18.01.1983
Efri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það er auðvitað rétt, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður fjh.- og viðskn., sagði, að hann flutti okkur þau boð hæstv. sjútvrh. að hann mundi ekki leggja fram neinar brtt. hér við þessa umr. eða yfirleitt í þessari hv. deild, ég skildi það svo, þó að hann hefði greint frá því í fyrrakvöld í sjónvarpi að slík brtt. yrði flutt af ríkisstj. hálfu. Mér finnst það nú í fyrsta lagi óviðkunnanlegt að ráðh. skyldi ekki flytja okkur þessi boð sjálfur, koma á fund n. eins og óskað hafði verið eftir að till. hæstv. viðskrh. Ég skildi það svo, að hann hefði talið það sjálfsagt að sjútvrh. kæmi á fund n. Hann sýndi okkur ekki þá virðingu að koma sjálfur, en boðin voru flutt, því er ekki að neita.

En ég vil fara fram á það við forseta að hann geri nú aftur tilraun til að fá hæstv. sjútvrh. hingað, svo að hann geti sjálfur greint okkur frá því, í deildinni og í heyranda hljóði, hvað hann hyggst fyrir. Hvort það hafi bara verið blaður, sem hann sagði í sjónvarpið fyrir tveimur dögum, eða hvort hv. Ed. sé eitthvað svo miklu virðingarminni en Nd. að okkur eigi að sniðganga en málin eigi þar eingöngu að ræða. Það er ósk mín að gerð verði önnur tilraun til að fá hæstv. sjútvrh. hér á fundinn. (ÓRG: Má ég upplýsa úr sæti mínu að ástæðan fyrir því að ráðh. gat ekki komið var að hann var að stjórna fundi þm. Framsfl.?) (Forseti: Já, ég mun að sjálfsögðu verða við þessari ósk hv. 5. landsk. þm., hef óskað eftir því við skrifara að hann gangi á fund hæstv. ráðh., þannig að hann megi til hans beina máli sínu.)

Ég get kannske notað tímann á meðan til að greina hæstv. forseta frá því, að við þm. Sjálfstfl. hér í deild hyggjumst ekki tefja þetta mál neitt. Úr því að svo var lítið á, að þetta samkomulag í gær þýddi það að málið ætti hér að klárast, þá verða stjórnarsinnar sjálfsagt að gera það og munu sjálfsagt gera. En auðvitað tökum við ekki þátt í því-og þó getum við kannske hjálpað til að greiða fyrir því, af því að það vantar hér þm., að málið fái að klárast hér við 2. umr. og sjáum svo til hvað gerist við 3. umr.

(Forseti: Ég hef gert þær ráðstafanir sem hefur verið óskað eftir við mig og fæ þau skilaboð frá hæstv. ráðh. að hann sé mjög bundinn í umr. um sitt mál í Nd. Ég hef óskað eftir því sérstaklega í annað skipti að hæstv. ráðh. kæmi hér. g geri mér alveg ljóst að hann er bundinn í þeim umr. sem þar eru, en hafði gert mér von um að hann tefðist ekki tengi hér hjá okkur við þessar umr. Nú vildi ég aðeins beina því til hv. þm. hvort hann héldi fast við þessa ósk, þar eð ég hef gert allt sem í mínu valdi stendur, tel ég til þess að ná hæstv. sjútvrh., en það virðist ganga allerfiðlega.) Ég efast ekki um að forseti hafi gert það sem í hans valdi hefur staðið til að fá upplýsingar um gang þessara mála. Ég harma það að sjálfsögðu að hæstv. sjútvrh. skuli ekki geta fundið sér eina eða tvær mínútur til þess að koma á fund annaðhvort í fjh.- og viðskn. eða þá, sem hann helst ætti að gera, koma hér á fund og skýra í heyranda hljóði frá fyrirætlunum sínum, en við þetta verður sjálfsagt að una.

Ég á ekki von á því að þýði neitt fyrir mig að biðja t.d. hæstv. forsrh. að greina frá því hvernig ríkisstj. hafi höndlað þetta mál og hvort sjútvrh. hafi skýrt rétt frá í sjónvarpinu og hvenær þessi till. muni koma fram — eða hvort hún yfirleitt muni koma fram. Ég geri ekki ráð fyrir því að hæstv. forsrh. virði mig eða aðra þm. svars í því efni. Þess vegna ætla ég ekkert að vera að spyrja hann.