19.01.1983
Neðri deild: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

Um þingsköp

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. þm., formaður þingflokks Sjálfstfl., og ég ræddum um það í morgun sem hann hefur farið fram á. Ég tjáði honum mína skoðun á því og skal endurtaka það hér. Þetta mál hefur verið um það bil í tvo mánuði fyrir Alþingi. Þetta hefur hlotið meiri umfjöllun í umræðum manna og í fjölmiðlum heldur en flest önnur mál sem legið hafa fyrir þingi. Ed. Alþingis hefur haft málið til meðferðar og afgreitt það frá sér eftir að hafa lagt í það gífurlega mikla vinnu, haldið fjölmarga fundi, fengið greinargerðir og umsagnir margra sérfræðinga og fulltrúa stofnana og félagssamtaka. Fjh.- og viðskn. Ed. og Nd. hafa unnið saman að málinu þennan tíma. Það mætti hugsa sér í fyrsta lagi að ástæðan fyrir þessari beiðni núna um að fresta 1. umr. málsins hér í deild væri byggð á því að hér væri nýtt mál sem menn þyrftu að kynna sér nánar. En því er ekki þannig varið, það er nú síður en svo, þannig að sú ástæða að menn séu kannske ekki tilbúnir til þess að ræða málið hér er náttúrlega ekki frambærileg.

Í öðru lagi færir hv. þm. fram þá ástæðu að formaður þeirrar nefndar sem væntanlega fær málið til meðferðar, fjh.- og viðskn., sé ekki staddur hér og sé erlendis. Það er kunnugt að sá hv. þm., Halldór Ásgrímsson, er að gegna sínum skyldustörfum í forsætisnefnd Norðurlandaráðs nú í Stokkhólmi til undirbúnings þingi Norðurlandaráðs sem hefst í næsta mánuði. Hann kemur heim á morgun. Hann tjáði mér það í símtali í morgun að hann hefði þegar boðað fund í fjh.- og viðskn., miðað við það að málinu yrði vísað til n. nú, hafði boðað hann strax á föstudagsmorgun. Að fresta 1. umr. máls frá því nú á miðvikudegi og fram í næstu viku, vegna þess að ekki verði haldinn fundur í viðkomandi nefnd fyrr en á öðrum degi, ég hef aldrei heyrt slíka röksemd fyrr á þingi, að i. umr. ætti að bíða af slíkri ástæðu.

Varðandi það að formaður fjhn., sem er staddur á þessum fundi forsætisnefndarinnar, sé ekki staddur hér við 1. umr. til að svara hugsanlegum fsp., sem menn ætla að beina til hans, hélt ég að fsp. út af frv. ætti fyrst og fremst að beina til þess ráðh. sem flytur málið, sem er ég. Auk þess er að sjálfsögðu sjútvrh. tilbúinn til þess að svara fsp., sem menn vilja trúlega beina til hans í sambandi við þetta mál, þannig að þegar ég lít yfir þær ástæður sem færðar eru fram fyrir þessari frestun, þá sé ég ekki að ein einasta þeirra sé frambærileg. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að farið sé að taka málið út af dagskrá hér og fresta því í marga daga af slíkum átyllum, enda er öllum vitanlegt að það er allt annað sem vakir fyrir hv. þm. Hann er að reyna að tefja málið af sérstökum ástæðum sem öllum eru kunnar.