25.11.1981
Neðri deild: 15. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

46. mál, land í þjóðareign

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það ætla ég að seinni tíma mönnum verði allmikið undrunarefni, ef þeir lesa ræðu hv. 3. þm. Vestf., hver hin undarlegu kaflaskil eru, þegar reiðilestri lauk í fyrri helmingi hennar og þegar hinn blíðmáli tónn tók við í síðari helmingi. En menn geta sofið á málum þannig að þeim renni reiðin og hógværðin verði ofan á.

Ég gat þess við fyrri umr., að reynslan væri misjöfn af fjmrn. og einstaklingum þar sem annars staðar, og sagði ákveðna sögu af því, hvernig hagað hefði verið útskrift tékka til að tryggja að þeir hefðu ekki komið inn til greiðslu fyrr en eftir áramót. Sú saga er í alla staði sönn og óhrakin af 3. þm. Vestf. Hins vegar baðst hann undan því, að því væri fram haldið að ríkisstj. eða ráðh. bæri á því ábyrgð. Ég nenni ekki að fara í þrætur um það atriði, en undarlegt finnst mér samt ef þáv. fjmrh. hefur ekki haft af því einhvern pata, hvernig staðið var að málum, og talið að það gæti verið hagstætt upp á auglýsingaskrum í sjónvarpi svo sem reyndin varð á.

Okkur er tjáð að þetta lagafrv. sé borið fram til samræmingar við norsk lög. Það hefur áður glumið í eyrum Íslendinga, að lög skyldu frá Noregi upp tekin, og reynslan misjöfn. Nú er svo komið að við höfum reynslu fyrir þessum norsku lögum sem að sögn 3. þm. Vestf. eiga að vera til að sætta dreifbýli og þéttbýli. Það vill svo til að Noregur er trúlega orkuauðugasta land Norðurlanda og Norðmenn eru engu að síður að virkja norðarlega í Noregi. Er þar að öllu leyti með friðsemd og góðmennsku að verkum staðið eða til fyrirmyndar þannig að seinni tíma sagnfræðingar telji að það hafi tekist sættir milli dreifbýlis og þéttbýlis? (Gripið fram í.) Eru hlekkjaðir menn, sem vilja verja sinn rétt á þeim svæðum, það sem Alþfl. telur aðalatriði í sáttagerðinni miklu milli dreifbýlis og þéttbýlis?

Hv. 3. þm. Vestf. sagði hér áðan að þéttbýlið væri fjölmennt og gæti heimtað allan sinn rétt í þessum efnum. Ég efa ekki að meiri hluti Íslendinga muni búa í þéttbýli. Það breytir engu um hvernig vitlegast er að standa að því að komast með friði um þetta land og standa að lagasetningu sem ekki espar menn til ófriðar. Það gæti nefnilega farið svo, að fámennið yrði skeinuhættara ef harka færðist í þennan leik. Það gæti farið svo að menn hikuðu við að telja að það yrði auðhlaupið að halda uppi þeim lögum og þeim rétti á hinum dreifðu svæðum sem norski lögreglulið telur sig geta í Norður-Noregi.

Við höfum sýnishorn af því í fleiri tilfellum hvernig jafnaðarmenn telja að eigi að fara að þegar deilur verða háværar um skipulagsmál landssvæða og borga. Þær deilur áttu sér einnig stað í kóngsins Kaupmannahöfn og voru engin vettlingatök notuð. Ég held að það liggi þess vegna alveg ljóst fyrir, að það er enga sérstaka fyrirmynd í þessum efnum að fá í Noregi. Það er algjör blekking.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. flutti hér ræðu þar sem hann m. a. hóf umr. um landbúnaðarmál, þ. e. fallþunga dilka. Það hefði verið fróðlegt að fá upp hvert frjósemishlutfallið er hjá ám á Grænlandi, hvort það væru tvílembingar eða einlembingar sem þarna væru settir á snagann. (ÁG: 1.6 á móti 1.3. Ég get sagt þér það strax.) Til viðbótar er rétt að geta þess, að það er nú einu sinni svo með sauðfjárræktina, og þar veit ég að hann talar af mikilli þekkingu, að það hefur ekki verið einhlítt hér á landi, þó að hrútar væru þungir, að þeir fengju fyrstu verðlaun. Menn hafa viljað horfa svolítið á fleiri þætti í þeim efnum. Sú stefna hefur því ekki verið upp tekin alfarið á Íslandi, að dilkar skyldu umfram allt vera þungir. Það hefur verið horft á fleira, svo sem hlutfall á milli beina og kjöts. Meðan sú stefna er uppi er ég ekki viss um að það sé í alla staði hægt að bera þetta saman. Hitt er mér ljóst, að vissulega er með bættum högum hægt að fá meiri meðatfallþunga hér. Það liggur alveg ljóst fyrir.

En gagnvart öræfunum mættu menn gjarnan gera sér grein fyrir því, að það eru fleiri dýr, sem hafa þar grasnytjar, en bara kindur og hestarnir. Kannske væri það óþarft umhugsunarefni fyrir hv. 6. þm. Norðurl. e. að íhuga hversu mikið kjötmagn kemur af þeim gripum, ef þessir tveir dýrahópar, sem ég minntist á áðan, eru frá taldir, en hinir teknir fyrir, sem hafa þar grasnytjar einnig, og á ég þá ekki við hreindýrin.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. talaði um umferðarrétt á landi og afnotarétt. Ég lít svo á að það sé ekkert vafaatriði samkv. íslenskum lögum. Á ég þá við hin fornu ákvæði, að allur almenningur þessa lands hafi fullt ferðafrelsi um þetta land. Mér er ekki ljóst hvenær það hefur verið tekið af með lögum. Ég vildi gjarnan fá það fram, hvenær hann telur að þar hafi verið gerð breyting á. Skúli Alexandersson taldi það mikla framför á frv. þeirra Alþfl.-manna að nú væri svo komið að hann gæti sætt sig við eina grein af fimm. Má það vel vera að hann geri ekki meiri kröfur í þessum efnum. En það er hárrétt athugað engu að síður, að menn hafa hugsað allmikið um þessi mál frá því að þeir fyrst fóru að bera fram frv. um þessi efni. Það liggur alveg ljóst fyrir. Það skyldi engan undra þó að um einhverja framför væri að ræða.

Ég get vissulega tekið undir það, að margt hefur tekist vel í fjármálastjórn núv. fjmrh. Ég hef ekki borið hann út á þann veg að það sé annað en ég hér segi. En hitt vil ég segja til viðbótar, að það verða vissulega menn í framtíðinni úr öllum stjórnmálaflokkum í því sæti. Spurningin er aðeins þessi: Hverjum treystum við best til að varðveita og verja réttindi vors lands? Sagan segir okkur að landsfeðurnir afhentu landið í heilu lagi undir Noregskonung á sínum tíma. Gnúpverjahreppur afhenti vatnsréttindin í Þjórsá, en þeir útlendingar vildu einnig fá vatnsréttindin í Gullfossi og þar var einstaklingur til varnar og sá einstaklingur sagði nei. Ég trúi því, að þá fyrst verði þessu landi hætt ef einstaklingarnir hætta að líta á það sem sitt land — í pörtum e. t. v. eins og verið hefur, telja ekki að það sé eign einskis manns, eins og verið er að gera skóna ef öll landsréttindi þeirra, sem nytja landið, yrðu af þeim tekin. Það er ekki lagt til í þessu frv. Það voru hinar upprunalegu hugleiðingar þeirra manna sem nú bera fram þetta frv.

Ég vil undirstrika það, að ég veit ekki betur en í stjórnarskrá Íslands sé ákvæði þess efnis, að þegar almennaheill krefur sé bæði skylt og rétt að taka land eignarnámi. Það tel ég alveg sjálfgefið að gera þegar almannaheill krefur. En við hinu vil ég vara, að byrja að varpa því fram eins og sprengju hér, að fjmrn. eigi að arga lögfræðingum af stað til að hefja upp allsherjarmálaferli um jafnviðkvæm mál og hér er um að tefla. Ég vara við þeirri stefnu og ég er ekki viss um að það yrðu allir glaðir og það þætti öllum að tekist hefði að semja um sættir milli dreifbýlis og þéttbýlis með þeirri stefnu.

Herra forseti. Ég tel ástæðulaust að nota lengri ræðutíma.