26.11.1981
Sameinað þing: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

50. mál, tjón á Vesturlínu

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans. Mér fannst þau á ýmsan hátt ófullnægjandi. En þó ég segi það á ég ekki við að hæstv. ráðh. hafi ekki greint frá því sem hann best vissi um þessi efni. Annaðhvort virðist mér hann ekki hafa fengið nógu nákvæmar upplýsingar frá Rafmagnsveitum ríkisins eða að ekki hafi farið fram nægilega nákvæm rannsókn á því sem gerst hefur.

Hæstv. iðnrh. sagði að grundun staurastæðanna, eins og það var orðað, væri ástæðan fyrir því, hvernig farið hefði. Og hæstv. ráðh. sagði að það væri búið að rétta 40 stæður nú fyrir veturinn. Þetta er sjálfsagt rétt, en það segir ekkert um það, hvað er mikið eftir. Ég sé ekki að það sé nein heildarmynd af tjóninu sem hefur komið fram enn þá. Mér þykir miður að það skuli ekki vera.

Það kom líka fram í máli hæstv. ráðh., að það liggi ekki fyrir hvort um léleg vinnubrögð hafi verið að ræða við lagningu línunnar eða ekki. Hæstv. ráðh. sagði að þetta væri enn í athugun. Þetta sýnir m. a. að ýmislegt er enn þá á huldu um þetta efni. Hæstv. ráðh. sagði að lokið hefði 25. sept. viðgerð á þeim hluta línunnar sem ætti að ljúka fyrir haustið. Hann talaði ekkert um hvað það væri mikill hluti af þeirri viðgerð sem fram þyrfti að fara. Þetta er m. ó. o. töluvert óljóst. Og ég verð að segja það, að mér finnst nokkurri furðu gegna að þetta skuli ekki geta legið ljósara fyrir í dag en fram kemur í svörum hæstv. ráðh.

Þá vék ráðh. að spurningunni um það, hver ætti að greiða kostnað sem hlytist af þessu tjóni, og þá er átt við kostnað vegna aukinnar dísilkeyrslu til framleiðslu rafmagns sem þarf að fara fram meðan viðgerð fer fram á línunni. Hæstv. ráðh. sagði að ekkert lægi fyrir um hver þessi kostnaður væri. Ég get gefið þær upplýsingar, að þegar viðgerð fór fram í hálfan mánuð í haust nam umframkostnaður Orkubús Vestfjarða í 14 daga vegna aukinnar dísilkeyrslu af þessum ástæðum 890 þús. kr. Af þessu má nokkuð marka hve gífurlegan kostnað hér er um að ræða. En þetta var aðeins smávegis bráðabirgðaviðgerð. Aðalviðgerðin á eftir að fara fram. Það er þess vegna óljóst hver þessi kostnaður verður að lokum.

En ég leyfi mér að spyrja að því, hvað er ætlast fyrir um greiðslu á þessum kostnaði? Hæstv. ráðh. vitnaði í reglugerð varðandi endurgreiðslu á kostnaði í tvo daga sem kæmi til greina við bilanir á slíkum línum sem þessum. Ég skal ekkert ræða um þessa reglugerð. En það, sem skiptir máli í þessu sambandi, er hver ber ábyrgð á þessum skemmdum? Hver ber skaðabótaábyrgð á þessum skemmdum? Það er ekki Orkubú Vestfjarða því að Orkubú Vestfjarða vann ekki að þessu verki. Það hlýtur að vera sá aðili sem var verktaki við þetta verk gagnvart ríkissjóði. Þetta mál hlýtur að vita að Rafmagnsveitum ríkisins. Ég sé ekki annað en ábyrgð á þessu tjóni og greiðsluskylda hljóti að falla á þann aðila sem samkv. almennum skaðabótareglum ber að greiða tjónið.