26.11.1981
Sameinað þing: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

105. mál, virkjun Blöndu

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Sú fsp., sem hér liggur fyrir brennur á margra vörum, hygg ég, bæði varðandi Blönduvirkjun og fleiri atriði sem snerta stórframkvæmdir í landinu á næstu árum, mál sem hafa verið til umræðu og athugunar um alllangt skeið. Alþingi skildi við þetta mál á síðasta degi sínum á síðasta þingi með samþykkt laga um raforkuver þar sem veitt var heimild fyrir miklum framkvæmdum á sviði raforkumála á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu svo og heimild til virkjunar þriggja nýrra vatnsaflsvirkjana, þ. á m. virkjunar Blöndu með allt að 180 mw. afli. Í 2. gr. þessara laga, nr. 60/1981, var ríkisstj. heimilað að láta ljúka undirbúningi og hönnun þeirra mannvirkja sem heimild var veitt til samkv. 1. gr. laganna, og þar sagði síðan orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Tillögur um framkvæmdir við nýjar vatnsaflsvirkjanir og virkjunaráfanga, þ. á m. um framkvæmdaröð, skulu lagðar fyrir Alþingi til samþykktar. Skal áður liggja fyrir greinargerð frá Landsvirkjun, Orkustofnun, Rafmagnsveitum ríkisins og öðrum þeim aðilum, sem ríkisstj. kveður til, um þjóðhagslega hagkvæmni virkjunarleiða og þýðingu þeirra fyrir raforkukerfi landsins. Jafnframt leggi ríkisstj. fram greinargerð um þá möguleika sem fyrir liggja um nýtingu orkunnar til orkufreks iðnaðar og sparnaðar á innfluttu eldsneyti.“

Í þessari sömu lagagrein var einnig veitt heimild til fjárútvegunar til áframhaldandi undirbúnings virkjunarframkvæmda. Sú heimild hefur verið notuð m. a. til áframhaldandi undirbúnings vegna Blönduvirkjunar og tiltekinna aðgerða til undirbúnings framkvæmdum á virkjunarsvæði Blöndu, þ. á m. og sérstaklega varðandi vegagerð áleiðis að virkjunarsvæði. Það var ljóst, þegar þessi heimild um virkjun Blöndu var veitt á s. l. vori, að eftir var að ganga frá samkomulagi um þessa virkjun við heimaaðila, og það var jafnljóst ríkisstjórnarliði sem stjórnarandstöðu, svo sem fram kom í tillögum um þetta efni. Því var og hefur verið lögð á það áhersla af iðnrn. að ná fram samkomulagi svo að tryggður væri sæmilegur friður um þessa virkjunarframkvæmd sem og aðrar í landinu, þannig að það lægi fyrir með sem skýrustum hætti, áður en málið yrði lagt hér inn á vettvang Alþingis, hvert horfði í þeim efnum. Í þessu skyni ritaði iðnrn. m. a. bréf 30. júlí 1981 til hreppsnefnda á svæði Blönduvirkjunar, þar sem vísað var til álits ráðgjafarnefndar, sem starfað hefur að þessu máli á vegum rn., þess efnis, eins og þar sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Að mati ráðgjafarnefndar rn. er óbreytt virkjunartilhögun við Blöndu, tilhögun I, sú eina sem til greina kemur ef Blönduvirkjun á að koma til álita sem næsta meiri háttar virkjun fyrir landskerfið á eftir Hrauneyjafossvirkjun.“

Og síðar í sama bréfi: „Það er því skoðun rn., að sem fyrst þurfi að liggja fyrir afstaða heimamanna að því er varðar virkjunartilhögun, auk þess sem unnið verði að fullgerðum samningi um virkjunarmálið að öðru leyti á grundvelli fyrirliggjandi samkomulagstillagna.“

Í framhaldi af svörum aðila á heimavettvangi og viðræðum, sem fram höfðu farið, lágu fyrir á fundi aðila — ég hygg síðast í ágústmánuði, drög að samningi vegna virkjunar Blöndu. Eftir þann fund var það ljóst, að verulega hafði þokað í samkomulagsátt í þessu efni varðandi samráð um bætur vegna tjóns, um uppgræðslu og um ágreiningsatriði. Um eitt efni var þó skýr fyrirvari af hálfu heimamanna, þeir áskildu sér rétt til að koma athugasemdum að um tilhögun lónsins við þá aðila sem eiga endanlegt ákvörðunarvald um veitingu leyfis til virkjunarframkvæmda. Fram að þessu hefur ekki fengist endanlega skorist úr þeim ágreiningi. Að því hefur þó markvisst verið unnið að leita leiða til að jafna hann.

Iðnrn. hefur að sjálfsögðu beitt sér fyrir því að afla þeirra gagna sem lögin um raforkuver gera ráð fyrir varðandi þjóðhagslega hagkvæmni virkjunarleiða í samræmi við 2. gr. laga um raforkuver. Þau gögn hafa verið að berast rn. á undanförnum vikum. Ég hef á öðrum vettvangi ekki alls fyrir löngu gert grein fyrir meginniðurstöðum í þeim álitsgerðum sem fyrir liggja frá Rafmagnsveitum ríkisins, Orkustofnun og Landsvirkjun, og var þar þó ekki um endanlegt álit að ræða í öllum tilvikum, en þær álitsgerðir munu senn liggja fyrir fullbúnar frá þessum aðilum. Jafnframt hefur ríkisstj. haft í undirbúningi greinargerð um möguleika í sambandi við orkunýtingu. Einnig sú greinargerð mun liggja fyrir innan skamms.

Ég hef lagt á það áherslu, að hægt væri að flytja mál þetta inn á Alþingi á þessu haustþingi, eins og fyrirheit voru gefin um við afgreiðslu frv. til l. um raforkuver á s. l. vori, og ég flutti málið inn á vettvang ríkisstj. um það leyti eða skömmu eftir að Alþingi kom saman í haust.

Ríkisstj. hefur haft það til meðferðar frá því um miðjan októbermánuð á grundvelli þeirra tillagna og með hliðsjón af þeim greinargerðum sem þá lágu fyrir og síðan hafa fram komið. Ég vænti þess, að ekki líði margir dagar þar til afstaða ríkisstj. í þessu máli liggur fyrir, og eftir að hún er fastmótuð mun ég stuðla að því, að málið komi hér inn á vettvang Alþingis til umræðu og afgreiðslu og samþykktar í samræmi við lögin um raforkuver. Ég vænti þess, að ráðrúm gefist til að ganga frá því máli fyrir jólaleyfi þingsins, en einn af þeim þáttum, sem nokkurri óvissu veldur enn, er deila, sem ekki hefur verið að fullu til lykta leidd, varðandi Blönduvirkjun. Við skulum vona að takist að fá úrslit í þeirri deilu þegar á það reynir í ljósi þeirra tillagna sem vænta má mjög innan skamms frá ríkisstj.

Ég vil svo aðeins bæta því við vegna ummæla hv. fyrirspyrjanda, að vegna meðferðar þessa máls frá því í vor og reyndar þó lengra sé litið hefur ekki orðið nein töf til skaða í sambandi við raforkuframkvæmdir í landinu. Það hefur þvert á móti verið staðið þannig að málum, að við höfum nú víðtækari heimildir til stórframkvæmda á þessu sviði en áður hafa legið fyrir. Við höfum úr meira að velja í þessum efnum en áður og undirbúningi við þessar framkvæmdir hefur verið hagað þannig að þær væru á hliðstæðu undirbúningsstigi svo að taka mætti afstöðu á þeim sérstöku forsendum með þjóðhagslega hagkvæmni og öryggi í raforkukerfi landsmanna að leiðarljósi. Það vænti ég að verði niðurstaðan og að þingheimur geti sameinast um skynsamlega niðurstöðu í þessu stórmáli sem fyrst eftir að það hefur verið fært hér inn á vettvang þingsins.