04.03.1983
Efri deild: 57. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2564 í B-deild Alþingistíðinda. (2415)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir það, með hvaða hætti hann hefur staðið að samningu þessa frv., sem hér um ræðir. og einnig fyrir að hafa ýtt á eftir því að frv. þetta geti orðið að lögum nú á þessu þingi, svo skammt sem eftir lifir af því.

Ég þarf aðeins að biðja hann skýringar á breytingunni sem samþykkt var á 5. gr., sem hann minnist lauslega á í framsöguræðu sinni, þar sem segir að lög þessi skuli gilda til ársloka 1987. Mér finnst alveg nauðsynlegt að við fáum að vita hérna í deildinni hvernig þessi brtt. er hugsuð og grunduð, hvort það sé eindregið álit þeirra hv. Nd.-manna að Íslendingar skuli fá að horfa á viðbjóðslegar ofbeldis- og klámmyndir á nýársnótt 1988 og þaðan í frá. Hvernig er þessi hugsun grunduð? Ef ekki eru rök fyrir þessari breytingu, aðeins tiktúruskapur og hégiljuháttur, mun ég nú leggja til að þessi brtt. verði felld í Ed.