09.02.1983
Neðri deild: 36. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1820 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

Um þingsköp

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég skil það svo að í huga hæstv. forseta sé það réttlát fundarstjórn að leyfa hæstv. ráðh. að rausa hér — ætli það sé ekki kominn klukkutími? Hæstv. ráðh. fékk orðið áðan eftir að hæstv. forseti hafði sagt að umr. yrði frestað strax og hv. frummælandi, 6. landsk. þm. hefði lokið máli sínu. Þá lá það fyrir að óbreyttir þm. fengju ekki að taka til máls á eftir þeim ræðumanni. Hins vegar kemur nú í ljós að hæstv. forseti gefur hæstv. ráðh. orðið og hafði ég þó beðið um það á undan. Síðan hefur hæstv. ráðh. talað í þeim tón að full ástæða er til að gera aths. við hans orð. Ber að skilja fundarstjórn hæstv. forseta svo, að vér venjulegir þm. sitjum ekki á sama bekk og hæstv. ráðh.? Ég veit að við höfum minni stóla og kannske minna skegg, en ég ætla ekki að láta mér vaxa skegg til þess að hafa hér jafnan rétt við ráðh. Ber að skilja það svo, að hæstv. forseti standi fast á því að ég fái ekki að gera aths. eins og hæstv. ráðh.? Hann var búinn að tala í 50 mínútur áður, en ég hafði ekki talað í eina einustu mínútu. Ber að skilja hæstv. forseta svo að hann standi við þann úrskurð? — Skyndilega er hæstv. forseta tregt tungu að hræra.