25.01.1983
Sameinað þing: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1526 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

47. mál, ráðunautur í öryggis- og varnarmálum

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Það vekur óneitanlega nokkra athygli, vekur upp ýmsar spurningar, þegar hæstv. félmrh., formaður Alþb., sér sérstaka ástæðu til þess að standa upp hér í ræðustól og ítreka það að Alþb. hafi ennþá brottför varnarliðsins á stefnuskrá sinni. Það er nefnilega virkilega ástæða fyrir þennan hæstv. ráðh., þennan flokksformann, að ítreka þessa skoðun. Ástæðan er einfaldlega sú, að Alþb. notar varnarmál Íslands sem tækifærismál þó að reynt sé að mótmæla því þegar nær dregur kosningum eða þegar talað er í hátíðarræðum.

Alþb. hefur setið í ríkisstj. eftir ríkisstj. án þess að gera nokkra minnstu tilraun til að koma þessu svokallaða stefnumáli sínu í framkvæmd. Þetta mál e.t.v. umfram önnur er eitt besta dæmið um það hvílíkur tækifærisflokkur Alþb. er. Þar ræður tækifærismennskan. Hún ríður þar húsum og þar er reynt að tala eins og hver vill á hátíðarstundum. Nú eru kosningar í nánd og nú sér Alþb. og formaður þess alveg sérstaka ástæðu til að koma hér upp á hv. Alþingi eða í sínum málgögnum og ítreka, til þess að forða öllum misskilningi, að Alþb. hefur ennþá brottför varnarliðsins á stefnuskrá sinni.

Þessar umr. hér í dag snúast um tiltölulega saklausa till., sem er í sjálfu sér óháð þeim meginágreiningi í íslenskum stjórnmálum hvort hér skuli vera varnarlið eða ekki, en hefur þó orðið tilefni til allmikilla efnislegra umr. um grundvallaratriði í íslenskri utanríkisstefnu, þ.e. hvaða stefnu við Íslendingar eigum að hafa í okkar varnarmálum. Hæstv. félmrh. fór mörg ár aftur í tímann. Hann fór allt aftur til stofnunar íslenska lýðveldisins á árinu 1944 og rifjaði upp ýmis atriði í okkar sögu frá þeim árum. Sannleikurinn er sá, að herstöðvaandstæðingar svokallaðir hafa sem betur fer haft ákaflega lítil áhrif hér í okkar þjóðlífi. Það er alveg laukrétt sem þeir hv. þm. 5. þm. Vesturl., Eiður Guðnason, og 9. þm. Reykv., Jón Baldvin Hannibalsson, hafa sagt í þeim efnum. Og ég vil segja sem betur fer.

Ég held að það sé ástæða til þess, úr því að árið 1944 var sérstaklega nefnt í þessu sambandi, að rifja það upp hvers vegna við Íslendingar tókum þá mikilvægu ákvörðun að hafa varnir hér á Íslandi og ákváðum að ganga í Atlantshafsbandalagið árið 1949. Sú saga er einmitt rakin aftur til ársins 1944, til þeirra ára þegar seinni heimsstyrjöldinni var að ljúka, þegar stórveldið í austri, föðurland sósíalismans, það land sem Alþb. og áður Sósíalistaflokkurinn litu til með nánast guðlegri lotningu, þegar þetta ríki tók sig til eftir lok heimsstyrjaldarinnar, eftir að Vesturveldin höfðu afvopnast, og lagði undir sig hvert smáríkið í Vestur-Evrópu á fætur öðru.

Það lagði undir sig Eystrasaltslöndin, smáríki sem við Íslendingar höfðum í gegnum árin og aldirnar haft góð samskipti við. Það lagði undir sig Tékkóslóvakíu og fleiri ríki í Austur-Evrópu. Og í hvert skipti sem þetta gerðist, þá var ákveðinn hópur manna hér á Íslandi sem fagnaði þessu, sem rak upp fagnaðaróp yfir því að nú væri sósíalisminn í heiminum að vinna nýja sigra. Þetta fólk er heiðursfélagar í Alþb. í dag. Þetta eru forverar þeirra Alþb.-manna, hv. 8. landsk. þm., Guðrúnar Helgadóttur, og hæstv. félmrh. í Alþb. Það fólk sem í hvert skipti rak upp fagnaðaróp þegar ný smáþjóð fór bak við járntjald Sovétríkjanna-þetta fólk er enn í dag samstarfsmenn þeirra ræðumanna sem hér hafa talað af hálfu Alþb.

Á árunum í kringum 1944 og þar á eftir var til fólk hér á Íslandi sem söng á hátíðastundum: „Sovét-Ísland, óskalandið, hvenær kemur þú?“ Hvaða fólk er þetta? Það er Alþb.-fólkið í dag. Það eru samstarfsmenn hæstv. félmrh. og hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur. Svo kemur þetta fólk hér, leyfir sér að berja sér á brjóst og tala eins og það séu hinir einu sönnu þjóðfrelsismenn á Íslandi, að öll sjálfstæðisbaráttan á Íslandi, öll baráttan fyrir sjálfstæðri íslenskri menningu sé í höndum þessa fólks. Hér eru slík öfugmæli á ferðinni að það er með ólíkindum að menn skuli bera slíkt á borð hér á hv. Alþingi.

En þessi ummæli, þessi belgingur, þessi tilraun til að sýnast vera hinir einu sönnu Íslendingar á auðvitað rætur að rekja til minnimáttarkenndar þessa flokks vegna sinnar fortíðar. Það er því engin furða, og Alþb.menn skulu ekkert undrast yfir því, þó að Íslendingar tortryggi þennan flokk og vantreysti honum í þjóðfrelsismálum þessarar litlu þjóða, vegna þess að það hefur enginn flokkur á Íslandi, það hafa engir aðrir en íslenskir sósíalistar verið eins háðir erlendu valdi. Þessir menn fóru fund eftir fund í eins konar utanstefnur til Moskvu á alþjóðafundi kommúnistasambandsins. Alþb.-menn hafa að vísu nú reynt að þvo af sér þetta orð og segja: Sovétríkin koma okkur ekkert við lengur. Sá sósíalismi sem þar er á ferðinni er ekki okkar sósíalismi. Við ætlum að reyna að koma upp annars konar sósíalisma. Við ætlum að gera aðra tilraun. Tilraun sem reyndar hvergi hefur verið gerð í heiminum. En ég segi: Íslendingar frábiðja sér slíkar tilraunir. Það hefur verið gerð tilraun með að koma á sósíalisma í Sovétríkjunum og í Austur-Evrópuríkjunum. Slíkar tilraunir hafa ekki verið gerðar annars staðar og Íslendingar frábiðja sér að verða næsta tilraunadýr í þeirri starfsemi.

Yfirgnæfandi meiri hluti íslensku þjóðarinnar hefur tekið þá ákvörðun og staðið við hana í mörgum kosningum að vilja hafa varnir hér á Íslandi. Og langstærsti hluti íslensku þjóðarinnar tók þá ákvörðun og hefur stutt þá ákvörðun að þeim vörnum sé hagað með þeim hætti sem verið hefur, að gera sérstakt varnarsamkomulag við Bandaríkin. Ég er sannfærður um að langmestur hluti íslensku þjóðarinnar er ennþá sömu skoðunar. Rætt er um það að með dvöl bandaríska herliðsins á Íslandi séum við að kalla sérstaka hættu yfir okkur, ekki síst hættu á árás með kjarnorkuvopnum. Ég er atgerlega ósammála þessum málflutningi. Ég er sannfærður um að það er einmitt lega Íslands, hin hernaðarlega mikilvæga staða Íslands í miðju Atlantshafi, staða sem m.a. sjálfur Lenin kom auga á mjög glögglega á sínum tíma, það er hún sem því veldur að þessi eyja getur ekki og má ekki vera varnarlaus.

Við skulum líka hafa það í huga að allar götur síðan heimsstyrjöldinni síðari lauk hafa verið háðir tugir styrjalda í heiminum. Það hafa ekki verið kjarnorkustyrjaldir. Það hafa verið styrjaldir með venjulegum vopnum, hræðilegum vopnum engu að síður. En þær styrjaldir hafa fyrst og fremst farið fram á svæðum þar sem smáþjóðir hafa verið varnarlausar. Þar sem stórveldi, ekki síst Sovétríkin, hafa reynt að þrýsta sér inn í tómarúm sem skapast hefur á hinum ýmsu stöðum á hnettinum. Það er þess vegna enginn vafi á því í mínum huga, að áframhaldandi varnir hér á landi eru nauðsynlegar. En ég er líka þeirrar skoðunar, að í þeim efnum, í mati á því eigum við Íslendingar alls ekki að vera háðir öðrum þjóðum. Við eigum að geta reynt að meta sjálf bæði nauðsyn okkar varna og fyrirkomulag þeirra. Þess vegna er það sjálfsagt að till. eins og sú sem hér er til umr. verði samþykkt á hv. Alþingi.