26.01.1983
Neðri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í B-deild Alþingistíðinda. (1331)

138. mál, lán til íbúðabyggjenda

Flm. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umr. er auk mín flutt af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, Jóni Baldvin Hannibalssyni, Jóni Árm. Héðinssyni, Karvel Pálmasyni og Sighvati Björgvinssyni. Frv. er svo til samhljóða frv. sem þm. Alþfl. í Ed. fluttu á síðasta löggjafarþingi, en fékkst þá ekki afgreitt.

Megintilgangur frv. er að gefa íbúðabyggjendum og íbúðakaupendum kost á langtímaláni í stað þeirra skammtímalána sem tíðkast hafa undanfarin ár. Með því er fólki gert kleift að fjármagna íbúðabyggingar og íbúðakaup með eðlilegri hætti en hingað til. Frv. gerir ráð fyrir að viðbótarlán þessi, að upphæð 300 000 kr., komi að verulegu leyti í stað ýmiss konar skammtímalána sem eru lánþegum afar óhagstæð vegna þungrar greiðslubyrðar.

Það eru sjálfsögð mannréttindi að fólk geti búið í góðu húsnæði og þurfi ekki að bera kvíðboga fyrir því að standa undir eðlilegum greiðslum af húsnæði sínu. Því fer víðs fjarri að svo sé við núverandi aðstæður. Úr því verður að bæta og þolir enga bið. sú aðstaða sem allur almenningur býr við í þessum efnum er fyrir neðan allar hellur. Fólki er ætlað að mæta húsnæðisþörf sinni með skammtímalánum og vinnuþrældómi langt úr hófi fram.

Árið 1979 samþykkti ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar að tillögu Alþfl. stefnumótun í húsnæðislánamálum sem meðal margs annars gekk út á það að stórefla hið opinbera húsnæðislánakerfi. Stefnt var að uppbyggingu öflugra íbúðalánasjóða sem gætu innan fárra ára fjármagnað til langs tíma og með viðráðanlegum kjörum íbúðarhúsnæði einstaklinga og leyst um þriðjung íbúðarþarfar landsmanna á félagslegum grundvelli. M.a. var stefnt að því að almenn nýbyggingarlán Byggingarsjóðs ríkisins hækkuðu í fyrir fram ákveðnum áföngum á eigi lengri tíma en 10 árum í 80% byggingarkostnaðar og stefnt að samsvarandi hækkun annarra lána.

Með rækilegri úttekt á húsnæðislánakerfinu og ítarlegri áætlunargerð mörg ár fram í tímann var sýnt fram á að þessi markmið voru raunhæf og viðráðanleg væri rétt að málum staðið. Það sem til þurfti að koma var einkum þrennt: Í fyrsta lagi að markaðir tekjustofnar Byggingarsjóðs ríkisins og lögboðin opinber framlög til Byggingarsjóðs verkamanna væru óskert næstu 10 árin. Í öðru lagi þurfti að auka opinber framlög til byggingarlánasjóðanna um að meðaltali 30% þessi sömu 10 ár. Eftir það gætu opinber framlög farið ört lækkandi. Þá gætu sjóðirnir sjálfir að mestu staðið undir lögboðnum útlánum, 80% af brúttó byggingarkostnaði almennra íbúða og 90% af brúttó byggingarkostnaði félagslegra íbúða. Í þriðja lagi þurfti að hækka lántökur til sjóðanna um ca. 50% að jafnaði þessi sömu 10 ár, frá því sem verið hafði að meðaltali næstu árin fyrir 1979. Og auðvitað er það algjört grundvallaratriði að tekin lán séu ekki með hærri vöxtum en veitt lán.

Sex af tíu núverandi hæstv. ráðherrum samþykktu þessa stefnumótun og samþykktu einnig að ábyrgjast þær fjárveitingar og þær lántökur sem til þyrfti til að hrinda henni í framkvæmd. Núverandi hæstv. ríkisstj. hefur þó farið þveröfugt að. Í stað þess að halda mörkuðum tekjustofnum óskertum og auka opinber framlög um 30% að meðaltali hefur hún sífellt verið að skerða tekjustofnana meira og meira. Á síðasta ári nam skerðingin meira en helmingi eða 53.4%, og er þá átt við heildarframlög til sjóðanna beggja og reiknað með 400 íbúðum á vegum Byggingarsjóðs verkamanna. Og til að kóróna allt saman eru tekin lán með mun hærri vöxtum og til skemmri tíma en veitt lán. Það styttist óðfluga í það að öll opinber framlög, eins og þau hafa verið að undanförnu, fari í það eitt að greiða vaxtamismun tekinna og veittra lána, ekki bara næstu árin heldur áratugi fram í tímann. Það er verið að eyðileggja kerfið bæði fyrir þá sem nú og á næstunni þurfa á lánum að halda og fyrir börn þeirra.

Afleiðingarnar hafa heldur ekki látið á sér standa. Nýbyggingarlánum hefur fækkað langt niður fyrir það sem svarar til eðlilegrar íbúðaþarfar og raungildi lána hefur minnkað. Venjulegt fólk ræður ekki lengur við að byggja eða kaupa íbúðir.

Árið 1981 voru lán til nýrra íbúða á vegum Byggingarsjóðs ríkisins 1112 talsins, en frv. Alþfl. frá 1979 gerði ráð fyrir 1700 slíkum íbúðum á því ári. Íbúðabyggingar nú eru a.m.k. þriðjungi minni en nauðsynlegt er til að koma í veg fyrir alvarlegan íbúðaskort á næstu árum, hvað þá ef lengra er horft fram í tímann.

Almenn nýbyggingarlán nema nú aðeins 12–15% af raunverulegum byggingarkostnaði staðalíbúða í stað 45% hið minnsta á þessu ári samkvæmt stefnumótun ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar. Allt þetta kemur til með að valda því að á næstu árum vex húsnæðisskortur hröðum skrefum og húsnæðiskostnaður almennings vex langt úr hófi fram á sama tíma og kaupmáttur fer minnkandi.

Forsjá ráðh. Alþb. í húsnæðismálum var nýlega nefnd af flokksbróður þeirra sjálfra og í þeirra eigin málgagni „hægfara lífskjaraskerðing, sem bitna mun á heilli kynslóð ungs fólks“. Þetta eru orð að sönnu. Miklum meiri hluta ungs fólks og annarra, sem vilja byggja eða kaupa íbúð í fyrsta sinni, eru nú allar bjargir bannaðar jafnvel þótt það hafi sæmilegan aðgang að lífeyrissjóðslánum, hvað þá hinum, sem lítil eða engin lífeyrissjóðslán geta fengið. Eina fyrirgreiðslan fyrir utan skammarlega lág lán frá Byggingarsjóði ríkisins og lífeyrissjóðslán, þar sem þeim er fyrir að fara, eru skammtímalán í bönkum, ef þau þá fást sem er undir hælinn lagt. Greiðslubyrði slíkra skammtímalána er slík, að undir þeim getur enginn venjulegur maður staðið, ef þau eru fyrir umtalsverðum hluta íbúðaverðsins, eins og nú er í mörgum tilvikum. Fólk er á eilífum þönum á milli bankastofnana til að slá lán til að greiða fyrri lán og hefur enga vissu fyrir því að ný lán fáist þegar á þeim þarf að halda. Þetta ástand er með öllu óbærilegt og því er þetta frv. flutt.

Þegar verðtrygging var almennt tekin upp lá það í augum uppi að húsbyggjendur og íbúðakaupendur urðu að hafa aðgang að lánum til langs tíma fyrir meiri hluta íbúðaverðsins. Ef tekin eru verðtryggð jafngreiðslulán til 20 ára eða lengri tíma með skikkanlegum vöxtum, þó þau nemi 80% af byggingarkostnaði eða kaupverði, þá verður greiðslubyrðin af slíkum lánum flestum viðráðanleg og svipuð eða lægri en húsaleiga gengur og gerist á hverjum tíma. En tveggja og þriggja ára lán bankakerfisins, eins og nú tíðkast, eru gjörsamlega óviðráðanleg ef þau nema umtalsverðum upphæðum.

Það verður að stefna að svipuðum markmiðum og sett voru fram í stefnumótun ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar í húsnæðislánamálum, þótt núverandi hæstv. ríkisstj. hafi óðfluga verið að fjarlægjast þau markmið og gera þau að óraunsærri draumsýn, í stað þess að gera þau að veruleika eins og Alþfl. stefndi að. Á meðan verðum við að grípa til annarra ráða. Á meðan byggingarlánasjóðirnir eru jafn vanmegnugir og núverandi hæstv. ríkisstj. hefur gert þá verður bankakerfið að koma til hjálpar, eins og þm. Alþfl. hafa ítrekað lagt til og eins og það frv. sem hér er til umræðu gerir ráð fyrir.

Þótt gert sé ráð fyrir talsvert háum lánum til nokkuð langs tíma úr bankakerfinu, þá er ekki endilega um nýtt fjármagn að ræða nema fyrir hluta lánanna. Mikið er nú í gangi af keðjuverkandi skammtímalánum í bankakerfinu sem mundu breytast í langtímalán ef þetta frv. verður samþykkt.

Réttur launafólks til lánafyrirgreiðslu í bankakerfinu helgast enn frekar af því, að um það bil 3/4 hlutar innlána eru frá einstaklingum en einungis 1/4 frá fyrirtækjum. Í útlánum snúast þessi hlutföll við. Þá hafa fyrirtækin 3/4, en einstaklingar 1/4. Er því fyllilega eðlilegt að einstaklingar, sem eiga mestan hluta þess fjár sem bankakerfið fær til ráðstöfunar, hafi rétt til ákveðinnar lágmarksfyrirgreiðslu af hálfu bankanna. Hitt verður jafnframt og ekki síður að hafa í huga, að verði ekki komið á eðlilegri lánafyrirgreiðslu til íbúðabygginga og íbúðakaupa munum við útiloka meiri hluta ungs fólks og fleiri frá því að eignast eigin íbúðir og húsnæðisskorturinn mun fara hraðvaxandi á komandi misserum og árum.

Þetta frv. hefur þríþættan tilgang. Í fyrsta lagi að veita eðlilega lánafyrirgreiðslu til húsnæðisútvegunar. Í öðru lagi að tryggja eðlilegan rétt almennings, sem sannanlega leggur fram stærsta hluta sparifjárins í bönkum, gagnvart bankakerfinu. Í þriðja lagi að koma í veg fyrir yfirvofandi húsnæðisskort ef svo fer fram sem horfir.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til félmn. hv. deildar, sem að jafnaði afgreiðir mál sem varða Húsnæðisstofnun og húsnæðislánamál, og til 2. umr.