11.11.1981
Efri deild: 11. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1982. Eins og kunnugt er hefur verið lögð fram lánsfjáráætlun fyrir árið 1982 ásamt fjárlagafrv. fyrir sama ár og hefur verið mælt fyrir fjárl. og lánsfjáráætlun við 1. umr. fjárlaga og einnig hefur verið sérstök umr. um lánsfjáráætlunina í Sþ. Frv. þetta er fylgifiskur lánsfjáráætlunar og er til þess samið að afla lagaheimildar vegna þeirra ákvarðana sem tengjast lántöku í fjárlagafrv. og í lánsfjáráætlun. Þessar heimildir eru til Framkvæmdasjóðs Íslands, til fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs og til sveitarfélaga til erlendrar lántöku. Í frv. eru einnig breytingar á lögum fjárfestingarsjóða og ákvæði um hámarksframlög til nokkurra verkefna í samræmi við markaða stefnu í fjárlagafrv. fyrir árið 1982.

Eins og kunnugt er breyta fjárlög ekki lögum. Ef í fjárl. er kveðið á um lægri fjárhæðir til tiltekinni verkefna en lög kveða á um verður að sjálfsögðu að breyta viðkomandi lögum. Þetta hefur verið gert nú í nokkur ár um leið og lánsfjárlög hafa verið afgreidd, þannig að formlega liggi fyrir lagaleg heimild til að takmara greiðslur samkv. fjárl. til tiltekinna verkefna. En vissulega hlýtur að vera eðlilegast að þessum lagaákvæðum sé senn hvað líður, breytt til frambúðar þannig að ekki sé um að ræða lagabreytingar af þessu tagi á hverju ári.

Eins og kunnugt er skilaði nefndin tillögum til ríkisstj. fyrir tveimur árum um framlög ríkisins til fjárfestingarlánasjóða og gerði þar ráð fyrir verulegum niðurskurði til flestra sjóðanna. Þessum tillögum hefur síðan verið fylgt í meginatriðum þótt nokkrar undantekningar séu þar á. En eins og ég segi, það virðist eðlilegast að gengið sé frá þessum lagaákvæðum í eitt skipti fyrir öll. Að þessu sinni er þó leitað eftir heimild til að takmarka framlögin á næsta ári, árinu 1982, en vonandi verður það í seinasta sinn sem fara þarf þessa leið. Hins vegar vil ég taka það fram, að til þess að hægt sé að breyta öllum þessum lögum um framlög til sjóða þarf að sjálfsögðu helst að vera samkomulag allra flokka um það efni. Þessi lög eru til orðin í tíð margra ríkisstjórna, og það var vissulega mjög ánægjulegt skref sem stigið var með nál. þar sem gert var ráð fyrir takmörkun á þessum framlögum. Það skal vissulega tekið fram, að allir nefndarmennirnir skrifuðu undir nál. með fyrirvara á sínum tíma og höfðu allir sínar sérathugasemdir í því sambandi, en þó var augljóst mál að flokkarnir allir virtust vilja fylgja þeirri meginstefnu að takmarka framlögin, og ég held að þegar nú þessi skerðing hefur verið samþykkt í þrennum fjárlögum, í raun og veru í fernum fjárlögum, þá sé nú tími til kominn að fara að ganga frá þessum málum með skýrum hætti í viðkomandi lögum.

Að síðustu ber að nefna að leitað er viðbótarlántöku vegna ársins 1981, og er nánari grein gerð fyrir þessari viðbótarlántöku í aths. við 28. gr. frv. Þar er í fyrsta lagi á það bent, að nokkur umframkostnaður hafi orðið við lagningu Suðausturlínu og þurfi að afla heimildar til lántöku til að ljúka þeirri framkvæmd, en henni lýkur á þessu ári. Er bráðnauðsynlegt að linan geti skilað orku þegar á þessu hausti.

Orkubú Vestfjarða hefur átt í miklum erfiðleikum síðan það var sett á laggirnar og þó sérstaklega nú á seinni árum, m. a. vegna þess hvað Vesturlina varð sein til að skila þeim Vestfirðingum orku. Virðist óhjákvæmilegt að afla nokkurs rekstrarfjár til að Orkubú Vestfjarða verði rekið með eðlilegum hætti. Eins og kunnugt er varð að framleiða verulega mikla raforku á s. l. ári með dísilvélum og raforkan varð því dýrari en gert hafði verið ráð fyrir. Á það ekki aðeins við um Orkubúið, heldur einnig Rafmagnsveitur ríkisins og margar aðrar rafveitur, m. a. Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Sá halli, sem varð á rekstri hjá þessum fyrirtækjum, hefur nú að mestu verið gerður upp, en þó hefur reynst erfiðast að gera upp þennan halla hjá Orkubúi Vestfjarða þar sem þar er um minnsta rekstrareiningu að ræða og skuldin hlutfallslega mikil sem þar safnaðist upp. En ég vænti þess, að frá þeim skuldamálum verði gengið í byrjun næsta árs og að greiðsla á þessum skuldahala komi frá verðjöfnunargjaldi raforku.

Við samningu lánsfjáráætlunar fyrir árið 1981 voru fjármál ýmissa hitaveitna og rafmagnsveitna sérstaklega athuguð. Þá var talið unnt að framlengja ýmis lán og breyta lánskjörum þannig að eigi þyrfti að afla sérstakra lagaheimilda til að greiða úr fjárhagsvandanum. Komið hefur hins vegar í ljós, að þessi leið var aðeins fær að takmörkuðu leyti þar sem ýmsar skuldir þessara veitna voru við aðra endurlánareikninga ríkissjóðs og fjárhæð, sem er 8 millj. kr., er því ætluð í lán til þessara veitna. En hér er ekki um að ræða aukningu á lántökum veitna, heldur skuldbreytingar. Fleiri tæknilegar breytingar af þessu tagi eru í frv. sem eru í raun og veru ekki nýjar lántökur, heldur þarf að afla skýrari lagaheimilda til tæknilegra breytinga á skuldum. Má þar nefna erfðahlut Listasafns Ístands úr dánarbúi Helgu Jónsdóttur og Sigurliða Kristjánssonar, en þar var um stórgjöf að ræða sem tekur nokkurn tíma að koma í peninga þannig að hægt verði að ráðstafa þeim til þeirra hluta sem þeim er ætlað. Getur því verið um bráðabirgðalántöku að ræða í því sambandi.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða að öðru leyti um þetta frv. sem er, eins og ég sagði áðan fylgifiskur fjárlagafrv. og lánsfjáráætlunar, en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til fjh.- og viðskn.