19.10.1981
Efri deild: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

30. mál, lyfjadreifing

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu sammála hæstv. heilbrmrh. um að sú löggjöf, sem við ræðum hér um, þarf að þjóna almannahagsmunum. Auðvitað kemur ekki annað til greina. Ég hef ekki heldur heyrt neinn halda öðru fram. En það mætti hugsa sér að löggjöfin gæti svo best þjónað almannahagsmunum að tekið væri tillit til tillagna þeirrar stéttar sem vinnur þau störf sem hér er um að ræða.

Hæstv. ráðh. sagði að ekki hefðu verið teknar inn í þetta frv. tillögur Lyfjafræðingafélags Íslands. Ég var ekki að spyrja um það, því að eins og ráðh. tók fram — hann hafði líka sagt það í sinni fyrri ræðu — hefði það ekki verið gert, ég vissi það. Það, sem ég spurði um, var það, hvort teknar hefðu verið til sérstakrar athugunar tillögur þær, sem Lyfjafræðingafélag Íslands hefur lagt fram, og hvort það hefði verið metið á grundvelli þeirrar athugunar, hvort rétt væri að taka tillit til þeirra eða ekki.