07.05.1982
Neðri deild: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4893 í B-deild Alþingistíðinda. (4664)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vakti máls á því við umr. um bankafrv., að hækkanir á þungaskatti hefðu verið með óeðlilegum hætti, og beindi fsp. til hæstv. fjmrh. af því tilefni, en það hefur orðið að samkomulagi að taka málið aftur upp hér. Ég vil skírskota til þess sem ég sagði um málið þá efnislega, en verð samt að minna á að Landvari, félag vörubifreiðaeigenda á flutningaleiðum, hefur skrifað fjmrn. bréf, dags. 18. febr. 1982, þar sem rök eru fyrir því færð, að hækkun á þungaskatti hafi allt frá árinu 1978 verið umfram löglegar heimildir, og er þar boðað að mál verði hafið fyrir endurgreiðslukröfu að fjárhæð 89 314 kr. sem Landssambandið telur að ofgreitt hafi verið í þungaskatt frá 25. júlí 1978 til síðustu áramóta. Hér er um það að ræða, að á sínum tíma var í lögum frá 19. des. 1975 ákveðið að ráðh. væri með reglugerð heimilt að hækka grunntaxta bensíngjalds og árgjald þungaskatts í samræmi við hækkun vísitölu byggingarkostnaðar. Þó breyting hafi verið gerð á þeim lögum síðar kom ekkert fram um tilhögun þessara gjalda, ekkert um að ætlast væri til að þessi tenging við vísitölu byggingarkostnaðar félli úr gildi. Eðli málsins samkv. tel ég það eðlilegt án þess að ég reki það nánar að þessu sinni.

Af þessu tilefni voru fsp. mínar til hæstv. fjmrh. Í fyrsta lagi: Hyggst hann verða við endurgreiðslukröfu á þungaskatti í samræmi við bréf Landvara frá 18. febr. s. l.? Í öðru lagi: Hyggst hann lækka þungaskattinn til samræmis víð byggingarvísitölu strax eða hyggst hann láta þungaskattinn vera óbreyttan þangað til verðbólgan hefur jafnað þann mun sem þar hefur nú orðið? Í þriðja lagi: Hyggst hann halda uppteknum hætti og hækka þungaskattinn að eigin geðþótta h vað sem liður skýrum lagaákvæðum?