27.10.1982
Neðri deild: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

28. mál, málefni aldraðra

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég fagna þeim umr. um þetta merka frv., sem ráðh. hefur nú flutt hér í annað sinn, og tek undir það sem hann hefur sagt um frv. Ég vil aðeins geta þess, að það eru margir góðir og sterkir aðilar sem starfa nú að málefnum aldraðra. Það er t.d. ekki langt síðan, aðeins vika, að þjóðkirkjan hafði hér ráðstefnu um málefni aldraðra, og kom þar margt fram sem vakti athygli. M.a. var erindi sem fjallaði sérstaklega um þetta frv. og undirtektir á þeim fundi voru mjög góðar.

Ég vil nú ekki segja að hér sé um einhverja nýlendustefnu að ræða og harma að hv. 5. þm. Vestf. skuli taka þannig til orða. Að sjálfsögðu er þörfin brýn um land allt fyrir aðstöðu fyrir aldraða. Og hvað er húsnæði fyrir aldraða? Það er sú aðstaða sem gamall maður eða gömul kona þarf miðað við aðstæður og ástand viðkomandi einstaklings. Þá er sama hvort það er íbúð fyrir aldraða eða sjúkrapláss á langlegudeild. Ráðh. hefur að mínu mati réttilega veitt fé til framkvæmda í B-álmu Borgarspítalans, sem er hugsuð m.a. sem langlegudeild fyrir aldraða og sjúka sem þurfa á sjúkraaðstoð eða hjúkrun og læknisþjónustu að halda.

Ég vil segja það, af því að Reykjavík hefur komið talsvert við sögu í þessum umr., að borgarstjórn Reykjavíkur gerir sér grein fyrir, ekki bara sá borgarstjórnarmeirihluti sem nú er, heldur hefur borgarstjórn á hverjum tíma alltaf gert sér grein fyrir því, að það er talsverður straumur af öldruðu fólki utan af landi til Reykjavíkurborgar. Þetta fólk er allt velkomið. Borgarstjórn hefur aldrei hafnað fyrirgreiðslu við aldraða hvaðan sem þeir koma ef möguleiki er fyrir hendi til að leysa vandamálin. Við gerum okkur grein fyrir því hér í Reykjavík að við erum höfuðborg landsins og þetta er borg fólksins í landinu, ekki bara þeirra íbúa sem hér eru fæddir og uppaldir. Ég sé því ekki að ráðh. sé að gera rangt með því að stuðla að því að aðstaðan hér í höfuðborginni verði bætt frá degi til dags, enda er þörfin meiri og meiri eftir því sem tíminn líður fyrir aðstoð við fólk sem kemur alls staðar að.

Ég vil líka taka það fram, vegna þess að ég var formaður fyrir byggingarnefnd fyrir aldraða, sem skipuð var á sínum tíma af borgarstjóranum í Reykjavík sem þá var, hv. alþm. Birgi Ísl. Gunnarssyni, og síðan staðfest af vinstri meiri hlutanum, sem síðast sat í borgarstjórn, að það var þessi byggingarnefnd sem tók allar ákvarðanir og er að öllu leyti ábyrg fyrir öllu því sem getur heitið eða kallast sóun í framkvæmdum eða sóun við mannvirkjagerðina. Ég tek það á mínar herðar og leiðrétti hér með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur eða aðra þá þm. sem hafa getið um að það hafi verið að kröfum heilbrigðisstéttanna að þessi sóun hefur átt sér stað. Þessi sóun felst einfaldlega í því, að við erum að byggja heimili fyrir aldraða sem þjóna því fólki á allan hátt, eru ekki bara ópersónulegir dvalarstaðir, heldur ánægjuleg heimili, þar sem þjónustan er fullkomin á sem bestan og nýtískulegastan hátt. Þar höfum við tekið til fyrirmyndar þá sem hafa mestu reynsluna í umönnun um aldraða, bæði heilbrigða og sjúka, en það er elliheimilið Grund og Gísli Sigurbjörnsson og forustumenn Dvalarheimils aldraðra sjómanna. Ég held að framkvæmdir við þau mannvirki sem hafa á undanförnum árum risið séu til fyrirmyndar. Ég skal viðurkenna að það er viss sóun miðað við það sem áður var. Það er meira lagt í þjónustukjarna þessara mannvirkja en áður var. Þörfin er önnur, þjóðfélagið er öðruvísi en það var. Ef um sóun er að ræða má ekki í þessu tilfelli kenna um kröfum heilbrigðisstéttanna. Það er rangt. Allt er gert í samráði við byggingarnefndina, sem ég veitti forustu, og þá lækna og þá aðra aðila sem við leituðum til. En teikningar og hönnun voru að öllu leyti eftir okkar óskum.

Ég vil benda á það vegna ummæla hv. síðasta ræðumanns hér, hv. 2. þm. Norðurl. e., að Reykjavik hefur breytt gömlum bústöðum til þjónustu við aldraða alveg á sama hátt og Akureyri er að gera og er þar aðallega um langlegudeildir að ræða. Hvíta bandið hér í Reykjavík hefur verið tekið að hluta undir langlegudeild fyrir aldraða og Hafnarbúðir fyrir nokkrum árum og meira að segja var helmingurinn af nýjasta húsinu, Droplaugarstöðum, sem nýlega var tekið í notkun með mikilli aðstoð frá félmrh., efri hæðirnar, tekinn undir langlegusjúklinga eða sjúklinga með sérþarfir. Það er því talsvert unnið. En að sjálfsögðu er vandamálið það brýnt að það verður ekki leyst á skömmum tíma. Það verður alls ekki leyst á skömmum tíma, en það verður endanlega leyst með markvissri vinnu að lausnum á þessum málum. Því vil ég leggja það til, að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu á hv. Alþingi til þess að koma í veg fyrir að meiri tími fari í að tala en að framkvæma.

Ég vil geta þess, að á síðasta fundi borgarstjórnar kom fram tillaga frá Öddu Báru Sigfúsdóttur borgarfulltrúa um að borgarstjórn skoraði á þm. Reykjavíkur að styðja þetta frv. og veita því brautargengi og reyna að hraða því gegnum Alþingi. Þessi tillaga hlaut mjög góðar undirtektir í borgarstjórn, en var vísað til borgarráðs og félagsmálastjóra falið að flýta sinni umsögn, sem hefur dregist of lengi og þá líklega vegna þess að það var augljóst að frv. næði ekki fram að ganga á síðasta þingi. Hann mun nú skila sinni umsögn. Það var samstaða um að afgreiðslu þessa frv. yrði hraðað með áskorun á þm. Reykv. að vinna að því. En að sjálfsögðu áskilur borgarstjórn Reykjavíkur sér allan rétt til þess að gera aths. við og koma með brtt. við frv. og vonum við að þær verði teknar til greina.

Ég vil taka undir með þeim sem hafa talað fyrir því að þetta frv. sé gott og þetta frv. sé nauðsynlegt og ég þakka ráðh. fyrir að hafa lagt þetta frv. fram svo fljótt sem hann gerði. Hann hefur tekið mjög vel og mannlega á öllum þeim erindum sem ég hef komið með í þessum mátaflokki. Ég vona að inn í þetta mál fléttist ekki nein flokkspólitík. Við höfum hérna í Reykjavík unnið að þessu alveg ópólitíski. Það hefur verið samstaða hjá öllum pólitískum flokkum. Það eru þeir sömu flokkar og sitja hér á Alþingi sem þar hafa starfað saman og pólitík ekki tafið fyrir. Ég vona að það verði hér málefnaleg og góð afgreiðsla og frv. fari með hraði í gegnum Alþingi.