11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2940 í B-deild Alþingistíðinda. (2972)

230. mál, almannatryggingar

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég get vel skilið viðbrögð hv. 3. þm. Austurl., Halldórs Ásgrímssonar, við þessu máli í heild. Hv. þm. er þekktur að því að vera talnaglöggur, eins og hæstv. félmrh. sagði, og hann er þekktur að því að vera varfærinn í fjármálum og ég gef honum fullt hrós fyrir það. Hins vegar verður hv. þm. að skilja að flutningur þessa frv. nú í þessari mynd eru ákaflega eðlileg viðbrögð við því sem hér hefur gerst á hv. Alþingi.

Á s.l. þingi var flutt frv. um það að almannatryggingar greiddu hluta af tannlæknakostnaði. Þá var því haldið fram, að það væri mun eðlilegra að taka það inn sem frádrátt frá skatti og frv. náði því ekki fram að ganga. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flytur nú á þessu þingi frv. um að fara þá leið sem ráðlögð var á síðasta Alþingi. Viðbrögð hæstv. félmrh. við því er að koma hér upp í ræðustól og lýsa því yfir, að hann hafi tekið þá ákvörðun að breyta reglugerð á þann veg, að almennur tannlæknakostnaður verði greiddur að 20% af almannatryggingum. Hann segir þá jafnframt að þetta hafi fengist samþykkt í ríkisstj., að öll hæstv. ríkisstj. standi að því máli.

Nú er það mjög dregið í efa að fullar lagaheimildir séu fyrir því. Hinir færustu lögfræðingar hafa látið það álit í ljós að fyrir þessu sé ekki lagaheimild. Það eru því fullkomlega eðlileg viðbrögð að því sé haldið fram hér á hv. Alþingi, að þetta frv. verði hér að ná fram að ganga til þess að hæstv. félmrh. og hæstv. ríkisstj. fái fullkominn lagagrundvöll fyrir því að framkvæma það sem hún hefur samþykkt. Hv. 3. þm. Austurl. hafði áhyggjur af því að ríkissjóður kynni ekki að geta staðið undir þessum auknu greiðslum — þær áhyggjur skil ég vel — og hann fullyrðir að fjárhagur ríkissjóðs fari versnandi, en þetta stangast algerlega á við það sem hæstv. fjmrh. hefur sagt um þetta mál, því að daginn sem hæstv. félmrh. lýsti því yfir hér á hv. Alþingi að hann hefði ákveðið að taka þetta inn í reglugerð var flutt viðtal við hæstv. fjmrh. um málið í Ríkisútvarpinu og hæstv. fjmrh. lýsti því þar yfir, að hann teldi engin vandkvæði á því að greiða þetta. Það mundi vera greiðsluafgangur hjá ríkissjóði til þess að greiða það sem þetta hefði í för með sér í útgjöldum. Það er því engin furða þó að þeir sem flytja þetta frv. haldi fast við það að það nái hér fram að ganga, þegar fulltrúar hæstv. ríkisstj., bæði hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh., hafa lýst yfir að það sé ekkert auðveldara en að framkvæma reglu eins og þá sem hér er lögð til. Hv. 3. þm. Austurl. á því auðvitað fyrst og fremst að snúa sér til samstarfsaðila sinna í ríkisstj. til þess að flytja gagnrýni á þetta mál, en ekki á þá sem flytja hér frv. til að tryggja með lögum að stefnumark og ákvörðun hæstv. ríkisstj. geti náð fram að ganga.