17.11.1981
Sameinað þing: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

88. mál, kalrannsóknir

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka ágætar undirtektir þeirra hv. þm. tveggja sem hér hafa tekið til máls. Ég átti svo sem ekki von á því frekar en ella að hv. þm. Páll Pétursson sæi einhverjar ljósar hliðar á Alþfl.-mönnum. Hann hefur ekki gert það hingað til í sölum Alþingis. Hann byrjaði á því að reyna að snúa þessari till. í þá veru, að hún væri í einhverri líkingu við þá till. sem lögð var hér fram í snarhasti fyrir nokkrum dögum um Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni. Ég held að hv. þm. Páll Pétursson hefði átt að skoða þessa till. dálítið betur og gera sér grein fyrir því, að á henni er nafn Stefáns Jónssonar, þm. Alþb., sem styður ríkisstj. Ég tók fram í fyrir honum hér áðan og gerði honum grein fyrir því, að einum af hv. þm. Framsfl. hefði verið boðið að vera á þessari till., en hann sagði orðrétt að hann væri að vinna þessu máli brautargengi á bak við tjöldin.

Ég harma það raunar að hv. þm. Páll Pétursson skuli tala eins og hann talar ævinlega þegar Alþfl.-menn eiga í hlut hér á hinu háa Alþingi. Þegar þeir flytja tillögur af einhverju tagi er hann meinyrtastur allra manna og ætti að fara að temja sér aðra siði í þeim efnum, því að þetta er mjög hvimleitt háttalag þessa hv. þm., sem auk þess er formaður þingflokks Framsfl. Hann undraðist auðvitað að þessi till. væri vandvirknislega unnin. Ég get sagt honum það strax, að ég naut aðstoðar Bjarna E. Guðleifssonar við samningu till. Ég samdi till. þó sjálfur upp úr fjölda rita, sem ég hef fengið hjá Bjarna um þessi mál, og tel að hún sé engu lakari fyrir það. Kannske hefði hv. þm. Páli Péturssyni þótt sæmra að einhver framsóknarmaður hefði verið 1. flm. að þessari till. En landbúnaðarmál eru ekki einkamál Framsfl.

Ég vil fara nokkrum orðum um það sem hv. þm. Steinþór Gestsson sagði. Hann sagði að sér þætti þessi till. bera nokkurn keim af því, að hún tæki sérstaki tillit til kjördæmissjónarmiða. Ég fer ekkert í grafgötur með það, að auðvitað gerir till. það að nokkru leyti. Segir í upphafi hennar að stefnt skuli að því, að miðstöð þessara rannsókna verði að Möðruvöllum í Hörgárdal. Ég get líka upplýst það, að þetta atriði var borið undir RALA-menn, þ. e. þá vísindamenn sem starfa hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, og þeir höfðu í sjálfu sér ekkert á móti þessu orðalagi, einkum og sér í lagi vegna þess að þarna var um það rætt, að þetta yrði gert í fullu samráði og samvinnu við Rannsóknastofnun landbúnaðarins.

Þá vil ég einnig geta þess út af ummælum um Bjarna E. Guðleifsson, að svo furðulega vill til að hann sem okkar hæfasti og langfremsti sérfræðingur og vísindamaður í kalrannsóknum er í fjórðungsstarfi á Möðruvöllum í Hörgárdal við kalrannsóknir. Það hefur ekki þótt fært hingað til að hafa hann nema í fjórðungsstarfi, hæfasta Íslendinginn sem við eigum á þessu sviði. Hann vinnur 1/4 úr degi hverjum við þær rannsóknir sem hann er menntaður til að vinna að. Þetta er auðvitað fásinna og endaleysa.

Ég get líka látið það koma hér fram, að Bjarni hefur kosið að starfa að Möðruvöllum og vill af þeirri ástæðu að rannsóknirnar gætu farið sem mest fram þar, en telur heldur ekkert því til fyrirstöðu, að þær gætu farið fram í öðrum landshlutum að einhverju leyti.

Tekið er fram á 2. síðu þáltill. að þetta verði birt í erlendum tímaritum vegna þess að þetta verður gefið út í sérstökum útgáfum. Nú er til talsvert magn rita um kalrannsóknir hér á Íslandi á íslensku, en það verður einnig gefið út í erlendum tímaritum. Þykir það nokkur heiður og sómi og þess vegna er þess sérstaklega getið.