27.10.1982
Efri deild: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

41. mál, fóstureyðingar

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu er hið merkasta. Ég hef áður, á fyrri þingum, tekið þátt í umræðum um þetta efni. Ég vil taka undir margt af því sem komið hefur hér fram og vil lýsa því yfir strax í upphafi að ég tel þetta mál þess eðlis að það eigi að fá þinglega meðferð. Ég held að sá reynslutími, sem orðinn er af lögunum um fóstureyðingar, sé orðinn það langur og ýmislegt hafi komið fram sem réttlæti það að málið sé tekið til meðferðar.

Ég viðurkenni fúslega að orðin „félagslegar ástæður“ eru ákaflega óljós. Það þyrfti að skýra nokkru betur í frv. hvað við er átt, til þess að unnt sé að nota þetta af skynsemi, og sérstaklega þó að samræmi sé í þeim ákvörðunum sem teknar eru um fóstureyðingar.

Það er augljóst mál að við erum hér öll sammála um fóstureyðingar, ég vil undirstrika það. Í raun og veru er enginn andvígur fóstureyðingum. Það kom mjög skýrt fram í framsöguræðu hv. 4. þm. Vestf. að hann telur, að vissum skilyrðum fullnægðum, að fóstureyðing sé réttlætanleg. Það sem um er deilt er hvaða aðstæður það eru. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni á hinu háa Alþingi, að ég held að það þurfi að vera langtum skýrari ákvæði um þessi efni í lögunum. Það er varla hægt að legg ja það á nokkra nefnd, hversu valinkunnir aðilar sem að henni standa, að ákveða upp á eigið eindæmi, kannske með mjög óljósum reglum og lagaákvæðum, hvenær fóstureyðing skuli leyfð og hvenær ekki. Í ljósi þess held ég að fara þurfi nokkuð aðra leið en hér er bent á. Það þarf að taka lögin öll til endurskoðunar. Það þarf að gera þau langtum skýrari en þau eru nú.

Ég vil einnig benda á að það atriði sem ég tel að einkum hafi farið úr böndunum í sambandi við framkvæmd laganna er að manni sýnist sem svo, að fóstureyðing komi oft og tíðum í stað takmörkunar á barneignum. Ég vil fara örfáum orðum um þetta atriði. Enginn vafi er á að einhver hluti af þeirri geigvænlegu aukningu, sem orðið hefur á fóstureyðingum, stafar af því að þær eru núna opinberar. Það er búið að svipta af þeirri dulu forboða og leynifóstureyðinga sem tíðkuðust hér áður fyrr og menn vita um. Við þekkjum áreiðanlega öll dæmi um slíkt. Sumt af því er þannig til komið. Hitt er þó atveg öruggt mál, að hin nokkuð svo óljósu ákvæði laganna hafa stuðlað að því að fóstureyðingum hefur fjölgað fram yfir það sem nokkur bjóst við og fram yfir það sem ég tel eðlilegt. Og þá er komið að því atriði sem ég held að þurfi að taka til rækilegrar umfjöllunar og endurskoðunar í sambandi við lögin. Það er fræðslan, kynferðisfræðsla í landinu. Það er kynferðisfræðsla frá grunnskóla og upp úr. Það er alveg furðulegt að enn þann dag í dag ríkir alveg ótrúleg hjátrú og fordómar og villukenningar í sambandi við kynferðismál. Ég veit dæmi þess frá unglingum, sem ég hef haft tal af og haft fregnir af, að þar eru í gangi alls konar kenningar, alls konar ráðleggingar, sem ekki hafa við nokkurn veruleika að styðjast, eru hreinlega rangtúlkanir á ýmsum læknisfræðilegum atriðum. Þessa hlið málsins held ég að við þurfum að athuga mjög vel og heilbrigðisyfirvöld eiga að láta það mál til sín taka.

Þá er eiginlega komið að lokaorðum. Ég ætla ekki að hafa þetta annað en örfáar vísbendingar, lýsa afstöðu minni til málsins. Ég tel að málið eigi að fá þinglega meðferð. Ég tel að fóstureyðingalöggjöfina eigi að endurskoða. Ég tel að skilgreina eigi miklu nánar er gert er hvað félagslegar aðstæður eru, þannig að það liggi ljósar fyrir en nú er hvaða forsendur þurfa að vera fyrir hendi til þess að fóstureyðing eigi sér stað. Ég vil taka undir það sem hv. 2. þm. Austurl. og hv. 3. landsk: þm. sögðu, að lokaákvörðunin hlýtur að vera konunnar. En það er ákaflega mikilvægt að sú ákvörðun sé tekin á réttum forsendum, að konan hafi haft möguleiká á því að athuga málið, ræða það og kynna sér öll atriði þess áður en sú ákvörðun er tekin.