26.11.1981
Sameinað þing: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

50. mál, tjón á Vesturlínu

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það liggur fyrir, eins og fram hefur komið hjá hv. fyrirspyrjanda og hv. 5. þm. Vestf., að endanleg könnun á þessu tjóni, bæði verktæknileg og fjárhagsleg, er ekki til lykta leidd og það mun skýrast á næstu vikum eða mánuðum. Niðurstöður vantar enn í þeirri athugun, og þá bæði um kostnað við þá viðgerð, sem þegar hefur farið fram, og e. t. v. mat á því sem ógert er, svo og um kostnað Orkubús Vestfjarða við raforkuframleiðslu vegna þessa áfalls.

Hv. fyrirspyrjandi gat um það, að óljóst væri hversu mikið væri eftir af viðgerðinni, og má með réttu segja að það liggur ekki fyllilega fyrir. En í svari mínu kom það fram, að halli hafi reynst vera á um 100 staurum eða staurastæðum af 1228, þar af hafi verið talið nauðsynlegt að rétta um 40 stæður fyrir veturinn, og ég geri ráð fyrir að það hafi verið fyrst og fremst á þeim stöðum þar sem mestur hallinn var, þar sem mest ástæða þótti til að styrkja línuna fyrir vetur, þannig að e. t. v. sé það hlutfall, sem þarna liggur fyrir, eitthvað hærra en 40% af heildartjóni, án þess að ég vilji nokkuð fullyrða um það. Hv. fyrirspyrjandi nefndi áætlaðan kostnað Orkubús Vestfjarða vegna framleiðslu með olíu, umframkostnað á því tímabili sem viðgerð stóð yfir. Ég vil hvorki rengja né staðfesta þær tölur. En eins og ég gat um í lokaorðum mínum áðan er sjálfsagt að líta á það mál út frá öllum forsendum, þegar búið er að fara yfir alla þætti málsins, og m. a. leitast við að leiða í ljós hver beri ábyrgð á því sem þarna kann að hafa farið úrskeiðis við lagningu línunnar.

Nú er það hins vegar svo, að við getum alltaf átt von á að mannvirki af þessari tegund eins og önnur verði fyrir áföllum í okkar stormasama landi. Og það er ekki eingöngu hérlendis sem slíkt gerist. Við heyrum það, að í grannlöndum okkar verða bilanir og rafmagnsleysi af völdum óveðurs, jafnvel í stórborgum, sem reyna þó að búa vel að sínu, eins og við fréttum af í þeim óveðursham sem yfir sunnanverð Norðurlönd gekk nú fyrir fáum dögum. Hitt er svo jafnsjálfsagt, að okkur ber að leitast við að læra af reynslu í þessum efnum. Og ég hygg að við séum að læra af þeirri reynslu sem fengist hefur af lagningu byggðalína til þessa. Ég veit að af hálfu veðurfræðinga m. a., sem í þessu taka þátt, er reynt að gera strangar kröfur í ljósi bestu vitneskju um væntanlegt álag á þessar línur. En við þurfum nauðsynlega að gera ráð fyrir því í uppbyggingu okkar raforkukerfis, að til slíkra bilana geti komið, og í því sambandi er nú verið að hefja vinnu að áætlun um nauðsyn varaafls í landskerfinu þar sem taka verður m. a. tillit til slíkra óhappa og áfalla sem hlotist geta af línubilunum og línuslitum þó að ekki sé endilega um langan tíma að ræða.