16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

96. mál, tímabundið vörugjald

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég met mikils ábyrgð forseta deildarinnar og þakka honum þær upplýsingar, að fjmrh. sé fjarverandi. Það kom okkur raunar ekki á óvart vegna þess að þm. kom inn fyrir hann í dag. Hins vegar vil ég eigi að síður vekja athygli á því, að þó að sé um gamlan skatt að ræða er þingvenja að mæla fyrir frv., og það er líka venja að þegar ráðh. forfallast eða fer utan gegnir einhver annar í ríkisstj. og þá væntanlega úr sama flokki ráðherrastarfi hans á meðan. Þá hefur það verið venja, að ráðh., sem gegnir starfi fyrir annan ráðh. sem fer í burtu, mæli fyrir málum. Ég var að vona að hæstv. ríkisstj. hefði ekki mikinn áhuga á þessu máli og hefði gjarnan viljað grynnka eitthvað á sköttunum og þess vegna vildi enginn mæla fyrir frv. Ég hef aldrei sett mig á móti því, að mál fari til nefndar, en á ekki því að venjast, að með svona sérkennilegum hætti skuli mál fara til nefndar. Því ætla ég ekki að greiða atkv.