10.11.1982
Efri deild: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

73. mál, stjórn flugmála

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins drepa á nokkur þau atriði sem hér hafa verið nefnd.

Hv. 5. þm. Vesturl. talaði um hæfnisskilyrði þau sem sett eru í 2. gr. Ég er honum út af fyrir sig alveg sammála að svona lagað orkar alltaf tvímælis. Það er ekki hægt að vísa í ákveðna menntun. Það má vel vera að svona skilyrði haldi ekki vel. Engu að síður eru þarna vissar leiðbeiningar, hygg ég, þannig að varla yrði maður skipaður flugmálastjóri sem hefði aldrei nálægt flugmálum komið. Reyndar held ég að ákvæði þau sem þarna eru um almenna og góða þekkingu á flugmálum hljóti að einangra skipun flugmálastjóra við mann sem hefur starfað aðflugmálum allmikið. En ég er sammála hv. þm. um að þetta orkar tvímælis. Reyndar hef ég verið þeirrar skoðunar, að engin slík skilyrði eigi að vera í lögum og það eigi að vera frjálst að velja hæfasta manninn. Ég geri ekki miklar aths. við þetta.

Hins vegar kom hv. 5. þm. Vesturl. og sömuleiðis hv. 3. landsk. þm. að því, að vald flugráðs væri mjög skert. Hv. 3. landsk. þm. taldi að ekki væri hér um þá valddreifingu að ræða sem þyrfti að vera. Ég held að hér sé um mikinn misskilning að ræða. í gildandi lögum segir: „Flugráð fer með stjórn flugmála undir yfirstjórn ráðherra.“ Ég kannast bókstaflega varla við nokkurt mál sem hefur ekki komið til ráðh., ef það hefur verið nokkurs virði. Það eru örfá smámál sem ekki hafa komið þangað. Í starfsreglum, sem settar voru 1976, segir að flugráð skuli senda öll mikilvæg mál til samgrn. Hitt er svo annað, að þetta hefur valdið alls konar misskilningi í meðferð fjölmargra daglegra mála og stundum hefur jafnvel orkað tvímælis hvort flugmálastjóri hafi heimild til að koma með mál sín beint til rn. án þess að þau fari fyrir stjórn sem kemur þó ekki saman oftar en aðra hverja viku. Það er útilokað að bíða með fjölmörg slík mál eftir fundum flugráðs og þess vegna hafa þær starfsvenjur skapast, að flugmálastjóri hefur komið beint með fjöldann allan af málum til rn. og hefur reyndar haft beint samband við önnur rn., eins og t.d. fjmrn., um mál sem undir slík rn. falla. Hér er því verið að reyna að greina þarna á milli þannig að slíkur misskilningur þurfi ekki að vera.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Vestf., að 5. gr. er e.t.v. ein sú mikilvægasta í þessu öllu. Þar er nú í fyrsta sinn tekið mjög ákveðið á þeim verkefnum sem falla undir flugmálastjórn. 5. gr. er mjög mikilvæg og skilgreinir langtum betur en áður var. Reyndar var engin viðunandi skilgreining til á því hvert væri verkefni flugmálastjórnar og þar með flugmálastjóra.

Það er rétt hjá hv. 5. þm. Vesturl., að 8. gr. mætti orða betur. Ég er sammála því. En svona vill nú stundum fara þegar verið er að hlaupa með mál á milli margra aðila og breyta einu til tveimur orðum í hvert skipti. Ég vil leyfa mér að fullyrða, að þeir sem með þetta mál fóru lögðu sig mjög fram um að mæta hugmyndum sem flestra sem að þessum málum koma. Það orkar alltaf tvímælis, en góðar leiðbeiningar voru teknar til greina og greinin því umorðuð með tilliti til þeirra. Það er alls ekki ætlunin með þessari grein að draga úr þeim verkefnum sem flugráð sinnir sem mikilvægustum í dag, en hins vegar á að fella brott hin ýmsu smærri verkefni sem eðlis síns vegna heyra beint undir rn. í öllum tilfellum.

Hv. þm. kom að því, að hann vildi að flugráð hefði eitt með útgáfu flugrekstrarleyfa að gera. Það er vitanlega veruleg breyting frá því sem nú er. Flugráð hefur ekki haft með það að gera. Hv. þm. kom inn á skipan flugmála og deildi á mig fyrir það. Við höfum áður tekið sennur um það mál í Sþ. og ég ætla ekki að fara að hefja umr. hér um það. Ég er honum algerlega ósammála. Ég tel að sú einokun, sem hefur verið hér á flugi, hafi reynst mjög illa. Ég tel að það hafi verið mistök 1974 að sameina flugfélögin. Ég tel að þá hafi átt að skipta leiðum eins og nú er gert. Það ástand sem þá hafði skapast var ófremdarástand, það er rétt, en í staðinn fyrir að sameina flugfélögin átti að skipta leiðum. Það vill svo til að ég sat í flugráði þá, en ég man varla eftir að flugráð væri um þetta mál spurt nema á hlaupum svo að við fengum lítið um það að fjalla þar. Hins vegar lýsti ég sjónarmiðum mínum á hinu háa Alþingi, þegar málið var rætt. Ég tel að nokkur samanburður sé þarna nauðsynlegur og samkeppni og að því er stefnt, eins og reyndar var um rætt í Sþ. í sambandi við þáltill. sem hv. þm. er flm. að bar ásamt öðrum Ætla ég svo ekki að far á fleiri orðum um þetta ágreiningsmál.

Minnst var á slökkviliðið. Það er oft búið að fjalla um, m.a. í flugráði, að sameina þessi tvö slökkvilið. Staðreyndin er sú, að það verður að gera þær kröfur að slökkvilið sé á flugvellinum. Það verður að vera staðsett þar sem það á skjótastan aðgang að flugvellinum. Allir eru sammala um það. Því getur vel komið til greina sameining þarna. En það breytir því ekki, að slökkvistöð verður að vera við flugbrautina. Sú krafa er gerð samkv. alþjóðareglum. Hvort sem slökkviliðsstjórinn er einn og sá sami, þá er alveg ljóst að starfsmenn, slökkvitæki og slökkvistöð verða að vera á báðum stöðum. Það getur vel verið að í þjálfun o.fl. megi ná einhverjum sparnaði. Staðreyndin er þó sú, að slökkviliðsmenn sem með slík mál fara á flugvöllum eru nokkuð sérþjálfaðir. Sömuleiðis hafa þeir komið að þjálfun starfsmanna flugmálastjóra um allt land, þar sem ekki eru sérstakir slökkviliðsmenn en slökkvitæki sem flugvallaumsjónarmönnum er ætlað að fara með. En ég vil taka það skýrt fram, að ekki hef ég á móti því ef hægt er að finna þarna leið til sparnaðar, enda væri — ég undirstrika það — ekki dregið á nokkurn hátt úr öryggisþættinum.

Ég ætla að koma síðar að því sem rætt var um Keflavíkurflugvöll. En hv. 3. landsk. þm. ræddi dálítið um verkaskiptinguna og reyndar kemur hann þá strax inn á mál Keflavíkurflugvallar. Það er misskilningur hjá hv. þm. að flugmálastjóri hafi ekki einnig mikið að gera með erlenda aðila, því að flugmálastjóri og hans stofnun sér um alla flugumsjón yfir Norður-Atlantshafið. Hún fer fram frá Reykjavíkurflugvelli. Það eru náttúrlega allt erlendir aðilar. Ég hygg að hv. þm. muni hafa átt við varnarliðið sem slíki. Það er rétt að flugmálastjóri hefur ekki með samskipti við það að gera.

En hv. þm. minntist svo dálítið á það hörmulega slys sem varð, sem ég ætla ekki að gera að miklu umræðuefni. Ég verð þó vegna misskilnings sem mér fannst koma fram hjá hv. þm. að rekja aðeins aðdraganda þess máls, sem ég setti mig mjög vel inn í.

Samkomulag varð um það við varnarliðið — ég hygg að það hafi verið á árinu 1976 eða svo — að byggður yrði flugturn og nýr radar, sem er með tvo skerma á einum ási. Annar skermurinn er hentugur til að gefa merki vegna yfirflugs yfir þetta flugumsjónarsvæði og var þegar ákveðið að flytja það merki inn á Reykjavíkurflugvöll og í þá flugumsjón sem þar er staðsett fyrir þetta flugumsjónarsvæði. Samkomulag hefur náðst um það við alþjóðaflugmálastofnunina að hún taki þátt í þeim kostnaði. Hins vegar er þar annar skermur sem hentar fyrir aðflugsstjórn meira staðbundið, sérstaklega þá inn á Reykjavíkurflugvöll og í nágrenni Reykjavíkurflugvallar því að hann getur náð til stærra sviðs. Þegar þjálfun fór fram á mönnum fór hún fram undir umsjá flugmálastjóra og loftferðaeftirlits og þá var gert ráð fyrir að þessi radar yrði mannaður. Hins vegar var mönnum flugmálastjóra af einhverjum ástæðum neitað um aðgöngu að turninum þegar manna átti þennan radar 1979. Þetta liggur allt fyrir skriflega og bréflega, m.a. frá varnarmáladeild, þar sem flugmálastjóra er tjáð að aðgang að flugturninum fái eingöngu starfsmenn varnarmáladeildar. Svo má um það deila hvort flugmálastjóri og þáv. samgrh. áttu að beygja sig undir það og biðja starfsmenn varnarmáladeildar að taka að sér umsjón með aðflugi inn á Reykjavíkurflugvöll. Ég get ekki hugsað mér það. Ég segi það bara hreint út: Ég veit ekki hvar komið er stjórn flugmála ef sú skipun á að festast í sessi. Ég get ekki hugsað mér það.

Sem betur fer hefur þetta mál leysts, og ég er sammála því að vitanlega hefði átt að leysa það fyrr með samkomulagi okkar utanrrh., þannig að starfsmenn sem þarna eru eru starfsmenn flugmálastjóra og engir sambúðarerfiðleikar, að því er ég best veit, á milli starfsmanna þar suður frá. Það er hins vegar rétt hjá hv. þm., að með því að þeir eru starfsmenn flugmálastjóra verða þeir að vera fleiri. Síðan þyrftu þeir að ganga á vaktir, sem hinir gætu þá fremur sinnt.

Á þessu máli eru tvær lausnir: Önnur er sú, að fallast þá á að starfsmenn varnarmáladeildar utanrrn, annist flugleiðsögn í gegnum radarinn á Suðvesturlandi og inn á Reykjavikurflugvöll. Þá gætu þeir orðið færri. Ég hef tekið fram, að ég get ekki fellt mig við þá lausn. Ég hef fallist á og hef enga brtt. við að utanrrh. fari með stjórn flugmála á Keflavíkurflugvelli, en mér þykir nokkuð langt gengið ef hann á að taka að sér yfirstjórn radaraðflugs að Reykjavíkurflugvelli og ég hef ekki orðið var við að núv. hæstv. utanrrh. seildist eftir því.

Hitt er svo lausn sem hefur töluvert verið rædd. Það er ekkert því til fyrirstöðu að færa einnig merkið frá þessum radarskermi til Reykjavikur. Það kostar 100 þús. kr. til viðbótar, sem er alls ekki meiri fjárhæð en það kostar að halda úti fjórum flugumsjónarmönnum og flytja leiðsögn þeirra eftir símalínum til Reykjavíkur, sem kostar töluvert á ári hverju því það þarf að leigja sérstakar símalinur til þess. Um þetta var nokkur misskilningur í upphafi, en það er nú upplýst að þetta má gera og ég hef gert tillögu um að merkið verði flutt og þá verði flugumsjón öll hér á Reykjavíkurflugvelli. Þarna er sem sagt um tvær leiðir að ræða og ég tel þá síðari eðlilega með tilliti til þess að hinir mennirnir eru ekki undir stjórn flugmálastjóra og flugmálaráðh. og ráðuneytis.

Eitt kom mér dálítið undarlega fyrir eyru, þegar hv. þm. sagði að tækin væru í eigu varnarliðsins. Þetta kann að vera rétt, ég þekki ekki svo vel til, en ég man ekki betur en flugturninn væri með pompi og prakt afhentur íslenskum stjórnvöldum, vígður o.s.frv. Ég hélt satt að segja að tækin þarna suður frá væru í íslenskri eigu, en hæstv. utanrrh. veit þetta náttúrulega betur. A.m.k. finnst mér að þau ættu að vera alveg skilyrðislaust í íslenskri eigu, en ekki í eigu varnarliðsins. Þetta er íslenskur flugvöllur, sem varnarliðið hefur aðgang að og hefur greitt kostnaðinn af alls konar framkvæmdum við. Við getum sagt það séu leigugjöld vegna afnota af flugvellinum. Ég tel því að það eigi að kippa þessu í lag, ef þetta er rétt hjá hv. 3. landsk. þm.

Ég vil taka undir það, að ekki er ástæða til að gera mikið úr árekstrum. Það hefur tekist að leysa þau mál undanfarið, eins og kom fram hjá hæstv. utanrrh. Ég hef sett bráðabirgðaákvæðið í frv. eins og hæstv. utanrrh. hefur mælt með því. Við höfum að sjálfsögðu fjallað um þetta og það kom fram í ræðu hans að hann er sáttur við ákvæðið eins og það er.

Ég tók eftir því, að hæstv. utanrrh. sagði að það væri ekkert því til fyrirstöðu að flugmálastjóri færi með yfirumsjón þessara mála undir stjórn utanrrh. Ég lít á það sem málefni utanrrh. frekar en samgrh. hverjum hann felur þá milligöngu. En ég tek undir það, sem kom fram h já hæstv. utanrrh., að ekkert sé því til fyrirstöðu og ég tel það að ýmsu leyti eðlilegra. Hins vegar hefur önnur skipan verið á.

Eitt er það atriði sem kom fram hjá hæstv. utanrrh., að flugmálstjóri fer, eins og fram kemur í ákvæði til bráðabirgða, með öryggismálin og ber þannig ábyrgð á þeim. Það er rétt, að loftferðaeftirlitið gefur starfsskírteini út fyrir þá menn sem að þeim málum starfa, t.d. flugumferðarstjóra og þá sem eru í flugturninum og fara með stjórn radarsins, og margt fleira. Hins vegar er það utanrrn. sem ræður þessa menn. Er það ekki rétt hjá mér? Ég hef a.m.k. aldrei haft tækifæri til að ráða neinn. (Gripið fram í.) Já, flugumferðarstjóra í flugturninum. Það er þetta sem hefur valdið vissum stirðleika. Sagt hefur verið, að þó að þeir séu vissulega með vottorð frá loftferðaeftirlitinu hafi flugmálastjóri ekki heimild til að vísa þeim frá starfi, t.d. ef eitthvað kemur fyrir, og þetta hefur valdið vissum ágreiningi, sem tekist hefur að leysa. Ég tel fyrir mitt leyti að þarna sé viss hnútur á. Það væri eðlilegra að sá maður sem er ábyrgur fyrir öryggismálunum sé einnig yfirmaður allra þeirra manna sem að þeim málum starfa. En eins og ég hef margsagt hef ég ekki lagt til breytingu á því sem nú er og tek undir það með hv. 4. þm. Vestf., að það er ekki eðlilegt að þessi lög breyti þessu fyrirkomulagi. Ég hygg það séu fremur lög um stjórnarráð sem sköpuðu grundvöll til þessarar skiptingar.