27.10.1982
Neðri deild: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

28. mál, málefni aldraðra

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég þarf raunar ekki að taka það fram, að ég er mjög hlynntur og ákveðinn stuðningsmaður þess að setja löggjöf um málefni aldraðra og ég er í öllum meginatriðum hlynntur því sem segir í I. kafla þessa frv. um skipulag öldrunarþjónustu. Sömuleiðis tel ég það rétt spor að stiga, að yfirstjórn öldrunarmála sé á einni hendi og undir einu og sama ráðuneyti, þó að vitaskuld komi til greina að bæta ekki algjörlega nýju starfi eða störfum við, heldur þá skipuleggja innan þess ráðuneytis betur starfsemina þannig að það verði sem minnstur kostnaður af.

Þetta frv., sem lá fyrir síðasta þingi, og þær till., sem legið hafa fyrir, má segja að hafi verið að taka miklum framförum í meðferð bæði þings og þeirra nefnda sem fjallað hafa um samningu þessa frv., en mig langar til að gera nokkuð að umræðuefni II. kafla frv., sem er um Framkvæmdasjóð aldraðra, en eins og hæstv. ráðh. gat um var gripið til sérstakrar fjáröflunar með nefskatti til að auka verulega fjármagn til öldrunarmála eða til framkvæmda í þágu aldraðra.

Í frv., sem lagt var fram á s.l. hausti, kom það upp að hlutverk þessa framkvæmdasjóðs var þá viðameira en upprunalega var gert ráð fyrir, þegar bæði ég og fleiri urðum við þeirri beiðni ráðh. og meira að segja beittum okkur mjög ákaft fyrir því að þessi fjáröflun til framkvæmdasjóðs var tekin upp. Nú er lagt til að taka skyldur af ríkissjóði, sem ríkissjóður hafði fyrir, eins og að fjármagna byggingar ríkisins vegna stofnana fyrir aldraða og sérstaklega hlutdeild ríkissjóðs samkv. 34. gr. laga um heilbrigðisþjónustu frá 1978 í byggingu sveitarfélaga á stofnunum fyrir aldraða. Með þessari grein er verið að létta af ríkissjóði skyldum, sem ríkissjóður hafði og hefur samkv. gildandi lögum, og þar með er verið að víkka í auknum mæli verksvið framkvæmdasjóðsins, sem þýðir að hann getur ekki sinnt þeim viðbótarframkvæmdum sem honum var upprunalega ætlað að sinna og við þm. stóðum vel flestir dyggilega að að fá lögfest.

Hækkun á þessu skattgjaldi umfram launahækkanir eða verðlagshækkanir orkar mjög tvímælis. Hæstv. ráðh. var nú að mæla fyrir öðru frv. hér áðan, þar sem einnig er um verulegar hækkanir á skattheimtu að ræða, svo sjáanlegt er að það á að nota verulega góð mál til aukinnar skattheimtu á landsmenn á sama tíma og lagt er til að skerða verðbætur á laun samkv. brbl. sem gefin voru út, en ekki sjá dagsins ljós hér á löggjafarsamkundu þjóðarinnar.

Að vissu leyti get ég tekið undir orð hv. síðasta ræðumanns því að það kom mér mjög á óvart þegar fyrir lágu tillögur stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra um að úthluta tekjum sjóðsins, ekki fyrir þetta ár eingöngu heldur einnig fyrir 1983, 1984 og 1985 og samtals upp á 120.9 millj. kr. eða 32 millj. 100 þús. fyrsta árið, en 29.600 hin árin. Þessu er skipt í fjögur ár á tiltekin verkefni, en óráðstafað er 1 millj. 400 þús. á ári 1983–1985 og 1.3 millj. á þessu ári. Það er rétt, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að hér er gengið fram hjá ákveðnum kjördæmum. Meginþorri þessa fjármagns er ætlað að fari til B-álmu Borgarspítalans, sem við vitum að er mikil framkvæmd, en fellur að verulegu leyti undir gildandi lög um heilbrigðisþjónustu, en verið er að taka af Framkvæmdasjóði aldraðra til þess að fjármagna þá framkvæmd. Ég vil á engan hátt gera lítið úr þeirri framkvæmd eða hversu mikilvægt er að hraða henni, en ég tel að þarna hafi verið sveigt frá þeirri skyldu sem á ríkinu hvíldi og gerð tilraun til að taka um 50% af öllu því fjármagni sem þessi sjóður kemur til með að hafa á fjórum næstu árum.

Enn fremur eru nokkuð stórar framkvæmdir í næsta nágrenni Reykjavíkur, sem líka koma inn á svið ríkisspítala beint og óbeint. En svo koma aftur önnur kjördæmi, sem er ekki ætlað að fái eina krónu í framlag, eins og t.d. Vesturlandskjördæmi og Vestfirðir. Og það er svo sem ekki stórt sem fer til framkvæmda í Norðurlandi eystra, aðeins 4.5 millj. á þessum 4 árum, og á Suðurland 8 millj. kr. og Norðurland vestra 12.5 millj. kr.

Nú veit ég að hæstv. ráðh. segir: Ja, frá Vestfjörðum voru engar umsóknir fyrir. — Að vísu var fyrir mjög mikilvæg umsókn, sem var fyrir dvalarstofnun eða íbúðir á Ísafirði, sem voru teknar í notkun á þessu sumri og eru í mikilli fjárvöntun. Þar hefur byggðarlagið orðið að standa undir gífurlegum framkvæmdakostnaði. Enn fremur lá umsókn fyrir í sambandi við byggingu dvalarstofnunar á Reykhólum, sem er í sýslu sem er ein sú mannfæsta á landinu. Hitt er rétt, að fleiri voru þessar umsóknir ekki.

Sennilega nefnir hæstv. heilbrrh. það hér á eftir, að auðvitað sé nær að snúa sér að Húsnæðisstofnun, það sé hennar hlutverk að veita lán til íbúða aldraðra, en þá verður að tryggja að slík lán séu veitt. Hér verður að vera um samræmda vinnu að ræða ef ekki á að skapa leiðindi á milli í sambandi við þessar framkvæmdir allar. Mér vitanlega liggur ekki fyrir enn þá svar um hvort þessar stofnanir fái slíkt lán eða ekki. En ef ákvörðun væri tekin og ákveðnar yfirlýsingar gefnar eða jafnvel ákveðin lagabreyting væri gerð liti þetta mál allt öðruvísi út.

Ég gerði athugasemdir í heilbr.- og trn. á síðasta ári við 12. gr., eins og hún er hér, sem ég hef gert aðeins að umræðuefni, og ég sé að það hefur ekkert tillit verið tekið til þeirra athugasemda. Þær athugasemdir standa því áfram hjá mér, en mér þætti vænt um ef hæstv. ráðh. gæti upplýst með hvaða hætti eigi að lána til íbúða aldraðra, ef myndarlega er á því tekið. Þá verðum við ólíkt sáttari við það sem hér er að gerast. En á meðan ekkert er hægt að segja um það og ekkert liggur fyrir, þá verður um að ræða ákaflega mikla tortryggni í sambandi við úthlutun þess fjármagns sem Framkvæmdasjóður aldraðra kemur til með að hafa á milli handanna.

Annars ætla ég ekki að ræða efnislega meira um þetta frv. Ég tel að margt hafi vel tekist í sambandi við samningu þess. Hlutverk þess og það sem á að gera í málefnum aldraðra er mikilvægt, sem vafalaust verða ekki mjög skiptar skoðanir um, en þegar komið er að ýmsum framkvæmdaliðum er eðlilegt að það séu nokkuð skiptar skoðanir.

Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær þetta frv. til meðferðar og ef allar upplýsingar eru fljótlega gefnar og skýrar sé ég nú ekki að það eigi að taka mjög langan tíma að afgreiða þetta mál, þannig að það geti orðið að lögum áður en Alþingi fer í jólaleyfi, en ég legg á það þunga áherslu að þessar athugasemdir verði gaumgæfilega skoðaðar og skýr svör liggi fyrir til þess að eyða þeirri tortryggni sem nú er uppi.