02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

91. mál, hvalveiðibann

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég vík kannske örfáum orðum fyrst að ræðu hv. síðasta þm. sem hér talaði, ekki vegna þess að það hafi neina efnislega þýðingu, heldur aðeins til að láta í ljós — ja, ég vil nú segja nærri því furðu mína á því orðbragði sem hann hér hafði og þeim tilfinningahita, sem greip hann út af þrýstihópum og „lobbyistum“ sem hann svo kallaði, sem hér hefðu verið í þinghúsinu. Enginn maður hefur komið í þinghúsið að tala við mig, nema ég hitti af tilviljun forstjóra Hvals hér áðan og hann var með eina litla gamansögu. Við hins vegar í utanrmn. höfum kallað fyrir okkur mjög marga menn.

Ég skal alveg játa það, að þetta er erfitt mál viðureignar. Ég hef ekki hugsað um annað núna síðustu sólarhringana en einmitt þetta mál og hvernig heppilegast væri á því að taka. En mér hefur ekki dottið í hug að láta undan þrýstihóp af nokkru tagi, enda hefur enginn þrýstihópur reynt að hafa áhrif á mig, nema þá þessi bréf sem komið hafa frá Bandaríkjamönnum og þau hafa ekki snert mig nokkurn skapaðan hlut, bókstaflega ekki, né tal um það að við ætlum að versta við þá, láta eitthvað undan einhverjum þrýstingi af þeirra hálfu.

Það vill nú svo til, að Bandaríkjamenn veiða alls ekki hval, a. m. k. ekki þann sem fellur undir Alþjóðahvalveiðiráðið. Þeir veiða kannske einhverja höfrunga, ég veit ekki um það. Þeir eru ekki að gæta eigin fjárhagslegra hagsmuna þarna, alls ekki. (Gripið fram í.) Það fást þá skýringar á því hvernig þeir fara að því og að tala um bananalýðveldi í þessu sambandi. Það sem menn kalla bananalýðveldi er það þegar einhverjir auðhringar eru að reyna að fá aðstoð stjórnvalda til þess að arðræna þjóðir, svo að ég noti nú það orð sem venjulega er notað um þetta atferli, þar sem það tíðkast. Það á auðvitað ekki við hér. Ég endurtek, Bandaríkjamenn veiða alls engan hval og hafa engra peningalegra hagsmuna að gæta í þessu efni. Og þessi spurning um það, hvort við ætlum að standa uppréttir eða kengbeygðir. Ég ætla svo sannarlega að leggja til að það verði ekki mótmælt, og ég ætla ekki að beygja mig nokkurn skapaðan hlut, því mér finnst ég vera fullt eins réttur ef ekki réttari eftir, af því að ég þori að horfast í augu við staðreyndir.

Ég hef reynt að gera mér glögga grein fyrir málinu, eins glögglega og ég get með því að kynna mér öll þau skjöl sem ég hef getað höndum yfir komist nú síðustu daga. Ég skal játa það að ég hafði ekki kynnt mér þetta mál nægilega vel. Þetta er hið furðulegasta mál. Hér hefur komið fram að það eru a. m. k. þrjár útgáfur af ályktuninni, sem hér hafa verið í umferð, mjög mismunandi að efni, og á röngum forsendum hafa menn verið að mynda sér skoðanir og vinna eftir röngum vinnuplöggum. Það eru þrjár útgáfur komnar af þessu skjali og þetta er ályktun sem samþykkt var í sumar. Sú síðasta kemur ekki fyrr en 2. sept. Því hafa menn ekki gert sér grein fyrir fyrr en í gær. Samkv. því — og það er sú rétta væntanlega — samkv. því er ekki útrunninn okkar frestur til að mótmæla. 180 dagarnir eru ekki liðnir frá 2. sept. og ráðinu ber að tilkynna hverju einasta ríki um samþykktir. sú samþykkt barst okkur ekki fyrr en einhvern tíma eftir 2. sept. Þess vegna væri mánuður til stefnu. Við þyrftum ekki endilega þess vegna að mínu mati að afgreiða málið í kvöld. Við skulum bara gera það engu að síður. En það sem er kannske hálfu verra er að ef við ætlum að mótmæla, þá skyldum við ekki gera það um leið og hinar fjórar þjóðirnar, sem hér voru upp taldar, þ. e. Noregur, Sovétríkin, Japan og Perú, gerðu það. Þá hefði þó ekki athygli alheimsins beinst að okkur Íslendingum einum, sem talið er að séu að mótmæla á síðasta degi, að við séum eina rányrkjuþjóðin í heiminum. Hinar eru kannske meira og minna gleymdar eins og hér kom fram. Þá er það nú svo, að ég hef séð dreifimiða og orðið var við áróður svipaðan og beitt er gegn okkur, gegn Japönum og öðrum. En þetta er nú heldur ekki aðalatriðið.

Hæstv. sjútvrh. sagði að við mundum tapa af einhverjum miklum rétti ef við ekki mótmæltum. Þannig hefur málið verið lagt fyrir. Ég vil segja það — og þið fyrirgefið þó að ég minni á að ég hef setið 12 fundi síðustu hafréttarráðstefnu og þannig samanlagt allt upp undir eitt ár verið að hlusta á raddir manna og reyna að kynnast sjónarmiðum þeirra og — (Gripið fram í.) já, ég segi það án þess að vera nokkuð feiminn, ég hef reynt að leggja mig fram um að kynna mér hafréttarmálefnin eins og ég hef getað, ég held að við séum ekki að tapa af neinum rétti í bókstaflegri merkingu. Ég held að eftir þessar 3 vertíðir, sem við þó höfum áfram, verði engar hvalveiðar heimilaðar, hvorki þessum fjórum þjóðum sem mótmæltu né neinum öðrum. Það getur orðið eitthvað síðar, að þá verði heimilaðar hvalveiðar.

Ég hygg að á þessum fjórum árum muni jafnvel þetta Alþjóðahvalveiðiráð verða lagt niður og þjóðirnar mynda aðra stofnun. Þetta ráð er ekki byggt á ákvæðum hafréttarsáttmálans, enda voru þessi samtök orðin til löngu áður en hann sá dagsins ljós. Ég held að þetta mál verði allt saman tekið upp í heild og reynt að finna heppilega niðurstöðu. Og hver er þá andi hafréttarsáttmálans og hvernig á að vinna að þessu máli? Hann er sá, að þjóðirnar eigi að hafa samstarf, þær eigi að mynda með sér samtök til nýtingar á auðæfum hafsins. Ég sagði: til nýtingar, en auðvitað fyrst og fremst til verndar, það er rétt. En það fer alltaf saman í öllum ályktunum, í öllum greinum þar sem um þessi mál er fjallað, að það eigi ekki einungis að vernda fiskinn eða hvalinn eða auðæfi hafsins. Það eigi líka að nýta þessi auðæfi.

Þegar síðasta hafréttarráðstefna hófst lá fyrir tillaga frá Möltu, sem vakti heimsathygli, um það að úthöfin skyldu verða sameiginleg arfleifð mannkyns, sameign mannkynsins. Það ætti ekki eingöngu að vera í þágu strandþjóðanna, heldur líka til þess að næra sveltandi þjóðir, og allar þjóðir heims ættu ítök í þessum auðæfum. Út á það hefur allt starfið gengið.

Að vísu hafa strandþjóðirnar gengið miklu lengra en landlukt ríki hafa viljað og við höfum reynt að ná því sem við höfum getað. Ég er ekki barnanna bestur í því efni. Ég á mikið eftir óunnið á því sviði, að því er hafsbotninn varðar, og við hér á Alþingi að tryggja okkar réttindi þar eftir hafréttarsáttmálanum. En við verðum að hafa í huga að þessir stofnar, hvalastofnarnir, eru því miður alls ekki eign Íslendinga. Þeir dvelja hér skamman tíma árs. Þeir eiga afkvæmi sín suður undir miðbaug. Þetta er sameiginleg eign mannkyns í skilningi hafréttarsáttmálans. Sjálfsagt er að nýta þennan stofn, ekki ofnýta hann og ekki vannýta hann. Það er líka það sem hafréttarsáttmálinn segir. Að því verður unnið að því er þessa stofna varðar eins og öll önnur auðæfi hafsins á næstu árum að siðaðra manna hætti með samkomulagi, umræðum, rökræðum, gagnrýni, mótmælum, þar sem það á við.

Ég held að við missum nákvæmlega engan rétt ef við samþykkjum það nú í kvöld að mótmæla ekki. Ég held jafnvel að þegar við komum eftir 1 ár, 2 ár, 3 ár með meiri upplýsingar um hvalastofnana sem við erum að afla, meira en kannske nokkur annar af því að við erum nú að hvalveiðum þá verði okkur kannske tekið betur en hinum, sem voru að mótmæla, þegar farið verður að ákveða nýja kvóta. Og það er athyglisvert, þó að það þyki kannske formsatriði, að það er ekki talað um algert bann, eins og alltaf er verið að segja, heldur að kvótar skuli í bili miðast við núll. Af hverju haldið þið að það orðalag sé sett nema vegna þess að gert er ráð fyrir að það komi kvótar kannske einhvern tíma aftur? Þetta er samkomulagsorðalag sýnilega. Annars hefði verið sett þarna allsherjarbann.

Það er sagt, og það segir Þórður Ásgeirsson, sem sjálfsagt er fróðastur um þetta, að sá munur sem þarna kunni að verða á að mótmæla og mótmæla ekki sé helst sá, að óskir þessara fjögurra, sem þarna mótmæli, komi sjálfkrafa á dagskrá og umræður um þeirra kvóta. Ég held að það þurfi einfalda samþykkt í ráðinu til þess að sambærileg ósk frá Íslendingum fáist rædd. Ég á ekki von á að það fengist ekki einfaldur meiri hluti til að okkar óskir verði ræddar af því að við mótmæltum ekki, en hinna kröfur yrðu ræddar af því að þeir mótmæltu. Mér finnst það býsna ólíklegt að þær þjóðir sem vilja friða hvalastofnana neiti okkur um sama rétt og hinum, sem mótmæltu.

Það getur vel verið að mér skjátlist í einhverju af þessu. En ég held að við séum ekki að missa þarna a. m. k. neinn mikinn rétt. Í 64. og 65. gr. hafréttarsáttmálans er sérstaklega um það rætt, hvernig fara beri með flökkufiska þá sem æða um heimshöfin. Það er að vísu rætt um fiska í 5. gr., en í 120. gr. er vitnað til þess, að þetta skuli allt saman gilda einnig um hvalinn, og það eru einstaklega strangar reglur um það, að ein þjóðin, þar sem slíkir stofnar dvelja tiltölulega skamman tíma, megi ekki hirða allan fiskinn, heldur eigi að vera algert samkomulag um það hver skuli vera hlutdeild hvers og eins í slíkum stofni. Ennþá strangari reglur eru raunar um þá fiska sem hrygna í fersku vatni, t. d. laxinn. Þar má ekki við honum hreyfa nánast. Og samt eru Færeyingar að veiða þar í stórum stíl. En það er mál sem er fyrir utan umræðuefnið hér í kvöld, en verður svo sannarlega rætt nánar áður en langt um líður.

En af því að ég er að ræða um þetta get ég gjarnan minnt á það, að Íslendingum ætti nú að vera það í fersku minni að það er ætlast til þess að fiskstofnar séu nýttir. Í gegnum alla hafréttarráðstefnuna höfum við verið að berjast eins og við höfum lifandi getað við að halda inni íslensku greininni svokölluðu, 71. gr., sem undanþiggur okkur þeirri kvöð að aðrar þjóðir veiði innan landhelgi okkar, ef við ekki fullnýtum aflann. Það er sem sagt skylt að nýta aflann. Ef einhver þjóð getur ekki nýtt hann, þá er hún skyldug til að leyfa öðrum þjóðum að nýta hann. Svo langt er gengið í því að nýta á heilbrigðan hátt öll auðæfi hafsins.

Eins og ég sagði áðan eigum við ýmis réttindi ósótt og verðum að gera það af manndómi og reisn, sanngirni og skilningi og af metnaði auðvitað líka, en ekki af ofmetnaði, ekki með stóryrðum, ekki með óhæfilegri frekju. Við eigum að gera það á sama hátt og við hingað til höfum gert. Við eigum að vera friðunarþjóð og við eigum að vera framsækin í því að vernda auðæfi hafsins en nýta þau á heilbrigðan og skynsamlegan hátt og sleppa öllu ofstæki í því efni.