16.02.1983
Sameinað þing: 52. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2032 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson spyrst hér fyrir um þá ákvörðun fjmrh. að skuldfæra Íslenska álfélagið, ÍSAL, um samtals rúmlega 6.6 millj. Bandaríkjadala eða 127 millj. ísl. kr. vegna endurákvörðunar á framleiðslugjaldi félagsins fyrir árið 1976–1980. Ég skal gera nánari grein fyrir þessu máli og um leið leitast við að svara spurningum hv. þm.

Hann spurði um hver hefði tekið þessa ákvörðun og hvort ríkisstj. hefði staðið að henni. Fjmrn. tók þessa ákvörðun og það hefur fjallað um fyrri mál af þessu tagi. Málið heyrir undir fjmrn. og þar var ákvörðunin tekin.

Hann spurði um hvort borist hefðu einhver viðbrögð frá ÍSAL í þessu máli. Ég get einfaldlega svarað því þannig, að engin formleg viðbrögð hafa borist. Menn hafa vafalaust séð einhver viðbrögð forustumanna ÍSALs í fjölmiðlum, en ekki er ljóst hvernig fyrirtækið hyggst bregðast við.

Fjmrn. tilkynnti Íslenska álfélaginu þessa ákvörðun með bréfi 10. febr. 1983, þar sem gerð var grein fyrir að framleiðslugjaldið fyrir árið 1977, 1978 og 1979 hefði verið endurákvarðað á grundvelli skýrslna breska endurskoðunarfyrirtækisins Coopers & Lybrand og gjaldið hækkað um 2 824 645 Bandaríkjadali vegna væntanlegs hagnaðar félagsins á þessum árum. Áður hafði framleiðslugjald félagsins vegna áranna 1976 og 1980 verið endurákvarðað. Framleiðslugjaldið fyrir árið 1980 var endurákvarðað í sept. 1981 og var ÍSAL tilkynnt með bréfi 7. sept. 1981 að skattinneign félagsins hjá ríkissjóði hefði verið lækkuð um 2 654 000 Bandaríkjadali vegna vangoldins framleiðslugjalds það ár. Framleiðslugjald vegna ársins 1976 var endurákvarðað alveg nýlega eða í des. 1982 og var ÍSAL tilkynnt í bréfi dags. 27. des. 1982 að skattinneign félagsins hjá ríkissjóði hefði verið lækkuð um 498 309 Bandaríkjadali.

Ég gerði grein fyrir því á blaðamannafundi s. l. föstudag, að forvitnilegt yrði að sjá hvort ÍSAL mundi kæra þessa skattálagningu til gerðardóms. Ég benti á að við fyrri endurákvarðanir framleiðslugjalds, sem teknar voru á nákvæmlega sama hátt og þessi ákvörðun og enginn gerði þá aths. við hér innanlands svo að mér sé kunnugt um, var þeim ákvörðunum einungis mótmælt, en þær voru ekki kærðar til gerðardóms og hafa enn ekki verið kærðar til gerðardóms. Því miður gerði sjónvarpið og raunar fleiri fjölmiðlar ranga grein fyrir þessum ummælum mínum á þann veg, að sagt var í sjónvarpi að ÍSAL hefði ekki mótmælt þessari ákvörðun. Forstjóri ÍSALs kom í sjónvarpið og sagði að þetta væri rangt. Jú, vissulega hefðu þeir mótmælt. En það var alls ekki það sem ég sagði. Ég sagði að þeir hefðu ekki skotið málinu til gerðardóms. Það hafa þeir ekki gert, en vissulega hafa þeir mótmælt.

En það er sem sagt mjög stórt atriði í málinu eins og það liggur fyrir nú, að þetta er ekki í fyrsta sinn sem slík ákvörðun er tekin, heldur í þriðja sinn. Það voru eigi litlar fjárhæðir sem ákvarðanir voru teknar um í fyrri tvö skiptin, en þessar ákvarðanir voru þá ekki gagnrýndar í blöðum. Enginn spurði þá um hvort gerð hefði verið formleg ríkisstjórnarsamþykkt um málið og ákvörðun var þá ekki kærð til gerðardóms.

Að þessari seinustu skuldfærslu lokinni er skattinneign ÍSALs hjá ríkissjóði ekki lengur til staðar. Þess í stað á ríkissjóður inneign hjá ÍSAL sem nemur 1 827 853 Bandaríkjadölum miðað við árslok 1980. Eins og fram hefur komið jafngildir þessi upphæð 35 millj. ísl. kr. á núverandi gengi, en þá eru vextir af inneigninni frá upphafi ársins 1981 ekki meðtaldir.

Eins og ég gerði grein fyrir áðan er endurreikningur framleiðslugjaldsins fyrir umrædd ár gerður á grundvelli niðurstöðu sérstakrar endurskoðunar Coopers & Lybrand á verðlagningu súráls og rafskauta til ÍSALs árið 1976–1979 og endurskoðun sömu aðila á ársreikningum félagsins fyrir árið 1980. Jafnframt er stuðst við álit álviðræðunefndar. sem sett var fram í bréfi til iðnrh., dags. 21. nóvember 1982, en í álviðræðunefnd áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna. Ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna til þessa einróma álits álviðræðunefndar, en þar sagði:

„Það er skoðun álviðræðunefndar að niðurstöður Coopers & Lybrand sé haldbærasta matið á verðlagningu Alusuisse á þessum mikilvægu hráefnum til ÍSALs með hliðsjón af ákvæðum í grein 27.03 í aðalsamningi um viðskipti óháðra aðila og ákvæði í grein 2.03(c) í aðstoðarsamningi um rekstur, er kveður á um að Alusuisse skuli aðstoða ÍSAL við að útvega þau á „bestu fáanlegu kjörum“.

Yfirverð á aðföngum ÍSALs 1975–1981 reyndist samkv. niðurstöðu Coopers & Lybrand nema samtals 31.4 millj. Bandaríkjadala eða sem nemur tæpum 600 millj. ísl. kr. miðað við gengi 10. febr. 1983 og voru í fréttatilkynningu, sem send var frá fjmrn. s. l. föstudag, gefnar sundurliðaðar upplýsingar um hvernig þessar upphæðir skiptast á einstök ár.

Við endurskoðun á ársreikningum fyrir árið 1980 og 1981 voru reikningar ÍSALs ennfremur leiðréttir vegna afskrifta um samtals 4.4 millj. Bandaríkjadala eða um 84 millj. ísl. kr. miðað við gengi 10. febr. 1983.

Eins og þegar hefur komið fram hefur því hagnaður ÍSALs á tímabilinu 1975–1981 reynst samtals um 35.8 millj. Bandaríkjadala hærri en ársreikningar félagsins gáfu til kynna. Þessi upphæð jafngildir hvorki meira né minna en 683 millj. ísl. kr. á gengi hinn 10. febr. s. l.

Það er rétt að benda hv. þm. á það, að fyrir liggur lögfræðileg álitsgerð Benedikts Sigurjónssonar fyrrv. hæstaréttardómara og Ragnars Aðalsteinssonar hrl., dags. 13. okt. 1982, um álagningu framleiðslugjalds á Íslenska álfélagið hf. Meginniðurstöður álitsgerðarinnar eru þessar:

1. Ein af almennum grundvallarreglum skattaréttar, sem orðuð er í íslenskum skattalögum nr. 75/1981, er að endurákvarða megi skatt á skattaðila, ef í ljós kemur að honum hefur ekki verið gert að greiða skatta af öllum tekjum sínum og eignum, og skiptir þá ekki máli hvort um refsiverða háttsemi er að ræða eða ekki.

2. Réttur stjórnvalda til að endurákvarða skatt á skattaðila sætir þeim takmörkunum í íslenskum skattalögum að endurákvörðun getur aðeins náð til skatts vegna tekna og eigna á síðustu sex árum á undan því ári sem endurákvörðun fer fram á.

Eðlilegt er því talið að þessi regla eigi við um framleiðslugjald ÍSALs og megi endurákvarða framleiðslugjald vegna ársins 1976 og síðari ára. Einmitt með þetta í huga var framleiðslugjaldið fyrir árið 1976 endurákvarðað nú fyrir árslok og það ár tekið sérstaklega út úr.

Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson vakti athygli á því, að skattadeilan við ÍSAL væri ekki stærsta málið í þessu sambandi. Þetta er alveg rétt. Hækkun raforkuverðsins er enn stærra mál, varðar miklu stærri fjárhæðir. En getur nokkur haldið því fram að hér verði um eitthvert smámál að ræða eða smáupphæðir, þegar um er að ræða endurákvörðun skatta sem nema fjárhæðum á borð við þær sem hér hafa verið nefndar?

Ég held að nokkuð augljóst sé að skattamálið er líka mjög stórt mál. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm. að því hvort, eigi að skilja orð hans svo, að þetta mál sé svo smátt í sniðum að það megi bara liggja óafgreitt — eða átti að skilja hv. þm. svo, að hann sé á móti þessari ákvörðun?

Ég vek athygli þm. á því, að það var engin leið að greina á máli hans hvort hann væri eindregið mótfallinn þessari ákvörðun eða hvort hann notaði bara ákvörðunina sem tilefni til að ræða málið almennt. Ég verð að játa að það er orðið mjög erfitt oft og tíðum að átta sig á hvaða afstöðu hv. þm. Sjálfstfl. taka til einstakra mála, og þeir hafa nýlega setið hjá í stærsta máli sem þingið hefur afgreitt, en ég á ekki von á að það verði gert að meginreglu hjá hv. þm. Sjálfstfl. og hlýt því að spyrja: Hver er afstaða hv. þm. til þessarar ákvörðunar? Er hann með henni eða er hann á móti henni eða ætlar hann að sveipa sig í einhverja skýjahulu, einhvern þokuhjúp, og taka enga afstöðu?

Ég tel að það sé afskaplega léttvæg afstaða, sem kom fram hjá honum hér áðan, að benda á að hinn erlendi auðhringur eigi gerðardómsrétt, eins og hann nefndi. Auðvitað vitum við að hugsanlegt er að auðhringurinn reyni að skjóta málinu til gerðardóms, en það er ekkert innlegg í málið. Ef Alusuisse og ÍSAL vilja vísa þessu máli til gerðardóms er það þeirra mál. En ég hélt að það væri frumskylda okkar Íslendinga að hugsa fyrst og fremst um rétt okkar Íslendinga. Það var gert þegar þessi ákvörðun var tekin.