24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

338. mál, aðild Íslands að kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þessi fsp. varðar aðild Íslands að kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum. Spurningin er í þremur liðum og reyndar get ég svarað þeim með einu orði um hvern lið.

Í fyrsta lagi er spurt: Hvaða áhrif hafa skuldbindingar Íslands gagnvart NATO á möguleika landsins til að verða hluti af kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum? Svarið er: Engin.

Í öðru lagi er spurt: Eru einhverjar skuldbindingar Íslands gagnvart NATO sem gætu hindrað að Ísland yrði hluti af kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum, og hverjar eru þá þær skuldbindingar? Svarið við þessum lið er nei.

Og í þriðja lagi er spurt: Hvert er álit utanrrh. á þeirri skoðun, sem fram hefur komið á Norðurlöndum, að Ísland geti ekki orðið hluti af kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum vegna hernaðartengsla Íslands við Bandaríkin? Svarið er að ég álit þessa skoðun algera firru.

Þó ég hafi þannig svarað þessum fsp. lið fyrir lið, þá er rétt að ég segi aðeins örfá orð um málið almennt. Hugmyndin um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum er orðin 18 ára gömul. Hún var fyrst lögð fram af Kekkonen Finnlandsforseta og var lengst af lítið rædd í alvöru. Á þessu ári hefur hugmynd þessi verið talsvert rædd, m. a. í kosningabaráttunni í Noregi í vor og sumar, og það má kannske rek ja upphaf hennar að þessu sinni til áramótaræðu þáv. forsrh. Noregs, Nordlis. Hún hefur einnig, eins og hv. fyrirspyrjandi drap á, verið rædd á fundum utanrrh., var rædd þar fyrir tveimur mánuðum. Á þeim fundi kom fram að Danir, Íslendingar, Norðmenn og Svíar hafa mjög svipaða afstöðu til tillagnanna um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Raunar virtist mér að Finnar hefðu svipaða skoðun. Sú afstaða er í stuttu máli að hugmyndina megi athuga nánar að uppfylltum vissum skilyrðum. Meðal þeirra skilyrða er að slíkur samningur verði hluti af umfangsmeiri aðgerðum á sviði afvopnunar í Evrópu, enda Norðurlönd öll kjarnavopnalaus hvort eð er. Á móti verði að koma samdráttur í kjarnavopnabúnaði í helstu víghreiðrum í nágrenni Norðurlanda, svo sem á Kólaskaga og við Eystrasalt. Norðurlöndin í NATO áskilja sér að sjálfsögðu samráð við bandamenn sína, og Svíar undirstrika að þeir séu ekki til viðræðna um neina samninga nema þeir sannanlega auki öryggi Svíþjóðar. Einnig sýnist nokkuð ljóst að Norðurlönd ein gera ekki slíkan samning við Sovétríkin þegar af þeirri ástæðu, að samningur milli kjarnorkuvopnaveldis annars vegar og ríkis eða ríkja, sem ekki hafa kjarnavopn, er lítils virði. Hugmyndirnar um kjarnavopnalaust svæði á Norðurlöndum að uppfylltum framangreindum skilyrðum og e. t. v. fleiri hafa enn ekki komist á það stig hjá stjórnvöldum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, að menn séu farnir að velta fyrir sér landfræðilegri skilgreiningu svæðisins. Af svari finnska utanrrh. við fsp. minni á utanrrh.-fundi Norðurlanda í haust mátti ráða að annaðhvort hafa Finnar ekki hugsað sér Ísland á þessu svæði eða þeir voru einfaldlega ekki farnir að hugleiða þetta atriði. Verði sú þróunin í framtíðinni, að í tengslum við víðtækar aðgerðir í öryggis- og afvopnunarmálum Evrópu komi samningur um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum til nánari athugunar, þá áskiljum við Íslendingar okkur að sjálfsögðu rétt til að taka þátt í slíkum samningaviðræðum og verða hluti af hugsanlegu samningssvæði.

Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en ríkisstjórnir hinna Norðurlandanna séu fúsar til samstarfs við okkur í þessu efni, enda kom það fram hjá finnska utanrrh. í haust í svari við spurningu minni, að það væri hverrar ríkisstjórnar að ákveða hvort hún óskaði þátttöku í hugsanlegum samningum. Hitt er svo annað mál, sem ég skal ekkert fullyrða um á þessu stigi, hvort þær hugmyndir, sem ræddar hafa verið, komast nokkru sinni í framkvæmd. Á því hafa menn misjafnlega ríka trú. En eitt held ég þó að öruggt sé að segja, að eftir þá atburði, sem gerðust nýlega og alkunnir eru í Svíþjóð og Danmörku, verður minni skriður á þessum málum en verið hefur að undanförnu. Ég býst satt að segja við því, að ef utanrrh.-fundinn hefði átt að halda á morgun t. d. í staðinn fyrir fyrir tveimur mánuðum, þá hefði kannske eitthvert annað hljóð verið komið í strokkinn.