04.03.1983
Efri deild: 57. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2560 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

143. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ræða hv. 11. þm. Reykv. gæti gefið mér ærið tilefni til þess að fara að ræða húsnæðismálin almennt og frammistöðu hæstv. ríkisstj. og sér í lagi flokksbróður hv. 11. þm. Reykv., hæstv. félmrh., í þessum málum. Frammistaða sú er með endemum.

Hv. 11. þm. Reykv. sagði að það væru ýmsar leiðréttingar gerðar á löggjöfinni um Húsnæðisstofnun ríkisins með þessu frv. Ég get fallist á að það megi finna dæmi þess að svo sé gert. En ég hygg að sú skoðun standist, sem ég lét í ljós hér í mínum orðum áðan, að það skaðar ekki þau mál þó að frv. bíði til næsta þings þar sem löggjöfin sé tekin til endurskoðunar á miklu gagngerðari hátt en hér er gert ráð fyrir og jákvæðari.

Hv. 11. þm. Reykv. sagði að það hefði verið vandlegur undirbúningur að þessu frv. Ég hef enga tilhneigingu til að gera lítið úr þeim undirbúningi sem kann að hafa farið fram að þessu frv. og hef aldrei látið þess getið að sá undirbúningur hafi ekki verið vandlega gerður.

Hv. þm. sagði að breytingarnar í frv. væru í þágu þess fólks sem þarf á ódýrum íbúðum að halda. Ég held að þetta sé ekki rétt lýsing á þessu frv. þegar haft er í huga að meginatriðið fyrir hið fátæka fólk, sem þarf á húsnæði að halda, er að Byggingarsjóður ríkisins sé fjármagnaður þannig, að hann sé þess megnugur að veita þau lán sem nægja almenningi í landinu til að koma sér upp þaki yfir höfuðið með þeim kjörum sem fólkið getur staðið undir af almennum launatekjum.

Það er síður en svo nokkuð gert til að bæta úr því hörmulega ástandi sem hefur skapast í þessum málum frá því að núv. hæstv. ríkisstj. svipti Byggingarsjóð ríkisins þeim tekjustofni sem honum er ætlaður samkv. lögum, 2% launaskatti.

Af því að verið er að tala um breytingar í þágu þess fólks sem þarf á ódýrum íbúðum að halda verður huganum reikað að Byggingarsjóði verkamanna. Ekkert er gert til þess að breyta þeirri firru sem stendur í lögum núna og þýðir að ríkissjóður getur ekki eða á ekki samkv. bókstaf laganna að fjármagna nema 30% af byggingarkostnaði verkamannabústaða. Það mál eitt út af fyrir sig er hneykslunarhella og ætti að vera svo fyrir þá sem eru stöðugt með á vörunum að þeir vilji gæta hags fátæka fólksins í landinu og þeirra sem þurfa á ódýrum íbúðum að halda. Þetta frv. fjallar ekki um neina bót í þessu efni.

Skal ég ekki ræða þetta frekar, en aðeins víkja einu orði að þeirri frumlegu skýringu hv. 11. þm. Reykv.hv. félmn. hefðu ekki borist umsagnir um frv. vegna þess að það hefði verið svo vandlegur undirbúningur að því. Ég hygg nú að flestir þeirra níu, sem ekki hafa sent umsagnir um frv. en voru beðnir um það, viti harla lítið um undirbúninginn að þessu frv. nema einn aðili, Húsnæðisstofnun ríkisins að sjálfsögðu. En þó að Húsnæðisstofnun ríkisins sé vel kunnugt um undirbúning að þessu máli þá lýsir það ekki miklum áhuga fyrir framgöngu þess að Húsnæðisstofnun ríkisins skuli ekki hafa sent umsögn eða sýnt nokkurn lit á því að tjá sig um frv.

Hv. 11. þm. Reykv. sagði að stúdentar og leigjendasamtök hefðu komið á framfæri óskum um breytingar á húsnæðislöggjöfinni eins og hún er núna og vilji fá þau sjónarmið sín viðurkennd í frv. því sem hér er til umr. Þetta er alveg rétt. En það hefur fyrst og fremst borið á óánægju þessara aðila með ákvæði frv. sem snerta þá sjálfa. Hv. 1 l. þm. Reykv. hristir höfuðið þegar ég segi þetta. Það breytir ekki neinu um þetta efni því þessir aðilar hafa tjáð mér skoðanir sínar á þessu máli.