01.02.1983
Sameinað þing: 43. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á fundi ríkisstj. í morgun var hvalveiðimálið svonefnda tekið til ítarlegrar umr. Á grundvelli þeirrar umr. hef ég ákveðið að mótmæla samþykkt um hvalveiðibann. Eftir að hringt hefur verið í framkvæmdastjóra Alþjóðahvalveiðiráðsins er ljóst að í lagi er að þessi mótmæli berist í fyrramálið og þau verða ekki send fyrr. Ef hv. Alþingi óskar ekki að mótmæla mun ríkisstj. að sjálfsögðu taka það til meðferðar. Ekki er að efast um það. (SvH: Meðferðar? Mun fara eftir því.) Mun fara eftir því, já já, við skulum segja það. Ég held að það sé alveg ljóst. Hins vegar vil ég taka skýrt fram að ég stjórna hvorki störfum utanrmn. né Alþingis, en nauðsynlegt var fyrir ríkisstj. að taka sína afstöðu og það gerði hún í morgun.

Ég vil í þessu sambandi nefna það, að ýmsir hafa vakið á því athygli að það kann að vera dálítið vafasamt að hv. Alþingi álykti að hvalveiðibanni skuli verða mótmælt. Að sjálfsögðu er slík ákvörðun þyngri á metunum en ákvörðun ríkisstj. og má þá álykta sem svo, að ef talið verður eðlilegt síðar að draga mótmælin til baka, þá þyrfti að leggja það fyrir Alþingi að nýju. Ég nefni þetta því að mér finnst það vera atriði í málinu sem vert er að hafa í huga.