15.02.1983
Neðri deild: 40. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1974 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

195. mál, viðmiðunarkerfi fyrir laun

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Frv. þetta er hingað til Nd. komið með nokkuð undarlegum hætti. Vitað er að mikið ósamkomulag hefur verið ríkjandi í ríkisstj. um nýja vísitöluviðmiðun launa, en yfirlýsing um að slík ný viðmiðun yrði upp tekin fyrir 1. mars n. k. var gefin af ríkisstj. allri í tengslum við setningu brbl. í ágústmánuði s. l. Þegar til átti að taka náðist hins vegar ekki samkomulag um að framfylgja hinni sameiginlegu yfirlýsingu ríkisstj. eins og til stóð. Ítrekaðar viðræður mánuðum saman um sameiginlega niðurstöðu báru ekki árangur, uns forsrh. brá á það ráð að flytja frv. í eigin nafni, en ekki nafni ríkisstj. Er hæstv. ráðh. studdur í málinu af ráðherrum Sjálfstfl. og Framsfl., en ráðh. og þm. Alþb. eru frv.-flutningnum andvígir. Ljóst er því að frv. er ekki stjfrv. í lögformlegum og venjuhelguðum skilningi þess orðs.

Þess eru vissulega dæmi að ráðh. í ríkisstj. flytji í eigin nafni frv., sem ekki er stuðningur við meðal allra ríkisstjórnaraðila. Síðast var það gert árið 1979, þegar þáv. forsrh. Ólafur Jóhannesson flutti frv. um stjórn efnahagsmála hér á Alþingi. Einn þáv. stjórnarflokka, Alþb., stóð ekki að því frv. Þetta frv. var undanfari laga sem síðan hafa verið kennd við flm. og nefnd Ólafslög. Ég man eftir nokkrum fleiri dæmum um slíkan flutning ráðh. á frv. sem ríkisstj. sem heild stendur ekki að, en í engu því tilviki minnist ég annars en ráðh. hafi þá flutt málið í þeirri þd. sem hann situr í sem þm., en hæstv. forsrh. á, eins og kunnugt er, ekki sæti í Nd., þar sem hann flytur málið, heldur í hv. Ed. Er það raunar auðsætt að svo þurfi að vera, því að til þess að ráðh. geti flutt mál í annarri deild en hann á sæti í þarf atbeina forseta Íslands, þannig að um stjfrv. sé ljóslega að ræða. Nú hefur frv. það sem hér er til umr. borið þannig fyrir Nd.forsrh. hefur lagt frv. fram við deildarforseta hafandi fengið undirritun forseta Íslands á skjal sem gerir frv. að stjfrv., enda hefði hæstv. forsrh. ekki fengið frv. samþykkt sem Nd.-mál með öðrum hætti, heldur orðið að flytja það í þeirri þingdeild sem hann situr í sem þm. Engu að síður er því staðfastlega haldið fram af Alþb. að frv. sé ekki stjfrv. Þarna stendur fullyrðing gegn fullyrðingu. Forsrh. flytur frv. hingað inn í Nd. sem stjfrv. og fær það í krafti þess tekið hér fyrir, en lýsir því þó yfir að frv. njóti ekki stuðnings stjórnarinnar. Hæstv. félmrh. segir frv. ekki geta verið stjfrv., enda standi stjórnin ekki að frv.

Í leikmanns augum virðist a. m. k. líklegra að lagaskýring hæstv. félmrh. sé nær sanni, því hvernig getur mál orðið stjórnarmál ef stjórnin stendur ekki að flutningi þess? Hvar mundi slíkt enda? Hvaða fordæmi er verið að gefa, sé á slíka málsmeðferð fallist? Þess vegna óskaði ég í gær eftir því, að hæstv. forseti léti mér í té upplýsingar um hvort dæmi séu þess að ráðherrar flytji mál sem hluti ríkisstj. hefur opinberlega lýst andstöðu við í annarri deild en hann situr í sem þm. Ég ítreka þessa ósk mína við hæstv. forseta, að ég fái þessa greinargerð í hendur, hvort nokkur fordæmi séu fyrir slíkum málatilbúnaði.

Þá vil ég ennfremur óska eftir svörum við því frá hæstv. forsrh. hvernig á því stendur að hann leggur svo mikla áherslu á að fá flutt mál í Nd., sem hann mætavel hefði sem ráðh. getað flutt í Ed. Mér vitanlega samkv. öllum fordæmum sem til eru úr þingsögunni, — ég fullyrði það með fyrirvara því að ég hef ekki séð annað, — ef þeim hefði verið fylgt, ætti ráðh. að hafa flutt þetta mál í Ed. Ég vildi gjarnan fá á því skýringar frá hæstv. ráðh., hvernig á því stendur að hann vill ekki flytja þetta frv. í þeirri deild sem hann á sæti í sem þm. Ég veit ekki annað en það sé að öðru leyti nokkuð gott samkomulag á milli hæstv. forsrh. og þeirrar deildar sem hann var kjörinn til að sitja í, enda veit ég ekki annað en hæstv. forsrh. hafi verið ljúft að taka þar sæti þegar hann á sínum tíma var þangað kjörinn, en eins og menn muna réði það kjör úrslitum um að hæstv. ráðh. tókst að koma saman þeirri ríkisstj. sem nú situr að völdum. Hins vegar liggur ljóst fyrir að úrskurður hæstv. forseta um að málið skuli skoðast sem stjórnarmál og fá því þá meðferð, sem það nú hlýtur, er endanlegur. Við því getur Nd. út af fyrir sig ekkert gert. Nd. getur ekki breytt þeim úrskurði. Þó að Nd. væri ekki sammála úrskurði forseta getur hún t. d. ekki vísað málinu til Ed., þótt svo það yrði niðurstaða meiri hl. dm. að málið ætti þar heima.

Um sjálft efnisatriði frv. get ég hins vegar verið fáorður að þessu sinni. Meginefni 1. gr. er að tekinn verði í notkun nýr grundvöllur framfærsluvísitölu samkv. niðurstöðum neyslukönnunar, sem gerð var á árunum 1979 og 1980, en fyrri grundvöllur var reistur á neyslusamsetningu samkv. búreikningum 100 fjölskyldna í Reykjavík fyrir tæpum 20 árum. Þessi breyting felur það eitt í sér að gera réttari þann mælikvarða sem notaður er til þess að mæla meðaltalshækkun framfærslukostnaðar í landinu. Um langt skeið hefur sá mælikvarði gefið rangar vísbendingar um raunverulegar breytingar á framfærslukostnaði, því grundvöllurinn, sem byggt var á, hefur lengi verið rangur. Fjölmargar tegundir neysluvarnings og heimilisútgjalda, sem voru óþekktar fyrir 20 árum hjá almennum fjölskyldum, tilheyra nú almennum neysluvenjum. Þessar tegundir neysluvarnings og útgjalda eru fæstar inni í vísitölugrundvellinum sem nú er stuðst við til þess að mæla breytingar á framfærslukostnaði.

Aðrar neysluvörur og útgjaldaliðir, sem fyrir 20 árum vógu létt í grundvellinum, hafa vaxið að mun, en dregið að sama skapi úr útgjöldum sem voru ráðandi í fjölskylduútgjöldum fyrir 20 árum. Sem dæmi um vaxandi útgjaldaliði fjölskyldna á þessu árabili má nefna útgjöld vegna bifreiða, skemmtana, fatakaupa og ferðalaga, sem vega nú miklu þyngra í neysluútgjöldum almennra fjölskyldna en gerðist fyrir 20 árum. En um minnkandi útgjaldaliði í hlutfallslegri neyslu má sem dæmi nefna kaup almennra matvæla.

Löngu er orðið nauðsynlegt að breyta grundvelli framfærsluvísitölunnar með tilliti til breyttrar neyslusamsetningar af þessu tagi. Sú breyting er aðeins til þess gerð að tryggja að mælingin sé rétt til þess að sjá svo um að „hitamælir verðbólgunnar“ sé rétt stilltur. Þeirri breytingu er Alþfl. hlynntur. Hann telur einnig þörf á að setja lög um gerð framfærsluvísitölunnar, sem ekki eru nú til, sem tryggi að grundvöllur framfærsluvísitölunnar sé ætíð neyslukönnun sem gerð sé meðal hæfilega fjölmenns úrtaks þjóðarinnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti og með fullkomnustu aðferðum sem tiltækar eru á hverjum tíma. Jafnframt fari fram kannanir um hugsanlega ólíka neyslusamsetningu og misjafnt vægi einstakra útgjaldaliða eftir landshlutum og upplýsingar, sem þannig eru fengnar, gangi sjálfkrafa inn sem breytingar á grundvelli framfærsluvísitölunnar þannig að hún sem „hitamælir verðbólgunnar“ mæli ávallt rétta breytingu á framfærslukostnaði hverju sinni. Þessi atriði vill Alþfl. að bundin séu í löggjöf — þau atriði að framfærsluvísitalan mæli ávallt rétt þær breytingar sem verða á framfærsluútgjöldum heimilanna.

Þessi atriði fjalla aðeins — ég endurtek aðeins — um framfærsluvísitöluna sem mælikvarða á framfærslukostnaði heimila og breytingar á honum. Hvernig og hvort tengja eigi þennan mælikvarða á breytingu á framfærslukostnaði við launin í landinu er svo annað mál, sem ekki má rugla saman við það atriði vístitölumálanna að tryggja að framfærsluvísitalan mæli alltaf rétt breytingu á framfærslukostnaði.

Ýmsar aðferðir hafa verið hafðar uppi um tengingu framfærsluvísitölu við laun. Stundum hafa launin verið tengd framfærsluvísitölu með einum eða öðrum hætti, stundum ekki. Þegar um slíka tengingu hefur verið að ræða hefur framfærsluvísitalan ýmist tengst laununum óbreytt eða hún hefur tengst þeim með einhverjum tilteknum skerðingum. Í síðari greinum frv. er fjallað um slíka tengingu framfærsluvísitölunnar við laun. Þar er lagt til að nokkur frávik verði gerð frá þeim viðmiðunum sem nú eru notaðar í sambandi við tengingu framfærsluvísitölu og launa. Sjálfsagt er að skoða áhrif þeirra breytinga og afstöðu aðila til þeirra, og verður það án efa gert í fjh.- og viðskn. þegar hún fær mál þetta til umfjöllunar. Það mál er einnig nú til umr. í Alþfl.

Meginatriði málsins er þó það að mínu viti, að reynslan hefur sýnt okkur að vísitölukerfið í þessum skilningi er orðið gerónýtt. Það tryggir ekki kaupmátt launa. Það tryggir ekki öryggi í efnahagsmálum og það tryggir ekki stöðugleika í stjórnarfari og hætt er við að breytingar á einstökum atriðum til eða frá innan þessa kerfis skili mjög takmörkuðum árangri, ef nokkrum. Það er skoðun Alþfl., að menn eigi að leita annarrar og nýrrar lausnar í þessum málum en þeirrar sem byggist á vísitölukerfi sem í raun og sannleika er orðin ónýt og haldlaus vörn. Til þess að tryggja kaupmátt launa, til þess að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum og árangur í efnahagsstjórnun ætti frekar að leita eftir samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins um mörkun tiltekinnar launamálastefnu til eins eða tveggja ára í senn, sem tryggi í senn lágmarkskaupmátt og lágmarkslífsafkomu og um leið tilteknar forsendur efnahagsstjórnunar svo að ná megi einhverjum tilætluðum árangri.

Þetta þýðir að sjálfsögðu gerbreytingu á þeim vinnubrögðum sem tíðkast hafa í þessu sambandi í okkar landi. Þetta þýðir að aðilar, bæði stjórnvöld og hagsmunaaðilar, verða að taka ákvarðanir til framtíðar í ljósi staðreynda um raunverulegar efnahagsaðstæður á hverjum tíma annars vegar og hins vegar í ljósi staðreynda um hvað er pólitískt framkvæmanlegt á hverri stundu og standa síðan saman hver og einn ábyrgur fyrir þeirri sameiginlegu stefnumótun og ákvörðunum sem þarna ættu sér stað.

Herra forseti. Ég er hér að tala um tillögur okkar Alþfl.-manna frá árinu 1978 um kjarasáttmála þjóðfélagsaflanna og stjórnvalda í stað þeirrar ábyrgðarlitlu hringavitleysu sem felst í því að menn hengja sig aftan í einhvern verðbólguvagn í sinni eilífu endalausu hringferð og halda að það sé einhver vörn gegn vá að menn séu verndaðir af einhverju vísitölukerfi, sem reynslan hefur því miður sýnt að hvorki getur orðið launafólki vörn né tæki til árangursríkrar efnahagsstjórnunar í höndum stjórnvalda. Við Alþfl.-menn teljum að forsenda gerbreyttrar efnahagsstefnu, forsenda gerbreyttrar efnahagsstjórnunar sé að taka upp þessi vinnubrögð, taka upp vinnubrögð í anda þess kjarasáttmála sem við höfum barist fyrir síðan í kosningunum 1978.