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherrum svör þeirra. Ég dreg þær ályktanir af þeim svörum, að í fyrsta lagi sé það hvorki skoðun ríkisstj. né heldur hæstv. forsrh. eða hæstv. samgrh. að um sviksamlegt atferli sé að ræða af hálfu Alusuisse. Af svörum hæstv. iðnrh. var hvað það snerti ekki annað að merkja en hann tók fram að ríkisstj. sem slík byggði ekki málarekstur eða samningaviðræður við Alusuisse á þeirri forsendu, að um sviksamlegt athæfi væri að ræða. Hins vegar hlýtur hann að gera sér grein fyrir því, að ásakanir hans um sviksamlegt atferli af hálfu Alusuisse hafa orðið þess valdandi, að enginn árangur hefur orðið af þessum samningaviðræðum. Það stendur á því, hvort hæstv. iðnrh. vill draga þessi ummæli til baka eða ekki, að unnt sé að setjast að samningaborðinu og fjalla um raforkuverðið og það annað sem máli skiptir í þessu sambandi. Þetta er kjarni málsins. Það er þrjóska og stríðslund hæstv. iðnrh., þess sem fer með samninga af hálfu okkar Íslendinga, sem þarna er ákveðin fyrirstaða, þótt ég á hinn bóginn geti ekkert fullyrt hvaða árangur yrði af raunverulegum samningaviðræðum þegar þær hæfust.

Varðandi hina spurninguna kemur það athyglisverða fram af svörum hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh., að málamiðlunartillaga hæstv. iðnrh., sem hann lagði fram á nýafstöðnum viðræðufundi við fulltrúa Alusuisse, hefur ekki verið rædd í ríkisstj., hefur ekki verið lögð þar fram, ekki verið rædd eða lögð fram í ráðherranefndinni og hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. hafa ekki fengið afrit af þessari málamiðlunartillögu fyrr en eftir viðræðufundinn í dag. Ég spyr nú hv. þingmenn: Hvað ber frekar vitni um hversu illa og kæruleysislega er á þessu máli haldið af hæstv. iðnrh.? Nefni ég þá ekki þá móðgun sem hann gerir hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. Látum vera þó að hann hafi ekki samráð víð stjórnarandstöðuna, en slík framkoma gagnvart samstarfsmönnum sinum væri verð þess, að þeir tækju hann í karphúsið. En það er kannske í þessu sem öðru að þeir Alþb.-menn ráða ferðinni í ríkisstj.

Hæstv. iðnrh. var alveg undrandi og setti á sig mikinn helgisvip: Hugsa sér að sá maður, sem fer með samninga og viðræður fyrir hönd okkar Íslendinga við erlendan aðila, skuli ekki vera friðhelgur og undanþeginn allri gagnrýni. — Ég nefni það hér svona innan sviga, að nágrannaþjóð okkar, Bretar, á í stríði — er víst óhætt að segja — við Argentínumenn. Í Bretlandi er ekki aldeilis verið að spara gagnrýnina á stjórnvöld þó að sú þjóð eigi í stríði og fórni mannslífum. Þar ríkir lýðræði. Ég held að slík gagnrýni eigi sér ekki stað í Argentínu. Þar ríkir einræði. Hæstv. iðnrh. aðhyllist stjórnmálastefnu sem hefur leitt einræði yfir hvert landið á eftir öðru, og hann heldur að hann sé staddur í einræðisríki, hann sé friðhelgur og undanþeginn allri gagnrýni.

Hæstv. iðnrh. nefnir landhelgi annars vegar og orkulindir hins vegar. Ég fór með samningsumboð Íslendinga í landhelgismálinu 1974–1978 ásamt með þáv. utanrrh. og þáv. sjútvrh. á vegum ríkisstj. Ég var gagnrýndur fyrir meðferð þess máls. Ég var ekki að kveinka mér. Það er ósköp eðlilegt í lýðræðisríki að ráðherrar séu gagnrýndir. En ég tek fram þann mun á meðferð málsins þá og nú, að þá leiddu viðræður og samningaumleitanir til sigurs málstaðar okkar, en núna erum við föst og höfum ekki fengið lausn á okkar máli.

Það var miður smekklegt hjá hæstv. iðnrh. að vitna til og hneykslast á því, að framkvæmdastjóri ÍSALs væri kjörinn formaður Verslunarráðs. Það vill svo til að sá sem gegnir störfum framkvæmdastjóra ÍSALs nýtur þess trausts í röðum félaga í Verslunarráði Íslands, að þeir velja hann sem sinn forustumann. Hann hefur mannréttindi hér á Íslandi og er kjörgengur. Það er e. t. v. ekkert annað en vitnisburður um hugsunarhátt kommúnista að ætla að setja menn í bann fyrir þær sakir að vinna við fyrirtæki sem við Íslendingar höfum gert samning um að væri rekið hér á landi. Þetta er furðuleg framkoma hæstv. iðnrh. og langt fyrir neðan virðingu þm. og ábyrgð stjórnmálamanns. (Gripið fram í.) Ekki minnist ég þess, en hann væri sjálfsagt eftirsóknarverður í hana sem í önnur störf, vegna þess að þetta er mjög duglegur maður.

Þá vék hæstv. iðnrh. að því með hneykslunartón, að ég væri eini þm. sem tæki ekki gildar niðurstöður Coopers & Lybrandt. Nú veit hæstv. iðnrh. að iðnrn. sagði Cooper & Lybrandt á hvaða forsendum skyldi reikna út súrálsverðið og mat á því, hvort það væri í samræmi við aðalsamning og aðstoðarsamning um tækniaðstoð, og það er einmitt um það sem ágreiningurinn snýst. Það er um túlkun á því ákvæði í aðstoðarsamningnum um tækniaðstoð, þar sem komist er þannig að orði, að Alusuisse heiti því að gera sitt besta til að ÍSAL sæti bestu fáanlegu kjörum. Nú er sú túlkun á þessu í fyrsta lagi; hvort Alusuisse hafi leitast við að gera þetta, í öðru lagi, hver séu bestu fáanlegu kjörin, ef þessi samningur á við í þessu efni sem vefengt er? Ég hef ekkert á móti því, að haldið sé fram að þessi samningur eigi við. Ég er einmitt þeirrar skoðunar, að þessi samningur og þessi ákvæði eigi við. En það er lagaleg túlkun, hvort Alusuisse hafi gert sitt besta, og það er lagaleg túlkun, hver séu bestu fáanlegu kjör. Það, sem er miðað við í þessu efni, eru viðskipti milli Alcoa og japanskra fyrirtækja með súrál. Þá fæst mismunur upp á um það bil 17 millj. dollara, að því er mig minnir. En sé miðað við súrálsverð í viðskiptum og innkaupum verksmiðja í Bandaríkjunum er súrálsverðið til ÍSALs hagkvæmara. Sé miðað við súrálsverð til verksmiðja í Evrópu er um engan mun að ræða. Þetta er sannleikurinn á bak við þessa 17 millj. dollara, og það er engin bót fyrir okkar málstað að við gerum okkur ekki grein fyrir í hverju hann er fólginn.

Við skulum leggja þetta mál í gerð og fá úrskurð um lagalegan skilning og sömuleiðis hvort unnt sé að ætlast til að Alusuisse hafi átt að útvega ÍSAL súrál á lægra verði. Það finnst mér sjálfsagt. En hitt er algerlega út í hött, að undrast það að menn leiti raka og forsendna fyrir þeim tölum sem uppi hafa verið hafðar. Ég minni á að upprunalegu tölurnar af hálfu hæstv. iðnrh. voru 47–48 millj. dollarar, en hurfu með þessum hætti niður í 17 millj. dollara. Við skulum gera okkur raunhæfa grein fyrir málstað okkar og halda fast á honum á þeim grundvelli, en vera ekki að blekkja sjálfa okkur eða aðra varðandi málstað okkar.

Ég skal svo fara að stytta mál mitt. Ég er þeirrar skoðunar, að það væri fullkomin ástæða til þess, að Alþingi eða þingflokkarnir skipuðu 7 manna nefnd er fjallaði um þetta mál. Til þess að spilla ekki fyrir þeirri tillögu vil ég ekkert vera að fjölyrða um það fordæmi sem afgreiðsla Alþingis á Blöndumálinu og stjórn kísilmálmverksmiðjunnar veitir að þessu leyti, en þar er meðferð málsins falin sjálfstæðri nefnd sem er til þess fallin að vinna að málinu án þess að í felum sé haft.

Ég vil svo aðeins að lokum taka það fram, að því fer fjarri að viðræðunefnd sú, sem skipuð var s. l. sumar, hafi verið höfð með í ráðum. Ég get nefnt t. d. að það er skipuð ný viðræðunefnd við hlið og utan við þá viðræðunefnd, sem skipuð var s. l. sumar, og þá eingöngu skipuð af aðilum sem standa að ríkisstj. Ég á við þá viðræðunefnd sem fjallaði um möguleika þess, að japanskt fyrirtæki kæmi inn sem eignaraðili eða lánveitandi til þess að Íslendingar eignuðust hlutdeild í ÍSAL.

Ég get nefnt annað dæmi. Á desemberfundinum, viðræðufundinum milli fulltrúa ÍSALs, fulltrúa Alusuisse og viðræðunefndarinnar var hún eiginlega tekin úr sambandi og formaðurinn einn fór með viðræðurnar í beinu sambandi við iðnrh. Þetta eru engir starfshættir. Hæstv. iðnrh. verður að skipa mönnum sínum svo fyrir að hafa samband við og taka mark á viðræðunefndinni.

Það kemur auðvitað aldrei til greina, að stjórnarandstaðan segi já og amen við öllu því sem hann gerir. Stjórnarandstaðan er ekki samferða iðnrh. í hverri vitleysu sem hann hyggst taka sér fyrir hendur. Við sjálfstæðismenn erum tilbúnir að taka þátt í því að ræða við Alusuisse um eignaraðild, að því tilskildu að um stækkun álverksmiðjunnar sé að ræða, sem er brýnt hagsmunamál okkar. Með þessum hætti er unnt að skapa þjóðarsamstöðu, ef um fullt samráð er að ræða og mál fortíðarinnar, deiluefnin sem þyrlað hefur verið upp til skaða þessu máli, eru upplýst að fullu. Með þessum hætti á að vinna að þessu máli.