24.01.1983
Sameinað þing: 39. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

Snjóflóð á Patreksfirði

Forseti (Jón Helgason):

S.l. laugardag bárust þær fréttir frá Patreksfirði að þá um daginn hefðu fallið þar snjóflóð sem lentu á mörgum íbúðarhúsum og sópuðu sumum þeirra burt. Ekki var strax vitað hversu margir menn hefðu lent undir snjóflóðinu, en mikil hætta var talin á frekari flóðum svo að flest hús á hættusvæðinu voru rýmd og íbúarnir fluttir á öruggari staði. Í hvert sinn sem slík tíðindi berast finnum við til þess hversu vanmegnug við erum gagnvart óblíðum náttúruöflum okkar lands, en hljótum að vona og biðja að yfir okkur sé haldið verndarhendi.

Björgunarstarf var þegar hafið og fjöldi manns vann að því að leita hinn týndu. Um hádegi í gær höfðu allir fundist, en fjórir þeirra voru þá látnir og nokkrir slasaðir. Slíkur atburður er mikið áfall fyrir byggðarlagið þar sem fólk er tengt nánum böndum vensla og vináttu. Sárastur er söknuður nánustu ættingja og vina hinna látnu. Við vottum öllu þessu fólki einlæga samúð og hluttekningu.

Ég vil biðja hv. alþm. að taka undir orð mín með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]