19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

321. mál, húsnæðismál

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hv. þm. fara að verða ýmsu vanir í ræðuhöldum hér á hinu háa Alþingi. Ég verð að játa að ég minnist þess ekki að hafa setið undir jafnfurðulegum ræðuhöldum og hæstv. tveir ráðh. hafa haft um hönd hér nú. Hæstv. menntmrh. segir að í þessu efni hafi fólk tekið lögin í sínar hendur. Og hvaða ráð sér hann þá? Hann segir að það eigi að lofa því að „rasa út“. Mér dettur í hug, af því að ég var að horfa á ógnarlegan bruna í morgun, hvort væri kannske ráð að láta brennuvarginn rasa út. Það eru sumir sem halda því fram, að fangelsi sé ekki góður uppeldisstaður. Og hann hefur skipað 10 manna nefnd í málið — 10 manna nefnd — og svo kemur hæstv. dómsmrh. og fagnar þessari nefnd og segir að hann hafi enga kæru fengið, það hafi enginn hringt í lögguna út af þessu máli. Hér dynja kærurnar á sjálfri löggjafarsamkundunni frá þjóðkjörnum fulltrúum, — dynja kærurnar, lögbrot eru upplýst á allt að fjórum aðalbálkum laga, en hæstv. dómsmrh. fagnar því, að hæstv. menntmrh. er búinn að setja 10 manna nefnd og meira að segja valinkunnan mann í formennsku hvað þá meir, þannig að það er vandað til hlutanna. — Ég á ekkert einasta orð yfir þessum málflutningi. Ég verð að segja það, að ef ég væri einn af stjórnarsinnum hefði ég fyrir löngu gengið út úr þessum sal og hengt mig.