24.11.1981
Sameinað þing: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

38. mál, fangelsismál

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd. Ég verð að segja að það var engin smáræðisdýpt í erindi hæstv. dómsmrh. áðan. Ég vil ekki vera að eyða tíma í að munnhöggvast hér við hann og skiptir satt að segja minnstu máli. Þó furðar mig á því, að ráðherra, sem er búinn að biðja um frest á að mál séu tekin til umræðu, — þetta mál hefur frestast slag í slag, það hefur þó ekki í öllum tilfellum verið sök ráðherra, — hann er með alls konar sparðatíning út og suður. Ráðherrann hefur alls ekki tök á málaflokknum. Hann er að teygja þetta yfir í einstök mál, er með sparðatíning sitt úr hverri áttinni. Svona á ekki að halda á þessum málum.

Hann byrjaði á því, og ég ætla alls ekki að fara að eltast við þá ræðu, að lýsa því yfir, að ég hefði sagt í einhverjum fjölmiðlum að það yrði sprenging þegar ég væri búinn að tala hér á Alþingi. Ég sagði að það yrði sprenging ef þessi nefnd yrði kosin og færi að kynna sér og kafa niður í þessi mál. Þá yrði sprenging. Annað var í stíl.

Hitt get ég ekki stillt mig um að segja, þegar kemur hér dómsmrh. sem hefur það að atvinnu sinni að gera greinarmun á réttu og röngu, leggur á það ríka áherslu, að það sé aldeilis ekki sama hvaða þm. komi og tali við hann: Ja, það er eðlilegt að menn taki að sér störf, ég segi það bara. Hugarfarið er vægast sagt skuggalegt.

Ég vil alls ekki fara að ræða þennan skjólstæðing minn, enda eins og margoft hefur komið fram hrein tilviljun að hann varð fyrir valinu. Mér kæmi það ekkert á óvart, að farið yrði eitthvað að hefnast á honum. Ég vil bara minna á að ég var að benda á oftrúna á fangelsi. Ég var bæði að leggja áherslu á breytingar á lögum, breytingar á meðferð, og ég var að tæpa á því, hváð það væri nauðsynlegt að ná til þessara ungu manna með aðstoð nægilega snemma þannig að þeir þyrftu ekki að lenda í þessu spillingardíki. Þetta var inntak míns málflutnings.

Svo ég taki dæmi um hið sundurlausa tal ráðherrans, þá segir hann að sumir hafi trú á því, að það sé hægt að afnema fangelsi. Á það minntist enginn maður. Ég sagði orðrétt: Ég skal líka viðurkenna að ýmsum óhæfuverkum og jafnvel níðingsverkum verður erfitt að láta órefsað. Er ekki hægt að gera þær kröfur til dómsmrh. að hann hafi tök á þessu efni? Ég hélt kannske að ég hefði verið fullharðhentur í upphafi, en ég sé að það hefur verið alveg hið gagnstæða, því að öllu ömurlegri ræðu hef ég hreinlega ekki heyrt um þessi vandamál.

Ég get tekið undir megnið af því sem hv. 9. þm. Reykv., Vilmundur Gylfason, sagði. Ég vil þó leggja áherslu á að vitanlega eru bætt húsakynni til bóta. En spurningin er er kannske ekki fyrst og fremst hvort við þurfum að byggja svo gífurlega stór tugthús. Vandinn er sá, hvernig við getum afstýrt því, hvað hægt er að gera jákvætt í þeim málum, hvernig hægt er að taka á þessum djúpa vanda sem ég tók skýrt fram að væri ekki hægt að saka núverandi dómsmrh. um. Það er þetta vandamál sem við eigum við að glíma.

Ráðherrann sagði síðan að lokum, og þá fór hann að lofa eins og á kosningafundi, að hann væri reiðubúinn að hlusta á gagnrýni og athuga þessi mál öll, hann vildi ekki persónulega að neinum liði illa í fangelsi. Ja, þvílík dýpt, þvílík heildaryfirsýn, þvílík tök á málefninu!

Höfuðatriðið er það, að þessi nefnd verði kosin og hv. alþingismenn leggi sig þar vel fram. Ræðu dómsmrh. treysti ég mér ekki til að endursegja. Ég held að hún væri best gleymd, svo ömurleg var hún. En eitt er þó til bóta og eitt skulum við þó vera vonglaðir um, að nú verði farið að ganga í þessi mál af mönnum úr öllum flokkum og reynt að leysa þau, taka öðruvísi á þeim og vera jákvæðari í lausnum en verið hefur. Þetta vona ég að þingheimur skilji. Ég geri ekki kröfur til að hæstv. dómsmrh. skilji það.