01.02.1983
Sameinað þing: 43. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1632 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Eins og hv. alþm. er kunnugt hefur utanrmn. til meðferðar tillögu sem snertir afstöðu Íslendinga til banns við veiðum á hvölum. Það hefur komið fram, m.a. í utanrmn. í gær, að hæstv. ríkisstj. mundi bíða eftir afstöðu Alþingis til þessa máls áður en hún tæki afstöðu. Utanrmn. hélt tvo fundi um málið í gær og var ákveðið að halda annan fund í dag og verja þessum þingdegi þannig, að Alþingi gæfi sér tíma til að móta afstöðu sína í þessu máli. Í því skyni hélt utanrmn. fund allan morguninn í gær og síðan fund frá kl. 6 til kl. 8 í gærkvöldi.

Í hádegisfréttum var hins vegar greint frá því, að hæstv. ríkisstj. hefði í morgun gert þá samþykkt að mótmæla hvalveiðibanninu. Þingflokkur Alþb. gerði þá samþykkt í gær að hann væri andvígur því að þessu banni væri mótmælt og teldi nauðsynlegt að hv. Alþingi tæki afstöðu til málsins. Þess vegna hef ég kvatt mér hér hljóðs, herra forseti, ekki til að ræða efnisatriði málsins hér og nú, heldur til þess að óska eftir skýringum frá hæstv. sjútvrh., hvort sú yfirlýsing standi ekki enn, sem margsinnis hafði verið gefin, að áður en endanleg afstaða Íslands er tekin í þessu máli verði kannaður vilji Alþingis. Ég tel að sú yfirlýsing hafi verið gefin, hún hafi verið grundvöllur þeirrar vinnu sem hæstv. utanrmn. vann í málinu í gær og þeirrar vinnu sem hún ætlaði sér að vinna í málinu í dag. Þess vegna ber ég fram þá ósk hér til hæstv. sjútvrh., að hann endurtaki þá yfirlýsingu sína að hann muni bíða eftir afstöðu hv. Alþingis áður en frá íslenskum stjórnvöldum fer tilkynning um afstöðu Íslands í þessu máli. Þá óska ég þess, hæstv. forseti, að gefið verði fundarhlé á störfum Sþ. til þess að bæði þingflokkar og utanrmn. geti lokið umfjöllun sinni um málið og málið komi síðan til efnislegrar og formlegrar umr. og atkvgr. síðar í dag.

Ég tek það skýrt fram, að ég er ekki að hefja hér efnislega umr. um málið, heldur eingöngu að beina formlegri ósk til hæstv. sjútvrh., að hann lýsi því hér yfir að hann sé reiðubúinn að fara að þeirri niðurstöðu sem Alþingi kemst að í málinu, og í öðru lagi bið ég þess, hæstv. forseti, að skapað verði þinghlé til þess að utanrmn. geti lokið störfum sínum að málinu og þingflokkar um það fjallað og það verði síðan efnislega tekið á dagskrá síðar í dag.