19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

321. mál, húsnæðismál

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það mátti skilja á orðum fyrirspyrjanda að kapalsjónvörp væru næsta fátíð. (Gripið fram í.) Ég bið þá afsökunar. Ég sagði að það mætti skilja á orðum hans, en ég var ekki búinn með setninguna. Hins vegar kom það fram hjá honum á eftir, að alls staðar, þar sem svo væri, væri það samkv. lögum um reglum. sem sett hefðu verið, og undir opinberu eftirliti. Þetta er auðvitað hárrétt. En kapalsjónvarp er að sjálfsögðu búið að vera við lýði í mörg ár og kom til umræðu hér á landi í sambandi við Keflavíkursjónvarpið á sínum tíma.

Hæstv. menntmrh. telur sig hafa lítið vald til að framfylgja þeim lögum sem falla undir embætti hans. Hér er um að ræða brot á fleiri lögum, sem falla undir aðra ráðh., dómsmrh. t. d. og að öllum líkindum fjmrh., því að eins og hér hefur verið bent á af mörgum ræðumönnum er hér að sjálfsögðu um margfatt brot á höfundarréttarlögum að ræða og í því efni hefur stórkostlegur þjófnaður átt sér stað. Það er líka vitað, að það hefur átt sér stað ólöglegur innflutningur á þessum myndböndum og það hefur átt sér stað ólögleg fjölföldun þessara myndbanda hér heima. Það hefur verið framið brot á þeim rétti sem leiguhafar kvikmyndasýningarréttar hafa keypt sér erlendis. Þessi þáttur hefur verið brotinn. Eins og ég minntist lauslega á áðan hafa líka verið brotnar reglur um kvikmyndaeftirlit, því að sömu myndir og kvikmyndahúsin sýna hér í Reykjavík og hafa verið klipptar og skornar af íslensku kvikmyndaeftirliti koma óbreyttar og óstyttar og óklipptar til sýningar meðal þúsunda Íslendinga, bæði barna og fullorðinna, í gegnum kapalsjónvarpið. Þetta vita allir ráðh. um, en þeir hafa ekkert gert í þessu. Þeir hafa ekki talað saman. Ráðherrarnir eru að dansa út. Þeir geta þá allir í ríkisstj. tekist í hendur væntanlega og sungið: „Dansi, dansi dúkkan mín“— og látið lögbrotin þróast.