16.02.1983
Efri deild: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2061 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara langt út í efnislegar umr. um þetta mál nú við 1. umr. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær málið til athugunar, og við munum að sjálfsögðu vinna vel og dyggilega í því að kanna það ofan í kjölinn.

Það er nefnilega ekki svo, að við þm. höfum ekki áður heyrt talað um ýmiss konar gjöld, sem eiga að renna óskipt til vegagerðar. Það hefur verið nokkuð árvisst að slíkt væri ákveðið. Reynslan hefur reyndar orðið sú, að skattar af umferðinni hafa aukist og fé til vegagerðar hlutfallslega minnkað, því miður. Þetta höfum við raunar látið reikna út einmitt, fulltrúar Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. og munum leggja fram fólki til glöggvunar og þá auðvitað ekki síst hv. alþm. Ég er ekki að segja að það sé ekki ætlun bæði hæstv. fjmrh. og samgrh. að þetta veggjald, sem nú er svo nefnt, skuli renna óskipt til vegagerðar á þessu ári t. d., en reynslan hefur orðið sú með bensíngjöld og ýmislegt, að þó að bensínverð hafi hækkað gífurlega hefur ríkið stöðugt aukið sína hlutdeild í þeirri skattheimtu. Sama má segja um olíu, jöfnunargjald o. s. frv. Hér er því um að ræða nýjan skatt. Að vísu er gert ráð fyrir að eitthvað sé linað á öðrum gjöldum á móti, en skattlagning á umferðina á Íslandi er gífurleg og veldur kannske meira um þá kjaraskerðingu sem fólk hefur þurft að þola á undanförnum misserum en flest annað því bíllinn er nú einu sinni orðinn nauðsynjatæki.

Hitt er jafnnauðsynlegt að hafa eitthvert fjármagn til að halda áfram vegagerðinni, og er raunar sorglegt hve hægt hefur gengið að koma á fullbyggðum vegum, þ. e. vegum með bundnu slitlagi og sæmandi vegum. Þess vegna hefur það alltaf verið venjan, síðan ég kom hér inn á Alþingi, að þingflokkarnir hafa leitast við að sameinast um að tryggja eins mikið fjármagn í þessu efni og nokkur vegur hefur verið miðað við aðstæður hverju sinni og meiri samstaða ríkt um það en flestar fjáraflanir aðrar og fjárnotkun líka raunar og alltaf ríkt um það gott samstarf. Af okkar hálfu verður gott samstarf, hvort sem við svo föllumst á að gjöld á umferðina sé hægt að hækka, eins og ástand er nú og þegar fyrirsjáanlegt er að kjör eiga jafnvel enn eftir að versna og menn hafa bundið sér mjög þunga skuldabagga og mikill bifreiðainnflutningur verið, og er ekkert nema gott um það að segja að fleiri og fleiri hafa getað notað sér af þessum sjálfsögðu lífsþægindum og nauðsynjatæki í okkar landi þar sem ekki er um aðrar samgöngur að ræða til vinnu o. s. frv.

En ég ætla ekki að orðlengja þetta. Við gerum grein fyrir okkar sjónarmiðum þegar nefnd skilar áliti.