30.11.1981
Neðri deild: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

99. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með öðrum hv. þm., sem hafa tekið til máls um það frv. sem hér er til umr., að ég tel sjálfsagt að fá úr þessu skorið og þarf ekki að hafa mörg orð um það. En það er athyglisvert, að bæði hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. koma hér upp og leggja blessun sína yfir þetta frv. þar sem um er að ræða skerðingu á tekjum til ríkissjóðs, á sama tíma og þessir hæstv. ráðh. tveir leggja það fyrir hv. Alþingi í frv. til lánsfjárlaga að skerða verulega tekjur til Félagsheimilasjóðs, eins og gert er ráð fyrir í 22. gr. frv. til lánsfjárlaga. Þar er um það að ræða að þau félagsheimili, sem eiga lögum samkv. að fá úr Félagsheimilasjóði fjármagn til að standa straum af byggingarkostnaði, fá ekki það fjármagn. Nú horfir svo að Félagsheimilasjóður sé nánast gjaldþrota. Samt sem áður tekur ríkissjóður til sin skemmtanaskattinn, sem á lögum samkv. að fara í Félagsheimilasjóð, og notar hann til allt annarra þarfa ríkisins.

Ég hefði haft miklu meira gaman af því að heyra þessa ágætu hæstv. ráðh. koma hér og segja nokkur orð af því tilefni, því að þar er auðvitað verið að fara illa með þá sem enn hafa ekki getað byggt félagsheimili til þess að koma á fót starfsemi sem síðan er skattlögð og verið er að kvarta undan í þessu sambandi.

Ég tel nauðsynlegt að vekja athygli á þessu máli, því að tvískinnungurinn er alveg stórkostlegur, þegar þetta mál er tekið þessum tökum. Í reynd — og það er það sem ég vil leggja aðaláhersluna á — tel ég að sú hv. nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, þurfi að kanna þetta mál alveg frá grunni, kanna jafnframt fasteignagjöld sem falla á fasteignir af þessu tagi og hvort ekki sé kominn tími til að breyta lögum um Félagsheimilasjóð þannig að húsnæði t. d. stjórnmálaflokka falli a. m. k. undir þau ákvæði sem varða fasteignagjöld, þau losni undan slíkri gjaldtöku. Því til viðbótar tel ég vera fulla ástæðu til þess að kannað verði í hv. nefnd hvort ekki sé kominn tími til að fara rækilega ofan í saumana á því þegar í orlofsbúðum er rekin þjónusta við almenning sem ekki er skattlögð eins og önnur sambærileg þjónusta sem rekin er af öðrum aðilum. Það er ástæða til að kanna þessi mál öll í heilu lagi og átta sig á niðurstöðunni.

Að öðru leyti vil ég aðeins taka undir það sem hér hefur verið sagt varðandi þetta ákveðna frv., en lýsa yfir að ég sakna þess, að ekki skyldi vera minnst á skerðinguna sem kemur fram í lánsfjárlagafrv., þar sem þeir aðilar, sem nú eru með félagsheimili í byggingu, verða að horfa fram á það á næstu árum eða áratugum að fá ekki til sín það fjármagn sem lögbundið er að renni til þeirra. Það mætti bæta úr því vandamáli t. d. með því að leggja skemmtanaskatt jafnframt á þær skemmtanir, sem fara fram í félagsheimilum utan þéttbýlis, og afla þannig meiri tekna, enda sé ég ekki nokkra ástæðu til að þeir, sem búa í þéttbýli og sækja skemmtanir þar, þurfi að greiða skemmtanaskatt, en ekki hinir, sem í strjálbýlinu búa.