15.02.1983
Efri deild: 44. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

190. mál, orkulög

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. sagði að ég hefði vikið mér undan að svara því hvort ég teldi rétt að stjórnvöld hefðu hönd í bagga með gjaldskrám. Ég hefði gert það hvað varðar Landsvirkjun. (Iðnrh.: Nei, það vantaði svör varðandi Landsvirkjun.) Já, ég hefði vikið mér undan því varðandi Landsvirkjun. Þetta er alveg rétt. Mér láðist að taka það beint fram. En ég vil með ánægju lýsa því hér yfir, að ég er því fylgjandi að núgildandi ákvæði í landsvirkjunarlögum gildi um þetta efni. Það er í samræmi við það sem eignaraðilar Landsvirkjunar hafa nú komið sér saman um, ríki, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, og ég hef áður lýst.

Hæstv. ráðh. vék nokkrum orðum að spurningu minni um það, hvers vegna hann hefði ekki leyft þær hækkanir á Hitaveitu Reykjavíkur sem um hefði verið beðið. Ég hef heyrt hans svar og ég hef það í minni. En aðalatriðið er að hans ákvörðun var þannig að hann hafði enga heimild til þess að taka hana.